Skoða efni
4. May 2023

Hvaða Kanaríeyja hentar þér best?

Spænsku Kanaríeyjurnar, undan ströndum Afríku, eru einhverjir vinsælustu áfangastaðir Evrópubúa. Allar eru þær eldfjallaeyjur með gullfallegri strandlengju og fullkomnu loftslagi allt árið um kring. Þangað flykkjast ferðamenn til að láta líða úr sér í sólinni, stunda hressandi íþróttir á sjó og landi og slaka á þess á milli í góðu fríi.

En þótt þær séu allar keimlíkar hafa Kanaríeyjurnar allar sinn einstaka karakter. Fyrir vikið getur verið vandasamt að velja hárrétta áfangastaðinn sem hentar hópnum. PLAY flýgur til Tenerife, Gran Canaria og Fuerteventura í eyjaklasanum en þær hafa allar sína einstöku kosti.

Hér förum við yfir Kanaríeyjurnar okkar og hver þeirra gæti hentað þínu draumafríi best.

1. Tenerife

Tenerife er stærsta Kanaríeyjan og sú vinsælasta meðal ferðamanna sem heimsækja þennan eyjaklasa. Hér má finna eitthvað fyrir alla, allt frá náttúrufegurð og gullfallegum ströndum til skemmtigarða, menningarlegrar afþreyingar og sögufrægra staða.

 Hér er listi yfir okkar uppáhaldsafþreyingu á Tenerife:

Fjallganga á eldfjallið Teide

Ein vinsælasta afþreyingin á Tenerife er eldfjallið Teide og allt sem því tengist. Hér er að finna frábærar gönguleiðir og útsýnið af toppi fjallsins, í 3.700 metra hæð, er sannarlega ekki af verri endanum. Þeir sem ætla ekki í metnaðarfulla fjallgöngu geta tekið kláf upp á topp. 

Vatnsrennibrautagarðurinn Siam Park

Siam Park er vatnsrennibrautagarður á Tenerife með tælensku þema en Síam er eldra heiti á Tælandi. Siam Park er ekki bara ein vinsælasti afþreyingin á Kanaríeyjum heldur kemst garðurinn oft á lista yfir bestu vatnsrennibrautagarða í heimi. Hér er að finna úrval rennibrauta fyrir alla aldurshópa og adrenalínþol, mjög svo ávanabindandi öldulaug (það er nánast ekki hægt að hætta að bíða eftir næstu risaöldu) og sjarmerandi á sem hægt er að láta sig líða um í þar til gerðum kútum. Það er ástæða fyrir vinsældum garðsins og þetta er virkilega frábær staður fyrir alla fjölskylduna.

Roque Cinchado unique rock formation with famous Pico del Teide mountain volcano summit
Landscape with Las teresitas beach, Tenerife, Canary Islands, Spain

Dalurinn Masca

Masca-dalur á norðvesturhluta Tenerife er frábært svæði með gullfallegu útsýni. Hér má finna skemmtilegar gönguleiðir um kletta og þorp sem gerir Masca að frábærum áfangastað fyrir útivistarfólk og náttúruunnendur. 

Ströndin Playa de las Teresitas

Ein vinsælasta ströndin á Tenerife er Playa de las Teresitas en hún sker sig úr frá öðrum ströndum eyjunnar með skjannahvítan sand og tæran sjó. Ástæðan fyrir sérstöðu Teresitas-strandar er sú að sandurinn er innfluttur og kemur upprunalega frá Sahara-eyðimörk. Af hverju ekki að láta líða úr sér í Sahara-sandi á Tenerife?

Af hverju að velja Tenerife?

Tenerife er frábær áfangastaður fyrir þá sem elska góða útivist en hún er virkilega framúrskarandi þegar kemur að fjölbreyttum gönguleiðum. Hér er líka að finna mikið af sögufrægum stöðum og svæðum á heimsminjaskrá UNESCO og þar sem Tenerife er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður er hér nóg af úrvali þegar kemur að gistingu, mat og spennandi næturlífi. Þótt Tenerife sé raunverulega allra, er hún líklega í sérstöku uppáhaldi hjá fjölskyldufólki.

