Skoða efni
6. Oct 2022

Það allra helsta í Porto

Ef þig langar í öðruvísi borgarferð til Evrópu þá gæti Porto verið svarið við öllum þínum spurningum. Þessi líflega hafnarborg er stappfull af sögu, menningu og óviðjafnanlegum sjarma. Hér er meðal annars að finna gullfallegan gamlan miðbæ, guðdómlegan mat, sögufrægan arkitektúr frá miðöldum og ævintýralegar borgarmyndir.

Við höfum tekið saman það allra helsta sem ferðalangar ættu ekki að láta fram hjá sér fara í Porto.

1. Sigldu niður Douro

Porto heitir eftir portúgalska orðinu yfir höfn og sigling niður Douro-á er ein besta leiðin til að upplifa þessa hafnarborg og ríka hafnarsögu hennar. Siglt er fram hjá stórbrotnum köstulum, undir magnaðar brýr og fram hjá sjarmerandi þorpum en útkoman er önnur og stærri sýn á Porto og samhengi hennar við umhverfi sitt.

Porto Douro River Houses Boats
Porto Cathedral

2. Skoðaðu Sé Cathedral

Dómkirkja Porto er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Þessi rómanska-gotneska bygging á rætur að rekja aftur til 12. aldar en hún hýsir gullfallaga barokk-innviði. Kirkjan var upprunalega notuð sem virki og er í dag einn vinsælasti ferðamannastaður borgarinnar. Við mælum sérstaklega með því að fara upp í klukkuturninn og njóti útsýnisins þaðan.

3. Röltu um Ribeira-hverfið

Þetta sjarmerandi hverfi við ána er eitt vinsælasta hverfi Porto. Þetta er elsti hluti borgarinnar og þessi gamli karakter er áþreifanlegur. Nýtt blóð hefur færst í borgarhlutann á síðustu árum og hér er urmull af spennandi börum, veitingastöðum og kaffihúsum. Röltu meðfram árbakkanum, njóttu útsýnisins og drekktu í þig þessa skemmtilegu stemningu. Eftir að hafa dáðst að arkitektúrnum og götumyndunum hér er tilvalið að finna sér sjarmerandi kaffihús eða veitingastað og fá sér vel valinn drykk eða gómsætan rétt af matseðli.

Porto Ribeira Wine Fruit on Roof View
Porto Dom Luis Bridge Night

4. Gakktu yfir Dom Luis I brú

Þessi fágaða brú sem er á heimsminjaskrá UNESCO þverar Duoro-á og minnir um margt á Eiffelturninn í París. Hún var hönnuð af arkitektinum Téophile Seyrig, nemanda Gustave Eiffel, en byggingu hennar lauk árið 1886. Efri hlutinn er ætlaður gangandi vegfarendum og lestarsamgöngum en þaðan er stórbrotið útsýni í um það bil 60 metra hæð yfir ánni.

5. Klifraðu upp í Clérigos-turn

Talandi um stórbrotið útsýni, þau gerast vart betri í Porto en útsýnið úr toppi Clérigos-turns. Byggingu þessa barokk-klukkuturns lauk árið 1763 og þetta er í dag eitt helsta kennileiti borgarinnar. Þrepin upp í 75 metra hæð á toppi turnsins eru 240 en þau eru vel þess virði fyrir útsýnið sem nær yfir borgina og Douro-á.

Porto Clerigos Tower
Porto Train Station

6. Skoðaðu São Bento lestarstöðina

Þessi sögufræga lestarstöð er eitt mest myndaða kennileiti Porto og ókrýnd Instagram-drottning. Lestarstöðin var byggð á árunum 1904-1916 og er framúrskarandi dæmi um azulejo-flísarnar sem einkenna allt útlit borgarinnar. Þótt það standi ekki til að fara neitt í lest er skyldumæting á lestarstöðina til að dást að þessum listaverkum sem þekja innviði hennar.

7. Gakktu um gamla bæinn

Gamli bær Porto er á heimsminjaskrá UNESCO enda einstakur og ævintýralegur staður. Þröng, steini lögð stræti eru innrömmuð af gullfallegum byggingum frá miðöldum, sjarmerandi torgum og krúttlegum kaffihúsum. Þetta er staðurinn til að láta sig reika og njóta alls sem fyrir augu ber í rólegheitunum. Best er að villast um þennan sögufræga sjarma með bók, myndavél og að sjálfsögðu góða matarlyst.

8. Fáðu þér drykk á „tasca“

„Tasca“ er dæmigerð portúgölsk krá og það er nóg af þeim í Porto. Þessir dásamlegu litlu barir eru frábærir staðir til að smakka vín frá svæðinu og narta í hefðbundið portúgalskt tapas. Ekki missa af „Franceshina,“ frægasta rétti borgarinnar, sem er gríðarlega metnaðarfull samloka og vinsæll réttur meðal svangra ferðalanga en hér borgar sig að vera svangur.

Porto Old Town View
Porto Beach House

9. Njóttu dagsins á ströndinni

Porto er vissulega hafnarborg en hún liggur ekki beinlínis að sjó heldur að mynni Douro-áar við Atlantshafið. En það er stutt að fara á fjölmargar strendur í nágrenni borgarinnar og þangað liggja tíðar og þægilegar samgöngur. Þeir sem hafa tíma ættu að gefa sér einn dag í afslöppun og vellystingar á ströndinni.

Spennandi?

Skoða flug til Porto

Finna flug

10. Skoðaðu Palacio da Bolsa

Palacio da Bolsa er ein ríkulegasta og fallegasta bygging Porto. Hún var byggð á 19. öld sem kauphöll en er í dag notuð undir ráðstefnur og viðburði. Húsið er opið almenningi og hægt er að fá leiðsögn um bygginguna og dást að arabískum innviðunum, ljósakrónunum, marmarastigunum og fáguðum skreytingunum.

