Skoða efni

MyPLAY - Hvað er nú það?

MyPLAY er aðgangurinn þinn að öllum þínum viðskiptum við PLAY. Eftir að þú stofnar aðgang að MyPLAY í fyrsta skipti áttu alltaf greiða leið að þínum upplýsingum og viðskiptum og getur hagrætt bókuninni þinni og þjónustu þegar þér sýnist.

Við leggjum okkur fram um að hafa þetta eins einfalt og hægt er.

Hér fylgja leiðbeiningar um nokkrar algengar aðgerðir inni í MyPLAY eftir að upprunalegri bókun er lokið.

PLAY aircraft

Að búa til MyPLAY aðgang

Það þarf ekki MyPLAY aðgang til að skoða heimasíðuna okkar en um leið og komið er í bókunarferlið og flug er valið þá þarf að innskrá sig eða stofna aðgang.

Til að geta sett upp aðganginn verður þú að fylla inn fullt nafn, netfang og velja lykilorð. Passaðu að gera ekki bil á eftir netfanginu þínu þá gæti komið villumelding.
Þú byrjar á því að ýta á Búðu til aðgang hér. Því næst smellir þú á Nýskráning með netfangi. Þá getur þú fyllt inn allar viðeigandi upplýsingar og smellir á Nýskráning.

Athugaðu að þegar þú fyllir inn lykilorð þarf samsetning þess að vera 8 til 16 tölustafir og bókstafir.

Að þessu loknu hefur þú stofnað þinn MyPLAY aðgang.

Hvað svo?

Mælaborðið er yfirlitssíðan þín og veitir þér allar þær upplýsingar sem að þú þarft fyrir flugið þitt.

Inni á þínum aðgangi getur þú meðal annars bætt við þjónustu, valið sæti, endursent bókunarstaðfestinguna þína og skoðað komandi flug.

Þar getur þú einnig innritað þig í flugið þitt 24 tímum fyrir brottför. Þetta gæti ekki verið einfaldara!

Að setja inn persónuupplýsingar

Áður en lengra er haldið skiptir máli að allar persónuupplýsingar séu hárréttar. Við þurfum að geta náð í þig ef eitthvað breytist og því skaltu fara vel yfir þennan hluta og passa að uppfæra upplýsingarnar ef eitthvað breytist. Smellið á MyPLAY reitinn í Mælaborðinu.

Að bæta við farþegum

Það flýtir fyrir næstu bókun að vista mögulega ferðafélaga á MyPLAY aðgangi þínum. Þetta sparar mikinn tíma ef þú skellir þér á gott tilboð í borgarferð með félögunum eða þegar þú bókar skíðaferð fyrir alla stórfjölskylduna.
Þú smellir einfaldlega á Farþegar og því næst Bæta við farþega og fyllir inn viðeigandi upplýsingar og ýtir svo á Vista. Það er svo ekkert mál að uppfæra upplýsingar um farþega ef eitthvað breytist, þá smellir þú einfaldlega á Breyta við hliðina á nafninu.

*Athugið að hér er aðeins verið að vista upplýsingar fyrir næstu bókanir. Þetta hefur engin áhrif á gildar bókanir á MyPLAY aðganginum.

Að ganga frá greiðslu

Við mælum með því að vista greiðslukortaupplýsingar inni á MyPLAY til að auðvelda allar bókanir og greiðslur í framtíðinni. Þú getur vistað mörg kreditkort og valið hvert þeirra þú vilt nota þegar þú bókar eða greiðir fyrir aukaþjónustu. Ef þú ert með vistað kort tryggir það hraðari úrlausn ef þú vilt til dæmis bæta við þjónustu eða gera breytingu á fluginu þínu. Þá getur þjónustuteymið rukkað sama kort með þínu samþykki. Þetta ætti að auðvelda þér lífið til muna.

Þú smellir á Greiðslur á mælaborðinu þínu og því næst Bæta við greiðslukorti.

