Skoða efni

Allt sem þú vilt (og vilt ekki) vita um farangur

Ekki borga fyrir óþarfa

PLAY er lággjaldaflugfélag og okkar markmið er að vera ávallt hagkvæmur og umhverfisvænn kostur. Hluti af okkar lággjaldahugmynd er að gefa farþegum færi á að ferðast mjög létt og greiða enn minna. Þess vegna fylgir aðeins farangursheimild fyrir einum litlum mun (persónulegur hlutur) með farmiðanum. Þeir sem vilja ferðast með meira geta að sjálfsögðu keypt sér aukalega farangursheimild fyrir handfarangur, innritaðan farangur og alls kyns óvenjulegan sérfarangur á góðu verði. Þetta getur allt orðið frekar ruglingslegt í miðjum ferðaundirbúningi og þess vegna förum við hér yfir allt sem þú gætir mögulega viljað vita um farangur.

1. Lítill persónulegur hlutur

Innifalið í flugmiðanum er einn persónulegur hlutur/taska sem má í mesta lagi vera 42x32x25 cm og 10 kg með handfangi og hjólum. Athugaðu að taskan þarf að passa undir sætið fyrir framan þig.

Þú mátt einnig koma með einn poka úr fríhafnarverslunum í handfarangri og eins þau lyf eða lækningatæki sem þú þarft á að halda í fluginu.

2. Gjaldfrjáls búnaður

Auk persónulega hlutarins máttu taka með þér um borð barnasæti fyrir ungabörn, ferlihjálpartæki og sjúkrabúnað endurgjaldslaust. Það er þó háð þeim skilyrðum að ungabarnið sitji í eigin sæti og að búnaðurinn sé þér nauðsynlegur.

3. Handfarangur

Ef þú þarft að hafa aðeins meira með þér um borð getur þú keypt handfarangursheimild fyrir eina tösku að hámarki 56x45x25 cm og 12 kg með handfangi og hjólum. Vinsamlegast athugið að þessar takmarkanir á stærð eru ósveigjanlegar því handfarangurinn verður að komast í farangursgeymslu um borð.

Við bendum einnig á að takmarkað pláss er í farangursgeymslum í farþegarými og því seljum við takmarkað magn af handfarangursheimildum. Ef þú ætlar að fljúga með handfarangur borgar sig því að bóka handfarangursheimild fyrr en síðar.  

Með því að kaupa farangursheimild fyrir handfarangur færðu einnig forgang um borð í vélinavið brottför (athugaðu að þetta á ekki við forgang í innritun). Í okkar leikbókum kallast það stöngin inn!

4. Innritaður farangur

Hægt er að kaupa aukalega farangursheimild fyrir allt að þrjár töskur sem eru innritaðar í farangursgeymslu flugvélarinnar. Heildarstærð tösku (lengd+breidd+hæð) má ekki vera meiri en 158 cm, en stærri muni er hægt að bóka sem sérfarangur. Athugið að allur farangur sem er ekki hefðbundin innrituð taska telst sem sérfarangur. Farangursheimild fyrir venjulega innritaða tösku fæst í þremur þyngdarflokkum, 20 kg, 23 kg og 32 kg en rukkað er aukalega fyrir umframþyngd á innrituðum farangri. Hafið þó í huga að stök taska má aldrei vera þyngri en 32 kg.

4.1. VIA farangur

Ef þú bókaðir tengiflug með PLAY, þá er farangurinn þinn innritaður á lokaáfangastað með PLAY. Gott er að hafa í huga að ef þú ert með langan tengitíma á milli flugleggja á Íslandi þá er ekki hægt að sækja farangurinn nema þú biðjir sérstaklega um það að farangurinn sé innritaður eingöngu til KEF.

PLAY er ekki með neina millilínusamninga, þannig að ef þú ert með tengiflug hjá öðru flugfélagi þarftu að sækja allan innritaðan farangur á farangursbeltið og innrita hann aftur hjá hinu flugfélaginu.

