Skoða efni
Orlando

Orlando

Ódýrt flug til Orlando

Borgin Orlando í fylkinu Flórída er áfangastaður sem einkennist af ævintýrum, afþreyingu og botnlausri skemmtun í sólríku og nútímalegu borgarlandslagi. Hér er að finna fleiri skemmtigarða en nokkurs staðar annars staðar í heiminum og afar vinsæla ráðstefnu- og fyrirlestramenningu enda sóttu 75 milljón manns Orlando heim árið 2018. Það er gríðarlegur fjöldi gesta fyrir borg sem telur aðeins 2,5 milljónir íbúa. Það er því ekki beinlínis erfitt að selja áfangastaðinn Orlando. 75 milljón manns hafa ekki svo rangt fyrir sér.

Afþreyingar í og við Orlando eru nánast óteljandi. Þær stærstu og frægustu eru að sjálfsögðu risastóru skemmtigarðarnir Walt Disney World og Universal Studios. Þetta eru stórkostlegir staðir hvort sem þú ferðast með fullorðnum Harry Potter aðdáendum eða teiknimyndasjúkum smábörnum. Aðeins sérhæfðari og mögulega sérvitrari áfangastaðir nálægt Orlando eru Legoland og Kennedy Space Center en þangað mæta geimáhugamenn og lífstíðarlegókallar í hrönnum. En ef tryllt tæki og fantasíuhasar er ekki þinn tebolli þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur. Orlando er gríðarlega fjölbreyttur áfangastaður og hefur sannarlega eitthvað fyrir alla. Þessi stórborg er fræg fyrir magnað næturlíf, heimsfræga tónlistarsenu og úrval verslana sem hægt er að týna sér í og troðfylla á töskurnar. Þá er ótalinn fjöldinn allur af kvikmyndaverum, söfnum og tónlistarviðburðum sem gera Orlando að spennandi og lifandi stað þar sem alltaf er eitthvað að gerast. Í borginni og allt í kringum hana má svo finna magnaða golfvelli og æðislegar göngu- og hjólaleiðir svo útivistar- og íþróttaálfar hafa meira en nóg fyrir stafni.

Þess utan má nefna að Orlando er nokkurn veginn fyrir miðju Flórída, sólarfylkisins, skaga sem státar ef lengri strandlengju en nokkuð annað ríki Bandaríkjanna fyrir utan Alaska. Þeir sem dvelja í Orlando geta notið sólarupprásar yfir Atlantshafinu frá Daytona Beach á austurströndinni um morguninn og sólseturs yfir Mexíkóflóa á vesturströndinni um kvöldið. Eða haldið suður á bóginn til Miami og Keys-eyja og dáðst að Karíbahafinu í fjarska. Veðrið í Flórída og ekki síst í Orlando er svo gott sem fullkomið þar sem hitastigið yfir daginn flakkar á milli 23-33°C yfir árið. Suðurhluti Flórída nýtur hitabeltisloftslags og fenin, strendurnar, þjóðgarðarnir og skóglendið eru sinn eigin skemmtigarður fyrir náttúru- og dýralífsunnendur.

Í stuttu máli má segja að það er ekki að ástæðulausu sem Orlando er einn vinsælasti ferðamannastaður heims. Njóttu dásamlegs veðurs, sólríkra stranda, afþreyingar sem á engan sinn líka, útivistar, taumlausa næturlífsins og ævintýralegrar náttúru í einum þægilegum pakka og mundu að leika þér meira því þú borgaðir miklu minna.

Bóka núna