2. Gran Canaria

Gran Canaria er frábær Kanaríeyja fyrir alla aldurshópa, áhugasvið og ferðasjóði. Hér mætast náttúrufegurð, fallegar strendur, krúttlegir bæir og sjarmerandi borg. Hér má bæði finna ógrynni af útivistarmöguleikum og fullkomnar aðstæður til að slaka bara á.

 

Hér er listi yfir okkar uppáhaldsafþreyingu á Gran Canaria: 

Sandöldur Maspalomas

Einn merkilegasti staður Gran Canaria eru sandöldur Maspalomas. Á svæðinu er að finna um 400 hektara af gylltum sandhólum og þetta útsýni er bæði ákaflega framandi og sérstaklega töfrandi fyrir Íslendinga. 

Roque Nublo 

Þeir sem vilja magnað útsýni geta haldið beint á Roque Nublo. Þessar klettamyndir eru bæði magnað og furðulegt listaverk náttúrunnar og gangan upp að þeim er einstök og verðug.

Gamli bærinn Vegueta í Las Palmas

Sögulegi gamli bærinn Vegueta í Las Palmas er bæði fallegur og áhugaverður. Þetta sjarmerandi hverfi nær yfir elsta hluta borgarinnar og hér má finna sögufrægar byggingar á borð við Casa de Colón og safnið Museo Canaro. 

Young beautiful woman walking on the sand wearing white dress at maspalomas dunes bech. Gran Canaria, Spain
Aerial Maspalomas dunes view on Gran Canaria island

Ströndin Playa de Maspalomas

Ein þekktasta strönd Gran Canaria er Playa de Maspalomas. Þetta er frábær staður til að slaka á og liggja í sólbaði en hér má líka finna mikið af vatnasporti og hressandi afþreyingu sem er Íslendingum svo framandi að það eru ekki til almennileg orð yfir hana á íslensku. Við erum að sjálfsögðu að tala um alls kyns útgáfur af brimbrettasporti eins og „paddleboarding“ þar sem staðið er á brettinu og róið, „windsurfing“ sem er stundum þýtt sem „seglbrettasvif“ og „kiteboarding“ fyrir þá allra hörðustu en þá er brettið dregið áfram af stóru segli. 

Ströndin Playa de las Canteras

Ein fallegasta ströndin á Gran Canaria er Playa de las Canteras. Ströndin er í höfuðborginni Las Palmas en fallegri borgarströnd er vanfundin. Hér er sandurinn gylltur og sjórinn tær og þeir sem synda örlítið frá landi í átt að rifinu geta gleymt sér við að skoða marglita fiska og spennandi neðansjávarheim. 

Spennandi?

Skoða flug til Gran Canaria

Finna flug

Af hverju að velja Gran Canaria?

Gran Canaria er frábær áfangastaður fyrir þá sem vilja æðislegt frí á sólarströnd en gætu þegið sjarmerandi borgarferð í leiðinni. Þótt það séu frábærar strendur á öllum Kanaríeyjunum eru margir sem segja strendurnar sérstaklega fagrar og þægilegar á Gran Canaria. Þetta er frábær eyja fyrir alla aldurshópa og hér er nóg að gera í næturlífinu en með þetta úrval af afslappandi ströndum, þægindum og sjarmerandi borgina Las Palmas er Gran Canaria mögulega uppáhaldseyja eldri borgara.

3. Fuerteventura

Fuerteventura er nýjasta viðbótin við áfangastaði PLAY á Kanaríeyjum en hún er þekkt fyrir magnaðar strendur, æðislegar öldur og ævintýralegt úrval af afþreyingu. Fuerteventura er sérstaklega ákjósanleg eyja fyrir þá sem vilja umfram allt spennandi útivist. Hér eru ein bestu skilyrði Evrópu þegar kemur að alls kyns vatnaíþróttum og öldurnar þykja framúrskarandi með viðvarandi hafgolu. En þessi hafgola þýðir líka að aðstæður til fjallgöngu og hjólreiða eru frábærar í nánast fullkomnu loftslagi.

