Skoða efni
7. Mar 2022

Stóraukin sætanýting hjá PLAY

PLAY flutti 19.686 farþega í febrúar og sætanýting var 67,1%, samanborið við 55,7% í janúar. Mikill fjöldi kórónuveirusmita í lok síðasta árs hafði þau áhrif að PLAY þurfti að aðlaga flugáætlun sína í janúar og febrúar. Félagið hefur væntingar um að sætanýting aukist á næstu mánuðum. Þessar væntingar grundvallast á tveimur meginatriðum. Annars vegar því að í febrúar hélt bókunum áfram að fjölga, eins og raunin hafði verið í janúar, og það þrátt fyrir váleg tíðindi í heimsmálunum. Hins vegar er fyrirséð að tengiflug yfir Atlantshaf, sem hefst í vor, muni styrkja stöðuna enn frekar. 

Nýir áfangastaðir sem PLAY hefur kynnt til leiks að undanförnu hafa fengið frábærar viðtökur og það er nokkuð ljóst að fólk er tilbúið að ferðast á ný á sama tíma og áhrif faraldursins fara dvínandi. PLAY er þó enn í góðri stöðu til að takast á við óvissuna, sem tengist heimsfaraldrinum og stríðsátökum í Evrópu, með sveigjanlegum rekstri. Hingað til hafa áhrif stríðsins á PLAY takmarkast við hækkun olíuverðs. Félagið hefur innleitt sérsniðna innkaupastefnu á olíuvörnum sem kynnt verður þegar félagið kynnir ársfjórðungsuppgjör sitt þann 17. mars næstkomandi.

Sex vélar inn í sumarið

Fyrsta Airbus A320neo flugvél PLAY kom til landsins þann 1. mars síðastliðinn. Floti PLAY hefur hingað til samanstaðið af þremur Airbus A321 flugvélum en þessi nýja A320neo flugvél verður sú fyrsta í röð þriggja flugvéla sem bætast við flotann í sumar. Hinar tvær eru væntanlegar til landsins í apríl og maí. Í sumar mun floti PLAY því samanstanda af sex flugvélum.

PLAY til Orlando

PLAY hóf miðasölu til Orlando í Bandaríkjunum í lok febrúar. Fyrsta flug PLAY til Orlando verður þann 30. september og verður flogið þangað þrisvar í viku. Orlando er fjórði áfangastaður PLAY í Bandaríkjunum en hinir þrír eru Boston, Baltimore/Washington DC og New York.

„Nýr og spennandi kafli er að hefjast hjá PLAY og sætanýtingin heldur bara áfram að aukast. Við höfum verið með sterka bókunarstöðu að undanförnu og sjáum nú þegar mjög heilbrigt bókunarflæði inn í sumarið og fram á haust. Ég er fullviss um að við séum að stækka á hárréttum tímapunkti þar sem markaðurinn er greinilega að jafna sig eftir heimsfaraldurinn. Það eru mjög spennandi tímar fram undan. Við ætlum að ná markmiðum okkar og nýta í botn mikinn vöxt fluggeirans og ferðaþjónustu á næstu misserum,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY. 

Flutningstölur Febrúar 2022 (pdf)Hlekkur opnast í nýjum flipa