Skoða efni
16. Mar 2022

PLAY gerir ráð fyrir rekstrarhagnaði á seinni hluta ársins

Flugfélagið PLAY gerir ráð fyrir rekstrarhagnaði á síðari hluta ársins 2022 þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi. Bókunarstaðan hefur verið sterk að undanförnu nú þegar mikil uppsöfnuð eftirspurn er leyst úr læðingi við afnám sóttvarnatakmarkana víða um heim. Félagið mun auka starfsemi sína í yfirveguðum skrefum á næstu vikum og telur sig vera að auka framboð sitt á hárréttum tíma eftir að hafa farið sér hægt frá upphafi starfsemi sinnar. PLAY verður með sex flugvélar í rekstri í sumar og starfsmenn verða um 300 talsins en áfangastaðir verða tuttugu og sjö.

Tekjur PLAY á árinu 2021 voru 16,4 milljónir Bandaríkjadala en tap ársins nam 22,5 milljónum dala. Tekjur voru lægri en vonast hafði verið til vegna neikvæðra áhrifa COVID-19 en kostnaður var samkvæmt áætlunum. Fjárhagsleg afkoma félagsins á árinu var í samræmi við að félagið er enn í uppbyggingarfasa og ekki var gert ráð fyrir hagnaði á fyrsta ári þar sem starfsemin hófst ekki fyrr en á miðju ári.

Blikur eru á lofti í heimsmálunum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu en áhrifin á PLAY hafa fram til þessa takmarkast við hækkandi olíuverð því bókanir hafa haldið áfram að styrkjast. Gert er ráð fyrir að hækkanir á olíuverði vegna innrásarinnar muni valda um tíu milljóna Bandaríkjadala kostnaðarauka á þessu ári. Því verður mætt með aukinni ráðdeild í kostnaði og tilkomu sérstaks olíugjalds ofan á miðaverð líkt og margir stærstu samkeppnisaðilar PLAY hafa innleitt.

Félagið gerir ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs eftir að tengiflugsleiðakerfið er tekið í gagnið en bókanir hafa styrkst verulega með tilkomu þess. Engin áform eru því uppi um hlutafjáraukningu enda er lausafjárstaða félagsins sterk, bókunarstaðan góð og fyrirtækið ber engar vaxtaberandi skuldir.

Frá því að PLAY hóf starfsemi hefur félagið ekki haft virkar olíuvarnir enda hefur starfsemin verið sveigjanleg og sveiflur vegna COVID-19 miklar. Þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst var félagið í þann mund að innleiða og kynna stefnu í olíuvörnum, en fallið var frá því í ljósi breyttrar stöðu. Þróun markaðsins í framhaldinu er harla óljós á þessari stundu. Markaðir bregðast hratt við síbreytilegri stöðu og PLAY hyggst ekki taka upp olíuvarnir fyrr en meiri fyrirsjáanleiki á markaði næst því annað telst of áhættusamt. Á móti er stefnt á að lágmarka rekstrarkostnað á öllum sviðum til þess að mæta háu olíuverði og girða fyrir áhrif þess á rekstur félagsins eins og kostur er.

„Síðasta ár var mjög viðburðarríkt fyrir okkur hjá PLAY en við hófum loks flugrekstur, kláruðum velheppnaða skráningu á Nasdaq First North hlutabréfamarkaðinn og flugum með um 100 þúsund farþega á 6 mánuðum. Frábær árangur fyrir nýtt fyrirtæki í erfiðum markaðsaðstæðum en með þessu sannaðist að það er svo sannarlega tækifæri fyrir nýtt lággjaldaflugfélag á Íslandi. Árið var að sjálfsögðu litað af heimsfaraldrinum en með sveigjanleika okkar tókst að lágmarka áhrifin á reksturinn okkar og á sama tíma undirbúa næsta skref okkar sem er að byggja upp arðbært tengiflugskerfi á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Leynivopnið okkar í því verkefni er hinn magnaði hópur starfsfólks sem er að störfum hjá félaginu, hópur sem er lausnamiðaður, faglegur og alltaf með bros á vör. Með flugi til Bandaríkjanna hefst nýr og spennandi kafli í sögu PLAY og ég hlakka mikið til að takast á við þær áskoranir og vinna nýja sigra við hlið minna mögnuðu samstarfsmanna hjá PLAY,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Frekari upplýsingar:

Streymi frá fjárfestakynningu, 17. mars 2022

PLAY mun kynna uppgjör sitt á opnum kynningarfundi sem hefst klukkan 8:30 þann 17. mars 2022. Þar munu Birgir Jónsson forstjóri og Þóra Eggertsdóttir, fjármálastjóri PLAY, kynna uppgjörið og svara spurningum að því loknu.

Kynningunni verður streymt hér: https://flyplay.com/investor-relationsHlekkur opnast í nýjum flipa