Skoða efni

PLAY fagnar ári í háloftunum

24. júní 2022

Rúmlega 300.000 farþegar á fyrsta ári PLAY í flugrekstri

Í dag er eitt ár frá fyrstu flugferð PLAY og fleiri en 320.000 manns hafa nú flogið með félaginu. Jómfrúarferðin var til London þann 24. júní árið 2021. Í rúmt eitt og hálft ár fyrir þann dag hafði starfsfólk PLAY lagt nótt við dag við að undirbúa þennan stóra áfanga. Þá markaði dagurinn sérstök tímamót í sögu flugfélagsins, því ásamt jómfrúarfluginu hófst hlutafjárútboð félagsins þar sem umframeftirspurn reyndist áttföld. Fyrir það var búið að fjármagna félagið og aðaltilgangur hlutafjárútboðsins var því að koma félaginu í skráð umhverfi.

Fyrir ári störfuðu rúmlega hundrað áhafnarmeðlimir hjá PLAY og um sextíu starfsmenn á skrifstofunni. Þá voru áfangastaðir félagsins sex til að byrja með. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og nú eru áfangastaðirnir orðnir 25 talsins, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og starfsmenn í kring um 300. PLAY hefur komið sér vel fyrir á markaðnum og hefur víða vakið athygli fyrir lág fargjöld og skemmtilegt viðmót, meðal annars í fjölmiðlum ytra. 

Á fyrstu sex mánuðum félagsins í rekstri flugu yfir 100.000 manns með PLAY í yfir þúsund flugferðum. Sætanýting á tímabilinu var 53,2% sem verður að teljast góður árangur í ljósi mjög krefjandi aðstæðna vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og í samanburði við önnur nýstofnuð flugfélög í Evrópu og Norður-Ameríku. Eins og staðan er í dag hefur PLAY flogið með um 320.000 manns sem er til marks um algjöran viðsnúning hvað tiltrú ferðamanna varðar á árinu 2022. Bókunarstaðan fyrir næstu mánuði er sterk og það stefnir allt í að eðlilegt árferði sé nú tekið við, án ferðatakmarkana og varkárni ferðalanga.  Sætanýting síðustu tvo mánuði hefur verið um 70%.

„Það er í raun ótrúlegt hvað við höfum náð að gera á þessu eina ári frá því að við fórum í fyrstu flugferðina. Ekkert af þessu hefði verið hægt án þess metnaðarfulla starfsfólks sem starfar hjá PLAY. Það gleður mig að sjá að áform okkar um að bjóða ávallt lægra verð sé að virka og ég túlka það sem gríðarlegt traust frá markaðnum að um 320.000 manns hafi kosið að taka þátt og fljúga með okkur á þessu eina ári. Það eru næstum jafn margir fólksfjöldinn á Íslandi. Þetta ár hefur verið ár stórra sigra hjá PLAY og ég hlakka til að vinna áfram með samstarfsfólki mínu í PLAY-liðinu við að mæta nýjum áskorunum og halda áfram sigurgöngunni um ókomna framtíð,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.