Skoða efni
7. Jun 2022

Meira en helmingi fleiri farþegar með PLAY annan mánuðinn í röð

PLAY flutti 56.601 farþega í maí sem eru 58% aukning frá aprílmánuði þegar PLAY flutti 36.669 farþega. Farþegafjöldinn í maí var nærri jafnmikill og í janúar, febrúar og mars samanlagt eða á fyrsta ársfjórðungi 2022. Sætanýting í maí var um 70%.

Í maí voru 86,9% flugferða PLAY á réttum tíma sem verður að teljast frábær árangur á sama tíma og félagið er að hefja tengiflug yfir Atlantshafið og stækka leiðakerfi sitt.

Sætanýting er að styrkjast verulega og farþegafjöldi mun aukast á næstu mánuðum og bókunarstaðan inn í sumarið er sterk. Þessi jákvæða þróun helgast meðal annars af nýja tengiflugsleiðakerfinu þar sem félagið flytur nú farþega á milli Norður-Ameríku og Evrópu.

8 nýir áfangastaðir í maí

Í maí var átta áfangastöðum bætt við í Evrópu og Norður-Ameríku; Prag, Boston, Lissabon, Gautaborg, Brussel, Stafangur, Malaga og Þrándheimur. Í júní hefur PLAY flug til Palma de Mallorca, Bologna, Madríd og New York. Heildarfjöldi sæta í sölu á öðrum ársfjórðungi 2022 verður 167% meiri en á fyrsta ársfjórðungi ársins. Aukin umsvif leiða til betri nýtingar á flugvélum og öðrum rekstrareiningum. Þegar New York hefur bæst við leiðakerfið þann 9. júní, er starfsemi hafin á öllum áfangastöðum í tengiflugsáætluninni yfir Atlantshaf á þessu ári. PLAY verður þá að fljúga á 25 áfangastaði og á næsta ári stendur til að bæta við enn fleiri stöðum.

Innleiðing á olíuvörnum hafin

PLAY hefur gert samkomulag við Skeljung sem samræmist stefnu fyrirtækisins um olíuvarnir. Fyrsta varfærna skrefið hefur verið stigið í innleiðingu á stefnunni og fylgst verður áfram náið með sveiflum í efnahagsmálum í heiminum fyrir næstu skref.

„Maímánuður reynist flugfélögum oft nokkur áskorun, þar sem umsvif rekstrarins hafa yfirleitt aukist töluvert fyrir sumarið án þess þó að viðskiptin sem fylgja sumarleyfum séu farin að skila sér alveg. Þess vegna erum við sérstaklega ánægð að vera í góðri stöðu á flóknum tímapunkti. Sætanýtingin er sterk og farþegafjöldi eykst og eykst. PLAY heldur áfram að vaxa og styrkja stöðu sína á markaðnum. Til marks um það er farþegafjöldinn í maí. Sá mánuður einn og sér var stærri en allur fyrsti ársfjórðungur 2022. Það er öflugt ár að baki. Fyrst var það ævintýri líkast að sjá tengiflugið smella saman. Nú erum við farin að sjá áhrif þess á reksturinn og við það bætast allir nýju evrópsku áfangastaðirnir. Við gerum ráð fyrir að næstu mánuðir verði gífurlega jákvæðir fyrir félagið og vöxturinn heldur áfram. Að fljúga til New York Stewart í vikunni markar tímamót enda verður þá öll starfsemin komin af stað í Bandaríkjunum þetta árið. Á næsta ári bætast fleiri áfangastaðir við. Sumarið er skemmtilegt hjá okkur. Það eru magnaðir fagmenn að ganga til liðs við okkur um þessar mundir og fyrir mig er það heiður á hverjum degi að fá að leiða þennan einstaka hóp,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Flutningstölur maí 2022 (pdf)Hlekkur opnast í nýjum flipa