Skoða efni
7. Sep 2021

PLAY aftur stundvísasta flugfélagið

PLAY var stundvísasta félagið á Keflavíkurflugvelli í ágúst, annan mánuðinn í röð, með 98% flugferða á réttum tíma. Í mánuðinum flutti PLAY 17.296 farþega, næstum tvöfalt fleiri en í júlí þegar félagið flutti 9.899 farþega. Sætanýting í ágúst var 46,3% miðað við 41,7% í júlí.

Árangur PLAY í ágúst, öðrum mánuði félagsins í fullum rekstri, var mjög góður miðað við stöðuna á markaði.

Í byrjun ágúst sáust strax teikn á lofti um viðsnúning á þeirri þróun sem átti sér stað um miðjan júlí þegar ný bylgja kórónuveirunnar skall á hér á landi. Eftir því sem mánuðurinn leið jókst eftirspurn, sérstaklega meðal íslenskra farþega og óskir um breytingar á ferðadagsetningum snarminnkuðu. Hvað varðar sumarleyfisstaði sem PLAY flýgur til má segja að eftirspurn hafi áfram verið vel umfram væntingar í ágúst. Þá jókst einnig eftirspurn meðal erlendra farþega en síðustu vikur hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að markaðssetja sig á erlendum mörkuðum.

Þess ber að geta að PLAY hóf starfsemi í miðjum heimsfaraldri og áætlanir félagsins gera ráð fyrir því að eftirspurn sveiflist til með þróun faraldursins.

Flotinn stækkar í tíu flugvélar á betri kjörum en ráðgert var

PLAY undirritaði í ágúst tvær viljayfirlýsingar við tvo alþjóðlega flugvélaleigusala. Þessar ráðstafanir stækka flota PLAY úr þremur flugvélum í níu fyrir sumarið 2023. Þá er félagið langt á veg komið í viðræðum um leigu á tíundu flugvélinni. Kjör á þessum samningum eru betri en gert var ráð fyrir í viðskiptaáætlunum félagsins. Fyrri viljayfirlýsingin er vegna tveggja nýrra A320neo flugvéla af 2020 árgerðinni. Flugvélarnar verða afhentar á fyrsta ársfjórðungi 2022. Seinni viljayfirlýsingin er vegna þriggja A320neo flugvéla og einnar A321neo sem koma í rekstur vorið 2023. Vélarnar eru nýjar og verða afhentar beint frá Airbus fyrir milligöngu flugvélaleigusalans.

Þessar ráðstafanir gera PLAY kleift að nýta hagstæð kjör sem bjóðast við núverandi markaðsaðstæður vegna COVID-19. PLAY verður þannig með sex flugvélar í flotanum vorið 2022 þegar félagið hefur flug vestur um haf. Þá standa yfir viðræður um viðbætur við flotann fyrir 2024 og 2025 en hann mun telja 15 vélar í lok árs 2025.

Flutningstölur ágúst 2021Hlekkur opnast í nýjum flipa