Skoða efni
20. Apr 2022

Fyrsta flug PLAY til Bandaríkjanna

Þáttaskil urðu í rekstri flugfélagsins PLAY í dag þegar fyrsta fyrsta áætlunarferðin var farin vestur um haf til Bandaríkjanna. Áfangastaðurinn var Baltimore/Washington International-flugvöllurinn en framvegis verður flogið þangað daglega. Þessi áfangi er afar þýðingarmikill fyrir PLAY. Nú hefst næsti kafli í sögu félagsins með farþegaflutningum yfir Atlantshafið sem stækkar markaðssvæði félagsins til muna. Farþegar verða fluttir á milli austurstrandar Bandaríkjanna og Evrópu með viðkomu á Keflavíkurflugvelli og Ísland verður miðpunkturinn. 

Félagið hefur ekki farið varhluta af ferðaþorsta fólks nú þegar faraldurinn er á undanhaldi og er bókunarstaða félagsins afar sterk fyrir sumarið og inn í haustið. Bandaríkjaævintýri PLAY er rétt að byrja. Fyrst er það Baltimore/Washington International, svo er það Boston þar sem flogið verður til Logan-flugvallar og loks er fyrsta flugið til New York í júní.  

„Við höfum beðið spennt eftir þessum degi og nú þegar komið er að honum erum við auðvitað bókstaflega í skýjunum með þetta. Bandaríkjaflugið er aðalatriði í okkar starfsemi, en við höfum lært að það er ekkert grín að hefja áætlunarferðir til nýrrar heimsálfu. Það hefur þó sannarlega tekist og niðurstaðan er vönduð, áreiðanleg og metnaðarfull flugáætlun. Áhugi viðskiptavina er strax tilfinnanlegur, og raunar meiri en við þorðum að vona. Enn og aftur er ég gáttaður á kraftinum í samstarfsfólki mínu hjá PLAY. Það er því að þakka sem við lifum þennan hátíðisdag í sögu félagsins og saman horfum við fram á við, bjartsýnni og spenntari en nokkru sinni fyrr,” segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.