Skoða efni
6. Sep 2023

Úrvalsafþreying á Fuerteventura

Fuerteventura er töfrandi Kanaríeyja og algjör draumur fyrir útivistarfólk sem og þá sem vilja komast í afslappað frí í fullkomnu veðri. Hér sameinast glæsilegar baðstrendur, stórbrotið landslag, kristaltær sjór og dýrindis matur og úr verður fullkomin paradísareyja fyrir fríið allt árið um kring undan ströndum Afríku.

Fuerteventura er líka tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem dýrka vatnasport og hasar því hér er vinsælt að fara á brimbretti, seglbretti, sjóketti og nánast allar þær íþróttir og jaðaríþróttir sem hægt er að stunda á sjó. Þá er eyjan líka frábær fyrir fjallgöngur og metnaðarfullar gönguferðir því hér má finna töfrandi landslag og magnað útsýni.

Ef þú ert á leið til Fuerteventura þarftu sannarlega ekki að láta þér leiðast.

1. Farðu á ströndina

Efst á lista allra sem heimsækja Fuerteventura eru að sjálfsögðu þessar fjölmörgu og ótrúlegu strendur og sá listi er gríðarlega langur en hér eru nokkrar sem við mælum með:

  • Cofete: Ein afskekktasta og fallegasta strönd Fuerteventura er Cofete sem er mögulega það sem Trump var að reyna að segja í tísti um árið. Hér má finna glæsilega kílómetra af gylltum sandi með töfrandi fjallasýn í bakgrunni. Cofete kemst ítrekað á lista yfir bestu strandir Evrópu og það er sannarlega ekki að ástæðulausu.   
  • El Cotillo strendur: Ef þú ert að leita að glæsilegri strönd og póstkortaumhverfi skaltu kíkja á strendurnar við El Cotillo. Á strandlengjunni við þennan bæ á norðvesturhluta eyjunnar er að finna fjölda sjarmerandi klettavíka sem mynda fullkomnar strendur, þægileg lón og sjórinn er í þokkabót kristaltær. Hér eru skilyrðin yfirleitt fullkomin til að synda eða njóta þess að upplifa töfrandi sýn í snorklinu. 
  • La Concha: Ef þú vilt slaka á en eiga jafnframt kost á að komast í skjól frá sólinni er La Concha tilvalinn áfangastaður. Hér er vatnið grunnt og þeim mun hlýrra og þetta er þægilegur staður fyrir fjölskyldur. Þá er gott aðgengi í boði með salernum, sturtum og veitingasölu í nágrenninu.
  • Gran Tarajal: : Á suðausturströnd Fuerteventura er að finna bæinn Gran Tarajal og glæsilega baðströnd hans. Þetta er vinsæl strönd meðal heimamanna og stemningin því aðeins önnur en á stærstu ferðamannastöðum. Þá er stutt að fara á frábæra veitingastaði þegar matarlystin kallar. 
  • Sotavento: Ein frægasta strönd Fuerteventura er án efa Sotavento en hún er afar vinsæl meðal þeirra sem stunda seglbretti og flugdrekasvif. Hér er líka hægt að finna sér alvörulúxus og frábæra staði fyrir bæði sólböð og sundferðir.

 

Það er gríðarlegt úrval af frábærum ströndum á Fuerteventura og ekkert mál að finna sér strönd sem hentar hugmyndum hvers og eins um gott frí.

Panoramic view of El Cotillo city in Fuerteventura, Canary Islands, Spain. Scenic colorful traditional villages of Fuerteventura
surfer riding waves on the island of fuerteventura

2. Farðu á brimbretti

Fuerteventura er ein frægasta brimbrettaeyja í heimi vegna stöðugra hafstrauma og frábærra ölduskilyrða. Ef hugmyndin er að skella sér á brimbretti í Fuerteventura þá er sú hugmynd einfaldlega frábær. Við mælum með tímabilinu október til mars því þá eru öldurnar sérstaklega hentugar fyrir brimbrettasport.

En höfum það á hreinu að það er hægt að fara á brimbretti allt árið um kring á þessum slóðum enda litlar breytingar á lofthita á milli árstíða. Sjóhitinn er að meðaltali á milli 19 og 23 gráður svo margir kjósa líka að leigja blautbúning.

