Skoða efni
21. Sep 2021

PLAY hefur undirritað samning um leigu á fjórum nýjum flugvélum

PLAY hefur undirritað samning við alþjóðlega flugvélaleigusalann GECAS um leigu á þremur A320neo flugvélum og einni A321NX flugvél. Vélarnar verða afhentar frá hausti 2022 til vors 2023. PLAY hafði áður greint frá undirritun viljayfirlýsingar við GECAS frá því í ágúst.

Í ágúst undirritaði PLAY einnig viljayfirlýsingu við annan alþjóðlegan flugvélaleigusala um leigu á tveimur A320neo flugvélum sem verða afhentar vorið 2022. Þessar ráðstafanir stækka flota PLAY úr þremur flugvélum í níu fyrir sumarið 2023. Þá er félagið langt að veg komið í viðræðum um leigu á tíundu flugvélinni.

„Við erum mjög ánægð með að bæta vélum í flotann. Langtímamarkmið okkar er að gera PLAY að leiðandi flugfélagi og samningurinn við GECAS er enn eitt skref í þá átt. Við erum meðvitað að taka ákvarðanir með umhverfissjónarmið í huga og er val á þessum flugvélum til marks um það,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.