11. Gefðu götulistinni gaum

Götur Porto eru víða skreyttar litríkum veggmyndum og veggjalist og aðdáendur götulistar hafa sannarlega úr nógu að velja. Mörg frægustu verkin er að finna á Rua Miguel Bombarda, Rua das Flores, eða í gatnaflækjunum í Ribeira-hverfinu. Það borgar sig að hafa augun opin á rölti um borgina því það er aldrei að vita nema fólk gangi óvænt fram á ógleymanlegan gimstein. Við mælum þó sérstaklega með leiðsögn um götulist borgarinnar sem er vel þess virði í Porto.

12. Skoðaðu Igreja de São Francisco

Þessi fallega gotneska kirkja í gamla miðbæ Porto er eitt af frægustu kennileitum borgarinnar. Hún var byggð á 14. öld en er frægust fyrir gríðarlega skreytta innviðina. Talið er að um 400 kg af blaðgulli þekji fallegan útskurðinn í kirkjunni en sjón er sögu ríkari. Einnig er hægt að skoða grafhvelfingarnar undir kirkjunni þar sem sumir frægustu íbúar Porto eru grafnir ásamt beinum rúmlega þúsund fransiskumunka.

13. Nartaðu í góðgætið á Mercado do Bolhão

Þessi yfirbyggði markaður á rætur að rekja til ársins 1839 en núverandi bygging er frá árinu 1914. Þetta er frábær staður til að næla sér í fyrsta flokks hráefni, smakka á því besta sem matvælaframleiðendur á svæðinu eru að gera eða bara að drekka í sig stemninguna meðal heimamanna.

Porto Mercado Food Ingredients
Porto City Train

14. Fáðu far í sporvagni

Sögufrægt sporvagnakerfi Porto er ein besta leiðin til að skoða borgina. Rafmagnsvagnarnir sem eiga rætur að rekja til ársins 1895 þræða miðborgina og flytja heimamenn og ferðalanga upp og niður brekkurnar með tilheyrandi sjónásum og útsýni. Kynntu þér leiðarkerfið og hannaðu þína eigin útsýnisferð á milli áfangastaða.

15. Verslaðu á Porto Belo markaði

Þessi útimarkaður á miðju Praça de Carlos Alberto torgi er fullkominn staður til að versla minjagripi og handverk heimamanna. Ef nafnið hljómar kunnuglega er það engin tilviljun því markaðurinn er innblásinn af hinum fræga Portobello Road markaði í London. Hér má finna allt frá handgerðum skartgripum og leirmunum til ferskrar matvöru og góðgætis fyrir sælkera. Markaðurinn er bara opinn á laugardögum svo þeir sem dvelja í Porto yfir helgi ættu ekki að missa af tækifæri til að versla við heimamenn.

Inn á milli áhugaverðra heimsókna á helstu staði í þessari ævintýralegu borg má svo alltaf skemmta ferðafélögunum með eftirfarandi staðreyndum.

Porto Belo Market Blue Mural
Porto Livraria Lello Bookstore

Þrjár áhugaverðar staðreyndir um Porto

Livraria Lello og Harry Potter: þessi töfrandi bókabúð á að hafa verið J.K. Rowling innblástur að Harry Potter bókunum. En það er einfaldlega ekki rétt. Frá því að þessi orðrómur hófst hefur aðsókn að bókabúðinni aukist til muna og hörðustu Harry Potter-aðdáendur standa í röðum til að berja dýrðina augum. Höfundurinn hefur opinberlega leiðrétt misskilninginn og hafði víst aldrei heimsótt þessa bókabúð þegar hún dvaldi í Porto en það hefur engu breytt. En þótt hún hafi ekki verið kveikjan að Harry Potter er þessi bókabúð frá árinu 1906 ævintýri líkust. Bókaormar jafnt og ólæsir ættu að njóta þess í botn að ráfa um þessa verslun og dást að útskornum innviðunum, glæsilegum stiganum og steindum gluggunum.

Portvín er tæknilega ekki frá Porto: Portvín er sætt, styrkt vín sem er nátengt borginni Porto og heitir í höfuðið á henni en er í raun frá Douro-dal, um það bil klukkutíma frá sjálfri borginni. Vínið er framleitt með því að blanda saman ólíkum vínberjategundum sem er síðan gerjað í tunnum til að ná fram þessu einkennandi sæta bragði. Þeir sem hafa áhuga á að kynnast þessu gómsæta víni ættu að skoða einhvern af fjölmörgum portvínskjöllurum Porto þar sem hægt er að fræðast um framleiðsluferlið og bragða á ólíkum tegundum.

Í Porto er ekki Eiffelturn heldur Eiffelbrú: Sjálfur Gustave Eiffel hannaði Maria Pia brúna í Porto undir lestarsamgöngur yfir Douro-á. Þegar hún var byggð árið 1877 var þetta lengsta brú í heimi á einum boga. Í dag skyggir hin stórbrotna Dom Luís I brú á þá upprunalegu en sú var hönnuð af nemanda Eiffels en Maria Pia brúin er engu að síður fallegt og áhugavert verkfræðiafrek síns tíma..

Porto er sneisafull af karakter og sögu og hér er nóg í boði fyrir ferðalanga. Við mælum með því að fólk gefi sér tíma til að týnast í borginni og njóta umhverfisins, sögufrægra kennileita og sjarmerandi kaffihúsa og kráa. Hvort sem ferðalagið er þaulskipulagt eða autt blað frá upphafi til enda, er eiginlega ekki hægt að láta sér leiðast í Porto.

Spennandi?

Skoða flug til Porto

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Hvaða Kanaríeyja hentar þér best?


Afþreying í Porto