Áðurnefnd El Cotillo er frábær staður fyrir brimbrettið og tilvalinn fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Þá er góð þjónusta á svæðinu og auðvelt að leigja brimbretti fyrir þá sem vilja bara prófa.

Aðrir vinsælir áfangastaðir brimbrettafólks eru t.d. Playa de Sotavento og Corralejo; þar er að finna frábærar öldur og góða strauma. Þær teljast þó hentugri fyrir reyndari brimbrettakappa vegna sterkra sjávarstrauma.

3. Seglbretti

Seglbretti er gríðarlega vinsæl afþreyting á Fuerteventura. Með allar þessar æðislegu strendur, hlýjan sjóinn og sjávargoluna er erfitt að finna betri stað til að standa á seglbretti.

Einhverjar bestu aðstæðurnar til seglbrettabruns á Fuerteventura er undan Sotavento-strönd en þar er hin árlega keppni Fuerteventura World Cup Windsurfing & Kiteboarding haldin. Þá þykja Cotillo, Flag Beach og Corralejo ekki síðri enda stórfenglegar strendur.

 Hægt er að leigja seglbretti víða um Fuerteventura og fá kennslu eða jafnvel skrá sig á heilu námskeiðin, óháð fyrri reynslu.

Windsurfing competition - Sotavento beach, Fuerteventura
Trail to the Crater of the Calderon Hondo volcano near Corralejo, north coast of the island of Fuerteventura, Canary Islands. Spain

4. Fjallganga

Þótt Fuerteventura sé líklega frægust fyrir ótrúlegar strendur og kristaltæran sjóinn, er þetta frábær eyja fyrir alls kyns útivist og göngur um eldfjallagíga, þjóðgarða og töfrandi dali.

 

Ein af helstu gönguleiðum á Fuerteventura er Betancuria-hringurinn. Gönguleiðin liggur í gegnum hinn glæsilega Betancuria-náttúrugarð og endar í hinum fallega bæ Betancuria. Hér er gengið með fram gömlum og sjarmerandi steinhleðslum í ægifögru landslagi og fjölbreyttum gróðri.

 

Þeir sem vilja komast í návígi við töfrandi eldfjallagíga (sem við mælum eindregið með) er Calderon Hondo tilvalinn áfangastaður. Þetta magnaða eldfjall er norðarlega á eyjunni og gönguleiðin er tiltölulega auðveld 3 km ganga með óviðjafnanlegu útsýni.

 

Sem betur fer er veðrið frábært allt árið um kring, sem þýðir að þú getur gengið í hvaða mánuði sem er. Vetrarmánuðirnir eru sérstaklega góðir því þeir eru aðeins svalari en samt sólríkir og tiltölulega þurrir. Notið viðeigandi skófatnað, takið vatnsflösku og alls ekki gleyma sólarvörninni.

5. Njóttu þess að kafa

Fuerteventura er frábær áfangastaður fyrir ástríðufulla kafara því hér er sjórinn hlýr, dýralífið fjölbreytt og köfunarstaðirnir hver öðrum betri. Hér má finna grunna sem djúpa köfunarstaði og því ættu kafarar á öllum stigum að finna eitthvað fullkomið við sitt hæfi.

 

Helsti köfunarstaður eyjarinnar er sjávarfriðlandið á Lobos-eyju, rétt utan við strendur Corralejo. Svæðið er verndað því hér má finna úrval einstakra dýrategunda, þar á meðal kolkrabba, vegna þess að það er heimkynni ýmissa sjávartegunda, þar á meðal kolkrabba, barðaháfa og barrakúða innan um litríkan kóralinn.

 

Jafnframt er Jandía-náttúrugarðurinn, sem er staðsettur á suðurhluta eyjarinnar, frábær staður fyrir kafara því hér er sjórinn sérstaklega tær og sjávardýrin fjölbreytt.

 

Að lokum mælum við sérstaklega með þorpinu Caleta de Fuste. Aðstæður eru hér til fyrirmyndar, þorpið sjarmerandi og þetta er afar vinsæll staður til köfunar meðal heimamanna.

