Skoða efni

Rekstrarhagnaður af rekstri PLAY í fyrsta sinn

●       PLAY flutti um 311 þúsund farþega á þriðja ársfjórðungi árið 2022 og gerir ráð fyrir að heildarfjöldi farþega í ár verði um 800 þúsund.

●       Tekjur á þriðja ársfjórðungi námu 59,9 milljónum bandaríkjadala (um 8.7 milljarðar króna), samanborið við 32,5 milljónir bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 84 prósent aukning.

●       Að öllu óbreyttu áætlar PLAY að flytja 1,5 til 1,7 milljón farþega á næsta ári og að veltan verði 310 til 330 milljónir bandaríkjadala (um 46 milljarðar króna) og reiknar félagið með að skila jákvæðum rekstrarhagnaði fyrir allt árið 2023.

●       Sætanýting á þriðja ársfjórðungi var vel ásættanleg eða um 85 prósent en í októbermánuði nam hún 81,9 prósentum.

●       Fjárhagsstaða félagsins er áfram sterk. Handbært fé þann 30. september var 29,6 milljónir bandaríkjadala með bundnu fé. Eiginfjárhlutfall var 12,1% og félagið hefur engar ytri vaxtaberandi skuldir.

●       Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var jákvæð á þriðja ársfjórðungi um 1,3 milljónir dala. Búist er við að rekstrarniðurstaðan verði hins vegar neikvæð þegar litið er á síðari hluta ársins og árið í heild.

●       Rekstrarspá PLAY fyrir árið 2022 hefur verið uppfærð og er nú séð fram á veltu upp á 140 milljónir bandaríkjadala á árinu.

●       PLAY náði markmiðum sínum um einingakostnað, að frátöldum eldsneytiskostnaði, upp á minna en fjögur bandaríkjasent. Einingakostnaðurinn nam aðeins 3,1 senti.

●       27 áfangastaðir eru nú í sölu.

Rekstrarhagnaður PLAY af starfsemi á þriðja ársfjórðungi ársins 2022 nam 1,3 milljónum bandaríkjadala og sætanýtingin var um 85%. Farþegar félagsins voru um 311 þúsund talsins. Reiknað er með um 800 þúsund farþegum árið 2022 og 1,5 til 1,7 milljón farþegum árið 2023. PLAY spáir veltu upp á 310 til 330 milljónir bandaríkjadala árið 2023.

Ekki er fyrirséð að áður útgefin spá um jákvæða rekstrarniðurstöðu af síðari hluta ársins standist vegna krefjandi ytri aðstæðna á mörkuðum, sem höfðu mikil áhrif á fjárhagslega frammistöðu í rekstrinum. Almenn eftirspurn frá farþegum til Íslands var minni síðsumars en búast mátti við, þar sem mörg hótel voru uppbókuð og bílaleigubílar sömuleiðis. Afleiðing þessa var aukinn fjöldi tengifarþega í stað farþega til Íslands, sem skila minni tekjum. Hliðartekjur voru einnig minni en vænta mátti en þar skipti mestu aukin eftirspurn eftir handfarangri í stað innritaðs farangurs. Ástæða þeirra breytinga var ótti farþega við erfiðleika á flugvöllum víða um heim. Á sama tíma hélst olíuverð hátt. Allt hafði þetta óhjákvæmileg áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins.

Þrátt fyrir þessa þætti hefur þróunin snúist við að undanförnu og nú horfir til framfara. Íslensk ferðaþjónusta hefur nú talsvert meira svigrúm til að taka við farþegum. Inneignum ferðamanna hjá öðrum ferðaþjónustuaðilum, sem fengust höfðu í faraldrinum og nýttar voru í miklum mæli á þessu ári, hefur fækkað til muna og á sama tíma hefur ástandið á flugvöllum batnað.

 

PLAY sér ört vaxandi bókunarflæði til landsins inn í veturinn og næsta ár. Ferðamálastofa spáir um 40% fleiri farþegum til landsins árið 2023 miðað við 2022, sem mun tvímælalaust skila sér í jákvæðum áhrifum á rekstur PLAY. Um leið er PLAY að taka í gagnið stafrænar lausnir og frekari eflingu dreifileiða sem munu auka tekjur félagsins. Það þýðir að hliðartekjur munu aukast á næstu mánuðum samhliða tæknilegum uppfærslum. Þá er strax farið að bera á traustu bókunarflæði frá ferðaskrifstofum, sérstaklega með farþega til landsins.