5. Sérfarangur

Ef farangurinn þinn er ekki hefðbundin ferðataska telst hann sérfarangur. Sérfarangur getur verið t.d. golfsett, skíðabúnaður, veiðibúnaður, barnavagnar og hljóðfæri. Bókunarvélin okkar býður upp á fimm möguleika þegar bókaður er sérfarangur. Þeir eru golfsett, skíði, reiðhjól, sérfarangur (venjulegur) og sérfarangur (stór). Við viljum tilgreina það sérstaklega ef þú ferðast með golfsett, skíði eða reiðhjól en annar sérfarangur er bókaður samkvæmt stærð. Sérfarangur (venjulegur) eru allir munir sem eru stærri en 90x65x45 cm eða ferðataska í óreglulegri stærð. Sérfarangur (venjulegur) má í mesta lagi vera 180x124 cm og 20 kg.

Ef munurinn passar ekki innan stærðartakmarkana venjulegs sérfarangurs er hægt að velja sérfarangur (stór). Stór sérfarangur má í mesta lagi vera 32 kg og 277x75x65 cm.

6. Hvernig á að bóka farangursheimild

Það er lítið mál að bæta farangri við bókun og hægt er að velja fimm mismunandi leiðir til þess, alveg frá því flug er bókað og þar til ein klukkustund er í brottför.

Valmöguleiki A er ávallt ódýrastur. Sama verð á við um val B og C en þjónustugjald bætist við val D og E.  

  • A) Í bókunarferlinu: Þegar flugmiði er upprunalega bókaður á heimasíðunni okkar er í boði að bæta við aukafarangri.
  • B) Eftir bókun: Farþegar geta alltaf skráð sig inn á MyPLAY aðganginn á heimasíðunni okkar og geta þar bætt við aukafarangri þar til 24 tímar eru í brottför þegar netinnritun opnar.
  • C) Í netinnritun: Þegar það eru minna en 24 tímar í flugið má bæta við aukafarangri við innritun á netinu, allt að klukkustund fyrir brottför.   
  • D) Í gegnum þjónustuteymið: Hafa má samband við þjónustuteymið okkar, allt að klukkustund fyrir brottför og bæta við farangursheimild. Athugið að greiða þarf aukalega þjónustugjald fyrir það.
  • E) Við innritun á flugvellinum: Að lokum er hægt að bæta farangursheimild við innritun á flugvellinum en hafið í huga að þetta er dýrasti valkosturinn.

Smellið hér til að skoða verðskrá.

Vinsamlegast athugið að farangursheimild fæst aldrei endurgreidd og að hana er ekki hægt að færa á milli farþega. 

7. Hvernig á að innrita farangur

Innritunarferlið okkar á að vera eins einfalt og þægilegt og mögulegt er og því biðjum við alla farþega um að nýta sér netinnritun á heimasíðunni okkar. Farþegar sem ferðast aðeins með handfarangur geta farið beint í öryggisleit á flugvellinum. Gangið þó úr skugga um að handfarangurinn sé innan stærðartakmarkana okkar áður en haldið er í öryggisleit. Þeir sem ferðast með innritaðan farangur skanna brottfararspjaldið sitt (sem þeir fengu sent eftir netinnritun) í sjálfsafgreiðslustöðvum okkar á flugvellinum til að prenta út farangursmerkingar. Farangursmerkingin er nauðsynleg til að rekja farangurinn aftur til farþegans. Farangursmerkingin er sett á farangurinn áður en haldið er að farangursafgreiðslu. Þar er farangurinn skannaður inn og skilinn eftir áður en haldið er í öryggisleit.

Engar áhyggjur, þetta er allt einfaldara en það hljómar og starfsmenn á flugvellinum verða þér innan handar ef þú lendir í vandræðum.

8. Að pakka eða pakka ekki?

Þetta er frábær spurning því það borgar sig að hugsa farangurinn til enda áður en pakkað er ofan í tösku. Aðalatriðið er að pakka ekki vökva í meira magni en 100 ml í handfarangur og að hann komist í 1 lítra glæran poka sem hægt er að loka, ef þú vilt koma honum í gegnum öryggisleit og að skilja allt eldfimt eftir heima. Það á líka við um allt sem gæti mögulega sprungið í töskunni. Hljómar einfalt, ekki satt? Málið vandast aðeins þegar pakka á veiðigræjunum eða sellóinu en það er óþarfi að hafa áhyggjur þótt farangurinn sé í óvenjulegri kantinum. Lesa má ítarlegar leiðbeiningar um hvernig pakka á sérfarangri og sérstökum munum hér.

 

Frekari upplýsingar um allt sem viðkemur farangri má nálgast hér.