Diving around Fuerteventura with fish
Puerto del Rosario Fuerteventura from the perspective of the cruise terminal

6. Röltu um höfuðborg eyjunnar

Þrátt fyrir að Fuerteventura sé framúrskarandi eyja til útivistar í guðsgrænni náttúrunni, ætti enginn að láta hina heillandi höfuðborg Puerto del Rosario fram hjá sér fara. Helsta aðdráttaraflið í höfuðborginni er sögulegur miðbærinn með hvítþvegnum húsum, litlum torgum og sjarmerandi húsagörðum.

 

Að auki er fullt af frábærum verslunum í borginni með úrval af alþjóðlegum keðjum og huggulegum minni verslunum sem selja fjölbreyttar vörur, hönnun og minjagripi. Ekki missa af matarmörkuðunum og bragðaðu á ostum frá svæðinu, finndu unaðslegar vörur úr aloe vera og keyptu alvöru hunang sem mun gleðja alla heima á Íslandi.

7. Hjólað á Fuerteventura

 Ef þú ert hjólreiðatýpan í leit að spennandi áskorun er frábært loftslag Fuerteventura og fallegt landslagið tilvalin fyrir hjólreiðar. Eyjan er fræg fyrir þetta heita loftslag allt árið um kring, heiðan himininn og stórbrotið útsýni, en allt gerir það hana að fullkomnum stað fyrir hjólreiðafólk.

 

Ein vinsælasta hjólaleiðin er Betancuria-hringurinn, 35 km leið (eða miklu lengri ef þú vilt) sem fer um sjarmerandi sveitalandslag Fuerteventura. Hér er hjólað á milli fallegra þorpa með krefjandi brekkum og töfrandi útsýni um stórbrotið landslag eyjunnar.

 

Önnur vinsæl hjólaleið er á milli Corralejo og El Cotillo en það er 20 km leið meðfram norðurströnd eyjunnar. Hjólað er í gegnum hinn töfrandi Corralejo-náttúrugarð, friðlýst svæði sem er þekktast fyrir stórbrotnar og framandi sandöldurnar, áður en komið er að fallega bænum El Cotillo.

 

Þeir sem kjósa rólegri hjólreiðaupplifun hafa úr fjölmörgum leiðum að velja með fram strandlengjunni. Sérstakir hjólastígar liggja víða og flestir liggja um mögnuð útsýnissvæði. Mundu bara eftir sólarvörninni og að sjálfsögðu myndavélinni því það verður örugglega glampandi sól og stórbrotið útsýni í hjólatúrnum á þessari fallegu eyju.

two cyclists on the scenic road from Pajara to the west coast of the island, Fuerteventura
mini golf course in beautiful hotel Bahia de Grande gardens on coast of Fuerteventura island.

8. Golf á Fuerteventura

Íslenskir kylfingar og golfáhugafólk ætti að vita að Fuerteventura býður upp á frábæra golfvelli. Með glampandi sól flesta daga ársins og stórbrotið landslagið er þessi paradísareyja fullkominn staður til að æfa sveifluna.

Einn vinsælasti golfvöllurinn á eyjunni er Fuerteventura Golf ClubHlekkur opnast í nýjum flipa, 18 holu völlur hannaður af hinum heimsþekkta Juan Catarineau. Völlurinn er staðsettur í töfrandi landslagi umkringdur eldfjöllum, pálmatrjám og vötnum, og er bæði gullfallegur og krefjandi fyrir kylfinga á öllum getustigum.

Annar vinsæll 18 holu golfvöllur er Salinas de Antigua Golf CourseHlekkur opnast í nýjum flipa sem hannaður var af heimsmeistaranum Manuel Piñero. Þessi fallegi golfvöllur státar af góðu skjóli og glæsilegu útsýni en ögrar á sama tíma tæknilegri getu og úthaldi kylfingsins.

Fuerteventura: Frábær útivistareyja

Ef þú ert að leita að sólríku fríi - óháð árstíma - ættirðu að kíkja á Fuerteventura og dásamlegar strendur hennar og náttúru. Það er nefnilega engin tilviljun að Fuerteventura er ein vinsælasta eyja Evrópu: Hún er töfrandi, andrúmsloftið er afslappað og aðstæður til útivistar gerast varla betri.

Spennandi?

Skoða flug til Fuerteventura

Finna flug
Út á lífið í Barcelona
NÆST Á DAGSKRÁ

Út á lífið í Barcelona


Afþreying í Fuerteventura