Markmið um einingakostnað á þriðja ársfjórðungi stóðust og gott betur. Félagið miðar við kostnað undir fjórum bandaríkjasentum að frátöldum eldsneytiskostnaði en endanleg niðurstaða á fjórðungnum voru 3,1 sent.

 

Á þriðja ársfjórðungi leið fyrsti mánuður félagsins þar sem starfsemin var í fullum rekstri með virka tengiflugsáætlun. Áfangastaðir voru 22 beggja vegna Atlantshafs og sex vélar voru í rekstri. Starfsemin gekk að óskum og í samræmi við áætlanir félagsins.

 

 

92 þúsund farþegar í október og góð bókunarstaða inn í veturinn

Rekstrarhagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi nam 1,3 milljónum bandaríkjadala. Fjárhagsstaða félagsins er enn sterk en handbært fé þann 30. september nam 29,6 milljónum bandaríkjadala með bundnu fé. Eiginfjárhlutfall var upp á 12,1% og félagið hefur engar ytri vaxtaberandi skuldir.

Tekjur á þriðja ársfjórðungi námu 59,9 milljónum bandaríkjadala, samanborið við 32,5 milljónir á öðrum ársfjórðungi. Tap á þriðja ársfjórðungi nam 2,9 milljónum dala.

Bókunarstaða PLAY fyrir veturinn er góð. Farþegar félagsins voru 92 þúsund í október og sætanýtingin 81,9%.

„Að baki er fyrsti ársfjórðungurinn þar sem við starfræktum alla tengiflugsáætlun okkar. Þar sem meirihluti áfangastaða okkar var glænýr í leiðakerfinu var vörumerki PLAY að mestu óþekkt á mörkuðunum. Í ljósi þessa lít ég á það sem sannkallað afrek að ungt fyrirtæki nái rekstrarhagnaði og hvað þá við þær ytri aðstæður sem við höfum starfað við. Það er alls ekki sjálfsagt. Um leið er sætanýtingin, 85%, mjög ásættanleg fyrir nýliða eins og okkur og ekki er annað að sjá en að þróunin sé mjög góð inn í veturinn.

Markmið okkar um jákvæða rekstrarafkomu fyrir síðari hluta ársins í heild munu ekki standast og það hefði verið ánægjulegra að sjá enn betri niðurstöðu á þessum fjórðungi, en krefjandi ytri aðstæður hafa haft áhrif á okkur. Auk þess hefur tekjuvöxtur verið hægari en við gerðum ráð fyrir.

Flugtak PLAY hefur samt sem áður heppnast mjög vel þótt segjast verði að ytra markaðsumhverfið hafi reynst þyngra í vöfum en við höfðum vonast til. Það breytir þó ekki hinu, að það eru jákvæð teikn á lofti í rekstrinum. Við sjáum fram á jákvæða rekstrarafkomu á næsta ári eftir því sem tekjustofnar okkar verða traustari og við komum okkur enn betur fyrir á mörkuðum okkar.

Okkar magnaði hópur starfsmanna er þegar kominn á fullt við undirbúning þess að færa enn út kvíarnar. Við erum að ráða fólk, fjórar flugvélar eru á leið til okkar og áfangastaðir eru að bætast við. Ég horfi spenntur til framtíðar því PLAY er að verða sterkt og arðbært lággjaldaflugfélag með vaxandi tekjugrunn og ánægða viðskiptavini,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

 

Frekari upplýsingar:

Streymi frá fjárfestakynningu, 4. nóvember 2022

PLAY mun kynna uppgjör sitt á opnum kynningarfundi sem hefst klukkan 08:30 þann 4. nóvember 2022. Þar munu Birgir Jónsson forstjóri og Þóra Eggertsdóttir, fjármálastjóri PLAY, kynna uppgjörið og svara spurningum að því loknu.

Kynningunni verður streymt hér: https://www.flyplay.com/investor-relationsHlekkur opnast í nýjum flipa.