Skoða efni
7. Jul 2023

PLAY slær annað farþegamet - sætanýting í júní var 87,2% , stundvísi 81,2% og farþegum fjölgaði um 83% á milli ára

Flugfélagið PLAY flutti 160.979 farþega í júnímánuði, sem er langmesti farþegafjöldi sem fluttur hefur verið á einum mánuði hjá félaginu. Fjöldi farþega er nærri 25% meiri en hann var í maí, þegar félagið flutti 128.894 farþega, en það var einnig metmánuður. Sætanýting í júní nam 87,2% og stundvísi félagsins var 81,2%.

Af öllum farþegum sem flugu með félaginu í júní 2023, voru 29,8% á leið frá Íslandi, 25,8% á leið til Íslands og 44,5% voru tengifarþegar.

Alls hafa 604.670 farþegar flogið með PLAY á fyrstu sex mánuðum ársins 2023, sem er aukning um 154% frá sama tímabili árið 2022 þegar 238.053 farþegar flugu með PLAY. Á öðrum ársfjórðungi 2023 hafa 392.325 farþegar flogið með PLAY, sem er aukning um 117% frá sama tímabili árið 2022 þegar 181.202 farþegar flugu með PLAY.

Árangurinn í metmánuðinum júní er að því leyti markverður að flugferðir félagsins til Toronto í Kanada hófust ekki fyrr en 22. júní. Það var því ekki nema í síðustu viku mánaðarins sem sú fjölfarna leið bættist inn í tölfræðina en eftirspurn hefur ekki látið á sér standa heldur er hún nú þegar mjög sterk beggja vegna Atlantshafs. Þá hefur PLAY bætt við 20 áfangastöðum við leiðakerfið á síðustu þremur mánuðum.

Það er áhugavert að bera saman farþegatölur júnímánaðar við fyrra ár en vöxturinn er eftirtektarverður. Í júní 2022 flutti félagið 87.932 farþega, sem þýðir að aukningin á milli þessara ára nemur 83 prósentum. Sætanýtingin hefur einnig aukist frá því í fyrra, úr 79,2% í 87,2%. 

Að undanförnu hefur sérstakrar eftirspurnar gætt frá farþegum á ferð frá Bandaríkjunum til Evrópu og þar eru meðaltekjurnar á hvern farþega umtalsvert meiri en í fyrra. Í júní nam sætanýting á bandarískum áfangastöðum félagsins meira en 90%. Horfurnar fyrir félagið eru mjög góðar, eftirspurnin er áfram sterk á helstu mörkuðum og tekjurnar aukast. 

Yngsti floti í Evrópu og 550 starfsmenn hjá verðlaunaflugfélagi

PLAY tók tíundu farþegaþotu sína í notkun í júní, glænýja Airbus A321neo sem félagið fékk afhent beint úr Airbus-verksmiðjunni í Hamborg í Þýskalandi. PLAY státar nú af yngsta flugflota Evrópu og er með um 550 manns í vinnu við að sinna leiðakerfi félagsins sem telur nú hátt í fjörutíu áfangastaði á árinu 2023.

Í júnímánuði hlaut PLAY þann mikilsverða heiður að vera valið fremsta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu. World Airline Awards veitti verðlaunin, sem byggð eru á umsögnum farþega. PLAY hafnaði jafnframt í tíunda sæti yfir bestu lággjaldaflugfélög Evrópu og er þar að auki það félag sem hefur tekið mestu framförum í Evrópu á árinu 2023 því félagið fór úr 167. sæti listans yfir World’s Best Airlines árið 2022 í 91. sæti árið 2023. PLAY fagnaði því sömuleiðis í mánuðinum að tvö ár eru frá fyrsta flugi í sögu félagsins sem var frá Íslandi til London 24. júní árið 2021. Verðlaun World Airline Awards eru því mikil viðurkenning á því frábæra starfi sem starfsfólk PLAY hefur unnið síðastliðin tvö ár.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Júní var enn annar metmánuðurinn hjá PLAY. Þessi mánuður markaði upphaf sumarvertíðarinnar á lykilmörkuðum félagsins og við náðum þeim mikilvæga áfanga að bæta við tíundu flugvélinni í flotann. Það gekk frábærlega að hefja flug til nýrra staða sem og að endurræsa eldri áfangastaði, en fyrir sumarið bættum við um 20 áfangastöðum við leiðakerfið. Samstarfsfólki mínu hefur tekist það mikla afrek að halda gríðarlega vel utan um alla þessa starfsemi og á sama tíma hafa 200 nýir starfsmenn hafið störf hjá félaginu og hlotið nauðsynlega þjálfun. Eftir brattan vaxtarfasa að undanförnu, héldum við upp á það í mánuðinum að tvö ár eru liðin frá jómfrúarflugi félagsins. Þá var sérstakt gleðiefni að líta til þess að nú eru tíu vélar félagsins farnar að skapa slíkar rekstrartekjur, að þær ná heilbrigðu jafnvægi við grunnkostnað félagsins. Erfitt var að ná sama jafnvægi meðan á helsta vaxtartímabilinu stóð á síðustu tveimur árum. Okkar mikilvægustu mánuðir yfir sumartímann eru fram undan og þar eru horfurnar mjög bjartar; eftirspurnin er mjög sterk og tekjur og arðsemi aukast. Að lokum vil ég nefna hve stolt við erum af þeirri miklu viðurkenningu sem felst í útnefningu PLAY sem besta lággjaldaflugfélags í Norður-Evrópu og tíunda besta lággjaldaflugfélags í Evrópu. Þetta ber því vitni hve hart starfsfólk PLAY hefur lagt að sér við að gera félagið að því besta á markaðnum - og því ætlum við að halda áfram.”

Operational Statistics - June 2023Hlekkur opnast í nýjum flipa