Skoða efni
3. Nov 2022

Fly Play hf.: Undirritun áskriftarsamninga

Stjórn Fly Play hefur safnað bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé í félaginu með samningum við fjárfesta.

Áskriftirnar eru fyrir 157.534.247 hlutum að nafnverði og er útgáfugengið á hvern hlut kr. 14,6. Með útgáfunni safnar félagið hlutafé að andvirði kr. 2.300.000.000. Við útgáfuna mun hlutafé félagsins hækka úr kr. 703.333.331 í kr. 860.867.578.

Samhliða útgáfu hlutanna verða gefin út áskriftarréttindi að hlutum sem nema 25% af framangreindri hlutafjárútgáfu. Áskriftarverðið skv. áskriftarréttindunum mun nema sama verði og í hlutafjárútgáfunni auk vaxta frá útgáfudegi sem nema 7-daga veðlánavöxtum Seðlabanka Íslands. Áskriftarréttindin verða nýtanleg í 10 daga eftir birtingu ársuppgjörs 2023.

Stjórn mun boða til hluthafafundar í samræmi við samþykktir félagsins, þar sem lögð verður fram tillaga um hlutafjárhækkun, fráfall forgangsréttar núverandi hluthafa og veitingu heimildar til stjórnar til að efna skuldbindingar félagsins.

Markmið með söfnun áskriftarloforðanna er að efla félagið fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu þess.

„Fjárhagstaða PLAY var sterk í gær en hún er enn sterkari í dag. Þessi hlutafjáraukning frá tuttugu stærstu hluthöfum PLAY er mikið fagnaðarefni og fyrst og fremst til marks um það mikla traust sem stórir hluthafar hafa á rekstrinum og því sem við erum að gera. Tækifæri PLAY á næstu misserum eru augljós og þetta er ekki síst vitnisburður um það. Flugtak PLAY hefur heppnast mjög vel þótt segjast verði að ytra markaðsumhverfi hafi reynst þyngra í vöfum en við höfðum vonast til. Það eru mjög jákvæð teikn á lofti í rekstrinum og við sjáum fram á jákvæða rekstrarafkomu á næsta ári eftir því sem tekjustofnar okkar verða traustari og við komum okkur enn betur fyrir á mörkuðum okkar. Þessi hlutafjáraukning er mjög hvetjandi fyrir okkur og við horfum enn bjartari augum til framtíðar,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.