Skoða efni
22. Mar 2023

Jólamarkaðir og verslanir á aðventunni í Amsterdam

Amsterdam er án efa ein fegursta borg Evrópu en þessi litríki og sögufrægi staður skartar sínu allra fegursta rétt fyrir jól. Hér breytist borgarmyndin í hálfgerða sviðsmynd úr jólaleikriti og ljósadýrð og jólaskraut ráða hér ríkjum allan desember. Ljósahátíðin í Amsterdam hefst 2. desember þegar steinlögð strætin og undurfögur síkin eru skreytt ljósum og borgin lifnar við með ljósagjörningum og listaverkum. Flugið er stutt, Amsterdam er ódýr og úrvalið ótæmandi og því er þetta tilvalinn áfangastaður fyrir helgarferð á aðventunni til að fylla á jólaskapið og klára jólapakkana.

Jólamarkaðir í Amsterdam

Evrópskar stórborgir bæta flestar upp fyrir snjóleysið og blíðuna í desember með þeim mun jólalegri útimörkuðum og stemningin gerist ekki betri en að rölta á milli bása og skoða jólaskraut, handverk og gjafavöru með heitt jólaglögg og bakkelsi að vopni. Það er lítið mál að ramba á fjölmarga markaðina í Amsterdam en hér er stuttur listi yfir þá helstu.

Fyrir framan Rijksmuseum safnið verður til lítill jólamarkaður í desember á hverju ári. Hér er að finna klassískar jólagersemar á sætum sölubásum ásamt lifandi stemningu og heitu kakói og fyrir þá sem vilja taka jólaævintýrið alla leið er meira að segja hægt að skella sér á skauta.

Frægasti og líklega vinsælasti markaður Amsterdam er sunnudagsmarkaðurinn svokallaði sem er eins og nafnið gefur til kynna aðeins opinn á sunnudögum. Hann er að finna við gömlu gasverksmiðjuna Westergas og á aðventunni breytist hann í sannkallaða jólaveröld. Markaðurinn er frægur fyrir skemmtilegt handverk, öðruvísi gjafavöru, hönnun og listir og fáir komast í gegnum þessa heimsókn án þess að finna að minnsta kosti einn ómetanlegan fjársjóð.

Í almenningsgarðinum Frankendael er að finna dýrindismatarmarkað á aðventunni sem býður upp á ótrúlegar kræsingar og hráefni sem smellpassa á hvaða jólaborð sem er. Þeir sem sjá um að gefa lífskúnstnerum og matargötum í skóinn ættu að fara beint hingað en djörfustu sælkera sem vilja bjóða upp á öðruvísi gómsæti í jólaboðinu þarf líklega að draga burt.

Í garðinum Museumplein er að finna sérstakan hönnunarmarkað sem fer í jólabúninginn á aðventunni á hverju ári. Markaðurinn er frægur fyrir að bjóða upp á einstakar hönnunarvörur eftir hollenska hönnuði og hvergi er auðveldara að finna hagkvæmar jólagjafir handa þeim allra kröfuhörðustu en einmitt hér.

Amsterdam Netherlands dancing houses over river Amstel landmark in old european city spring landscape.

Úrvalsverslanir og hverfi

Hollendingar eru þekktir fyrir að hafa auga fyrir framúrskarandi hönnun og fatnaði. Það er því varla hægt að fara til Amsterdam án þess að koma heim með a.m.k. eina gersemi á gjafaverði því fjársjóðsleitin hér er umfram allt auðveld. Helstu verslunargöturnar í miðbænum eru Kalverstraat og Leisestraat þar sem finna má allt frá rándýrum hönnunarverslunum til hefðbundinna evrópskra stórverslana en þangað er að sjálfsögðu skyldumæting fyrir alla Íslendinga. Fyrir listunnendur og fagurkera er Spiegelkwartier-hverfið í kringum Rijksmuseum-safnið tilvalin leið til að eyða eftirmiðdegi og mögulega aleigunni en hér úir og grúir af galleríum, antíkverslunum og listmunum.  

Þeir sem vilja bara rölta á milli verslana í leit að einhverju einstöku og óhefðbundnu geta kíkt á Negen Straatjes eða „Göturnar 9“ í miðborg Amsterdam. Þetta eru níu þröngar götur, sneisafullar af litríkum og fjölbreyttum verslunum, veitingahúsum, kaffihúsum og galleríum.

Pakkaðu fötum til skiptanna, hækkaðu heimildina á kreditkortinu og keyptu aukatösku á leiðinni heim því þú ert að fara í verslunarferð og aðventufrí til Amsterdam.

Spennandi?

Skoða flug til Amsterdam

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Það allra helsta í Porto


Afþreying í Amsterdam