Að bæta við bókun

Þú getur bætt bókuninni þinni við MyPLAY aðganginn þinn með því að fara í Þín flug neðar á síðunni og setja inn bókunarnúmer og eftirnafn farþega og ýta á Bæta við bókun. Hafðu í huga að sá sem bókar flugið inni á sínum aðgangi er eini farþeginn sem hefur aðgang að bókuninni. Það þýðir að ef vinkona þín keypti flugmiðana fyrir saumaklúbbinn, er hún sú eina sem sér bókunina á MyPLAY aðganginum sínum.

Eftir að þú hefur bætt bókuninni við aðganginn þinn getur þú smellt á hana og bætt við þjónustu, valið sæti, endursent bókunarstaðfestinguna þína og innritað þig í flugið þitt 24 tímum fyrir brottför.

Að bæta við þjónustu

Má maður aðeins? Já, þú mátt bara alveg bóka draumasætið og bæta við farangursheimildina þína og allt þar á milli. Til að bæta þjónustu við bókun er smellt á flugið neðst í Mælaborðinu undir Þín flug. Því næst velur þú hvers konar aukaþjónustu þú vilt bæta við neðst á síðunni.  Hafðu í huga að aðeins er hægt að bæta við og ganga frá greiðslu á einni þjónustu í einu. Ef þú ætlar t.d. að kaupa þér sæti og aukatösku þarftu að gera það í tveimur skrefum.

*Athugaðu að þegar þú bætir aukaþjónustu við flugið þitt hangir þjónustan inni á MyPLAY aðganginum þínum í 30 mínútur þar til gengið er frá greiðslu. Ef þú vilt hætta við það sem þú valdir getur þú annaðhvort beðið í 30 mínútur eða haft samband við þjónustuteymið okkar sem fjarlægir þjónustuna af fluginu. 

Að endursenda bókunarstaðfestingu

Þegar þú bókaðir flugið þitt fékkstu senda bókunarstaðfestingu. Ef þú vilt fá hana endursenda er smellt á flugið neðst í Mælaborðinu undir Þín flug. Smellið á Endursenda bókunarstaðfestingu og málið er leyst. Bókunarstaðfestingin fer þá á sama netfang og er skráð í bókunina.

Að innrita sig

Innritun er skemmtilegust enda sáraeinföld og það eru engar biðraðir á MyPLAY aðganginum þínum.
Til að innrita þig á netinu, þá skráir þú þig inn á MyPLAY aðganginn þinn á heimasíðunni okkar, velur flugið þitt og ýtir á Innritun. Vefinnritun opnar 24 klukkustundum fyrir áætlaðan brottfarartíma og lokar einni klukkustund fyrir áætlaðan brottfarartíma. 
Þú ferð í gegnum nokkur skref í innritunarferlinu, staðfestir nöfn, bætir við farangri ef þú vilt, færð úthlutað sæti (það er hægt að breyta og greiða fyrir sæti ef að þau sæti sem gefin eru upp henta illa), og að lokum er beðið um staðfestingu á ferðaskilríkjum ásamt yfirlestri og samþykki á skilmálum okkar. Þegar þú hefur lokið innritun færðu sent brottfararspjald á netfangið þitt. 

Einfalt, ekki satt?

*Athugið að netinnritun er því miður ekki í boði frá Bologna (BLQ), Genf (GVA) og Salzburg (SZG). Farþegar þurfa því að innrita sig við þjónustuborð á flugvellinum þar.

Að eyða aðgangi

Neðst á síðunni er svo hægt að eyða MyPLAY aðganginum í heild sinni sem er sjálfsagður réttur viðskiptavina okkar og mikilvægur hluti af okkar persónuverndarstefnu. Það er gert með því að ýta á reitinn Eyða aðgangi, skrifa EYÐA AÐGANGI í reitinn og ýta svo á Staðfesta. Þeir sem vilja nálgast öll gögn sem PLAY geymir um viðkomandi geta sent beiðni á datarequest@flyplay.com.