Skoða efni
6. Jun 2023

PLAY með daglegar ferðir til eins af mikilvægustu flugvöllum Evrópu

Flugfélagið PLAY hefur sett daglegar flugferðir til Amsterdam næsta vetur í sölu. PLAY fór í sitt fyrsta áætlunarflug til Amsterdam í gær og verður með áætlunarferðir fimm sinnum í viku til borgarinnar í sumar. 29. október tekur við áætlun með daglegum ferðum sem munu falla vel að tengiflugi félagsins til áfangastaða í Norður Ameríku.

Schiphol-flugvöllur er ein helsta samgöngumiðstöð Evrópu og því munu þessar daglegu ferðir næsta vetur frá Amsterdam styrkja leiðakerfi PLAY gríðarlega mikið. Það fer ekki aðeins fjöldi farþega í gegnum Schiphol flugvöll því umsvifin með vöruflutninga eru þar mikil sem mun auka möguleika PLAY á að afla hliðartekna með vöruflugi til muna.

„Flugfélög bíða í röðum eftir því að komast að á Schiphol-flugvelli og því er það einstakt afrek fyrir PLAY að fá þar lendingarleyfi og geta sett dagleg flug í sölu næsta vetur. Flugvöllurinn er sá fjórði stærsti í Evrópu og því mikilvæg viðbót í okkar leiðakerfi,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins PLAY.

Flugfélagið tók á móti sinni tíundu farþegaþotu beint úr Airbus-verksmiðjunni í Hamborg í síðustu viku. Þotan er Airbus A321neo og tekur 214 farþega í sæti. PLAY státar af yngsta flugflota Evrópu þar sem meðalaldur flotans er um 2 ár.

„Þessar öflugu  og hagkvæmu vélar gera okkur kleift að reka leiðakerfið áfram hnökralaust og með einni þeirri mestu stundvísi sem gengur og gerist meðal flugfélaga sem PLAY ber sig saman við. Og með Amsterdam sem einn af hornsteinum leiðakerfisins næsta vetur er ekki annað hægt að segja en að það séu spennandi tímar framundan hjá flugfélaginu PLAY,” segir Birgir Jónsson.

Hátt í fjörutíu áfangastaðir verða í leiðakerfi PLAY í ár og þar á meðal fimm áfangastaðir í Norður Ameríku, New York, Washington DC, Boston og Baltimore í Bandaríkjunum og Toronto í Kanada. Í Evrópu er flogið til vinsælustu áfangastaða álfunnar.