 Hér er listi yfir okkar uppáhaldsafþreyingu á Fuerteventura:

Corralejo-garður

Corralejo-garður er náttúruverndarsvæði á norðurhluta Fuerteventura. Vegurinn FV-1, sem tengir höfuðborgina Puerto del Rosario við bæinn Corralejo, liggur með fram svæðinu en það er einungis aðgengilegt fótgangandi. Hér er að finna magnað landslag af sandöldum og frábærum ströndum. Það borgar sig að búa sig vel, í góðum skóm, með sólarvörn, sundföt, handklæði og nesti því það má eyða unaðslegum degi á þessum slóðum.

Playa de Cofete-strönd

Þótt Fuerteventura sé þekkt fyrir fjölda heimsþekktra stranda eru sú vinsælasta og þekktasta líklega Playa de Cofete. Hún liggur á syðsta hluta eyjunnar en Playa de Cofete er meira fyrir augað en froskalappirnar. Það er ekki ráðlegt að synda hér vegna hafstrauma en útsýnið er magnað og á köflum ósnertar og mannlausar strandlengjurnar eru virkilega ómótstæðilegar.

Ajuy-hellarnir

Eitt af merkustu náttúruundrum Fuerteventura eru hellarnir Ajuy. Ajuy er lítið sjávarþorp á vesturströnd Fuerteventura en það státar af þessum fallegu kalksteinshellum við eldfjallastrendurnar. Sjón er hér sögu ríkari.

Playa Cofete a beautiful beach, Fuerteventura
Panoramic view over sandy mountains eroded by the wind in the west of Fuerteventura island from the Mirador of Morro Velosa in the Rural park of Betancuria, Canary Islands, Spain

Betancuria-garðurinn

Ein vinsælasta gönguleið Fuerteventura er í garðinum Betancuria. Bærinn Betancuria er gullfallegur en á þessu svæði er að finna fjölbreytt landslag og mikið af fallegu útsýni.

Corralejo-strönd

Corralejo-strönd liggur á norðurhluta Fuerteventura og þykir ein besta ströndin til íþrótta og útivistar. Hér má finna flestar gerðir vatnaíþrótta, s.s. brimbretti, svifbretti (e. kitesurfing), seglbretti (e. windsurfing) og svona mætti lengi halda áfram að búa til íslensk orð yfir erlendar vatnaíþróttir. Þar sem fæstir Íslendingar eru öllum hnútum kunnugir í svona sporti er gott að vita að það er nóg af skólum og kennurum í boði hér fyrir byrjendur.

Caleta de Fuste

Caleta de Fuste er stærsti bærinn í héraðinu Antigua á vesturströnd Fuerteventura. Bærinn er þekktur fyrir framúrskarandi aðstæður til hvers konar vatnaíþrótta en er sérstaklega vinsæll áfangastaður meðal kafara. Undan ströndum Caleta de Fuste er að finna magnað neðansjávarlandslag og fjölbreytt sjávardýralíf sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Eftir að hafa synt með höfrungum og skjaldbökum ættu ferðamenn að bóka gæðastund á einum besta golfvelli KanaríeyjaHlekkur opnast í nýjum flipa sem stendur rétt utan við bæinn.

Af hverju að velja Fuerteventura?

Þeir sem vilja upplifa dálítið ævintýri á annars rólegri eyju munu elska Fuerteventura. Hér er mikið af fyrsta flokks útivist í boði og útsýnið er oftast magnað. Þetta er frábær valkostur fyrir rólegra frí með færri ferðamönnum en frábærum útivistarmöguleikum. Þótt jaðaríþróttir og adrenalínuppskera sé augljóslega valkvæð er Fuerteventura líklega uppáhald útivistarfólks og adrenalínfíkla.

Veldu þína fullkomnu Kanaríeyju í dag

Þeir sem vilja frábært frí í sólinni með nóg af útivistarmöguleikum allan ársins hring, geta ekki klikkað á Kanaríeyjum, sama hvaða eyju þeir velja sér.

 Þótt eyjurnar eigi sín sérkenni og sinn einstaka karakter eiga þær allar aðalatriðin sameiginleg: Þær eru gullfallegar útivistarparadísar þar sem veðrið er nánast alltaf fullkomið. 

 Er hægt að biðja um meira í vetrarfríinu?

Spennandi?

Skoða flug til fuerteventura

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Ódýra leiðin til Verona


Afþreying á Kanarí