Skoða efni

Um PLAY

Leikvöllur í háloftunum!

PLAY er íslenskt lággjaldaflugfélag sem sett var á laggirnar vorið 2019 með höfuðstöðvar á Íslandi. PLAY leggur sig fram um að bjóða lágt verð til skemmtilegra áfangastaða og flýgur þangað á nýlegum Airbus flugvélum.

Hjá PLAY er öryggi ávallt í fyrsta sæti og rík áhersla lögð á stundvísi, einfaldleika, gleði og hagstætt verð.

Birgir Jónsson, forstjóri

Birgir Jónsson hefur fjölbreytta reynslu af stjórnun og rekstri bæði hér heima og erlendis. Hann var svæðisstjóri Össurar í Asíu með aðsetur í Hong Kong, forstjóri Iceland Express og síðar aðstoðarforstjóri WOW air. Hann bjó og starfaði í Rúmeníu, Búlgaríu og Ungverjalandi þar sem hann var forstjóri Infopress Group, einnar stærstu prentsmiðju í Austur-Evrópu. Birgir var forstjóri Íslandspósts og hefur einnig komið að mörgum verkefnum á sviði endurskipulagningar og umbreytinga ásamt því að hafa staðið í eigin rekstri.

Birgir er með MBA-gráðu frá University of Westminster í London og BA-gráðu (Hons) frá University of the Arts London.

Framkvæmdastjórn PLAY

Daníel Snæbjörnsson

Framkvæmdastjóri (CNO)

Daníel Snæbjörnsson er framkvæmdastjóri leiðakerfis- og áætlunarsviðs PLAY og hannar því leiðakerfi PLAY auk þess að fylgjast með þróun á mörkuðum og leita nýrra og spennandi áfangastaða fyrir félagið.

Daníel er með M.Sc. gráðu í flugrekstrarfræði frá Cranfield University, B.Sc. gráðu í flugrekstrarfræði frá Embry Riddle Aeronautical University, einkaflugmannspróf og hefur lokið tveimur prófum hjá CFA-stofnuninni.

Áður en Daníel hóf störf hjá PLAY starfaði hann hjá Icelandair í leiðakerfis- og áætlunardeild.

Á árunum 2014 til 2019 starfaði Daníel sem framkvæmdastjóri leiðakerfisstjórnunar hjá WOW air. Fyrir það stofnaði hann og rak ráðgjafarfyrirtækið Altitude Aviation Advisory í Bretlandi. Frá 2006 til 2013, starfaði Daníel sem ráðgjafi hjá AviaSolutions/GECAS og sem greinandi hjá Ascend Worldwide. Frá 2004 til 2005 starfaði Daníel á flugrekstrarsviði hjá Íslandsflugi og Air Atlanta Icelandic.

Georg Haraldsson

Framkvæmdastjóri (CIO)

Georg Haraldsson er framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs PLAY. Hann ber ábyrgð á stafrænni þróun og upplýsingatæknimálum félagsins.

Georg hefur fjölbreytta reynslu. Hann vann sem deildarstjóri rafrænnar sölu og markaðsdreifingar hjá Iceland Express um 6 ára skeið. Á árunum 2014 til 2017 var Georg búsettur í Dubai, þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri Marorku í Mið-Austurlöndum og leiddi þar uppbyggingu félagsins á fjarmörkuðum. Áður hefur Georg starfað við viðskiptastýringu hjá Iceland Travel og stafræna þróun og markaðssetningu hjá Völku, Iceland Express og Dohop. Síðastliðin tvö ár sinnti Georg starfi forstöðumanns stafrænna lausna og upplýsingatæknisviðs Póstsins.

Georg er tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er einnig með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík og IE Business School.

Guðni Ingólfsson

Framkvæmdastjóri (COO)

Guðni Ingólfsson er framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs PLAY.

Guðni hefur víðtæka reynslu af flugrekstri og mikla stjórnunarreynslu en hann var deildarstjóri áhafnadeildar hjá WOW air á árunum 2018 til 2019. Þar á undan starfaði Guðni hjá Icelandair í 22 ár, síðast sem forstöðumaður þjálfunardeildar á árunum 2015-2018. Þar áður sinnti hann ýmsum stjórnunarstörfum hjá Icelandair. Guðni kemur til PLAY frá Rio Tinto á Íslandi þar sem hann hefur starfað sem gæðastjóri frá 2019. Guðni er með meistaragráðu í aðgerðarannsóknum frá London School of Economics.

Jónína Guðmundsdóttir

Framkvæmdastjóri (CPO)

Jónína Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri mannauðssviðs PLAY og leiðir mannauðs- og launadeild félagsins.

Jónína er viðskiptafræðingur með M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun í ferðaþjónustu frá Strathclyde Háskóla í Skotlandi. Hún hóf feril sinn í mannauðsmálum árið 2005 sem ráðgjafi í ráðningum hjá Capacent. Þaðan lá leiðin til Advania, en þar starfaði hún sem forstöðumaður mannauðssviðs frá 2012 til 2015. Jónína tók við stöðu framkvæmdastjóra mannauðssviðs WOW air árið 2015 og hélt utan um mannauðsmál félagsins í gríðarlegum vexti þess allt til ársins 2019.

Jónína situr í stjórn Sjúkratrygginga Íslands og var áður stjórnarmaður í Lundi ses.

Sonja Arnórsdóttir

Framkvæmdastjóri (CCO)

Sonja Arnórsdóttir er framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs PLAY.

Sonja er með BS-gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað við tekjustýringu hjá flugfélögum síðastliðin tíu ár. Hún starfaði sem sérfræðingur í tekjustýringu hjá WOW air þar sem hún leiddi tíu manna teymi og þá hefur hún starfað sem forstöðumaður tekjustýringar og sölu hjá PLAY frá 2019. Sonja ber ábyrgð á öllum sölu- og markaðsmálum hjá PLAY.

Ólafur Þór Jóhannesson

Framkvæmdastjóri (CFO)

Ólafur Þór Jóhannesson er framkvæmdastjóri fjármálasviðs PLAY sem inniheldur jafnframt lögfræðideild.

Ólafur hefur langa reynslu af störfum tengdum fjármálum, rekstri og stjórnun fyrirtækja. Ólafur Þór gegndi starfi forstjóra, aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra fjármálasviðs Skeljungs hf. á árunum 2019-2022. Þar áður gegndi hann ýmsum stjórnunarstöðum í atvinnulífinu, hefur verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi, sinnt stjórnarsetu í nokkrum félögum og þá var hann endurskoðandi og meðeigandi hjá PricewaterhouseCoopers.

Ólafur Þór er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur sinnt kennslu við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.