Skoða efni
2. Jun 2023

Fyrsta flug PLAY til Aþenu og áætlunin framlengd vegna mikillar eftirspurnar

Flugfélagið PLAY fór sitt fyrsta flug til Aþenu, höfuðborgar Grikklands,  í morgun. Þar með er í fyrsta skipti hafið beint áætlunarflug á milli Íslands og Aþenu. Til stóð að áætlunin myndi ná frá júní og út október en vegna mikillar eftirspurnar eftir ferðum með PLAY til Aþenu var ákveðið að framlengja hana til janúar 2024. Áhuginn er ekki einungis frá Íslendingum heldur einnig Grikkjum sem vilja fljúga með PLAY til Íslands og eiga þá einnig möguleika á tengiflugi til áfangastaða flugfélagsins í Norður-Ameríku. Aþena er gjarnan kölluð vagga vestrænnar menningar. Borgin heillar bæði þá sem þyrstir í sól og sumaryl, sem og ferðalanga sem vilja kynnast sögu þessarar merku borgar. Aþena er skemmtileg og lifandi borg með þægilegum gönguleiðum um heimsfræg kennileiti og sögulegar minjar. Borgin státar svo af stórfenglegri matarmenningu þar sem mætast ferskt hráefni og heilsusamleg matargerð Miðjarðarhafsins.

Í þægilegri fjarlægð frá Aþenu eru margar af helstu paradísareyjum Grikklands sem eru sannkallaðir draumaáfangastaðir heim að sækja. Frá flugvellinum í Aþenu er til dæmis hægt að fljúga til og frá Santorini, Mykonos, Krítar og Ródos en áætlunarferjur sigla einnig reglulega um nálægar eyjar. „Það er stórkostlegur áfangi að geta hafið beint áætlunarflug til Aþenu og það gleður okkur mikið að finna fyrir þessum mikla áhuga á ferðum okkar til og frá þessarar sögufrægu borgar. Við sáum fyrir okkur stór tækifæri í tengiflugi á milli Aþenu og Norður-Ameríku og sá grunur reyndist réttur. Og það er ekki síður gaman að geta boðið sólþyrstum Íslendingum upp á ferðum til þessarar stórkostlegu borgar yfir vetrartímann,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins PLAY.