Skoða efni
24. Mar 2022

Út á lífið í Barcelona

Út á lífið í Barcelona

Barcelona, höfuðborg Katalóníu, býður gestum og gangandi upp á fjörugt næturlíf sem er fullt af ógleymanlegum áfangastöðum og skemmtilegum senum. Þeir sem vilja djamma, jafnvel langt fram á morgun, eru á réttum stað í Barcelona.

Í Barcelona er að finna úrval af æðislegum veitingastöðum, börum, skemmtistöðum og skemmtilegri sólarstrandastemningu sem fáar ef nokkrar aðrar borgir í heiminum geta keppt við. Eftirfarandi er agnarsmátt brot af því besta á djamminu í Barcelona.   

Skemmtistaðir

Þeir sem vilja fara alla leið, þrauka lengst og djamma fram á rauða nótt eru á réttum stað á þessum slóðum því skemmtistaðir Barcelona eru þekktir fyrir metnað og rífandi stemningu. Hér er að finna allt frá risastórum danssölum yfir í tónlistarklúbba fyrir vandláta.

Bling Bling Barcelona

Þennan smart og stíliseraða klúbb er að finna í einu fínasta hverfi Barcelona. Bling Bling Barcelona er frægur fyrir fágaða stemningu og eitt stærsta dansgólf Spánar. VIP-svæðið er fullkominn staður til að fagna sérstökum tilefnum eða einfaldlega eiga ævintýralegt kvöld með góðum vinum. Bling Bling Barcelona er opinn fimmtudaga til laugardaga frá 00:30 og langt, langt fram á morgun.

Club Macarena

Ef þig langar í aðeins huggulegri stemningu á skemmtistað er Club Macarena vel þess virði að skoða. Staðurinn rúmar aðeins 80 manns og er í hjarta gotneska hverfisins í Barcelona. Teknótröll sem fíla samt ekki risastóra staði munu elska Club Macarena. Þessi sérstaki litli klúbbur er opinn alla daga frá miðnætti.

Skemmtistaðir í Barcelona
Strandbarir í Barcelona

Strandbarir

Barcelona er auðvitað þekkt fyrir dásamlegar baðstrendurnar og fyrir vikið er frábær skemmtun að kíkja á skemmtistaðina á ströndinni á kvöldin.

Carpe Diem Lounge Club

Þessi staður er betur þekktur sem CDLC en hér snýst allt um glans og glamúr á ströndinni. Á daginn er CDLC veitingastaður en á kvöldin breytist hann í æðislegan skemmtistað. Það borgar sig að mæta í sínu fínasta pússi til að komast inn en þegar inn er komið er stemningin rífandi og oftar en ekki leynast stórstjörnur í mannhafinu.

CDLC er opin alla daga milli 00:00 og 3:30.

Opium Barcelona

Opium Barcelona er líklega hápunkturinn á strandupplifun flestra ferðalanga. Hér er að finna allt sem partípinnar gætu mögulega þráð á djamminu en stærsta aðdráttaraflið er líklega risastór strandpallurinn þar sem yngstu og hressustu nátthrafnarnir hanga langt fram eftir öllu. Ekki spillir að Opium Barcelona er stórglæsilegur staður og stemningin eftir því. Opium Barcelona er opinn alla daga frá miðnætti til 5 á morgnana.

Catwalk Club

Catwalk Club er annar strandklúbbur sem enginn skyldi láta fram hjá sér fara í Barcelona. Þetta er vinsæll áfangastaður ferðamanna en hann rúmar allt að 1.000 manns. Þessi eitursvali klúbbur er í raun þrjú rými sem hvert um sig bjóða upp á ólíka tónlist og stemningu. Gríðarstórt dansgólfið er yfirleitt stappfullt af trylltum partílýð að sýna sína allra bestu takta. Það borgar sig að leggja metnað í klæðaburðinn til að heilla dyraverðina. Catwalk Club er opinn frá miðnætti til sex á morgnana alla daga vikunnar.

Spennandi?

Skoða flug til Barcelona

Finna flug

Kokkteilbarir

Fyrir fágaða ferðalanga sem vilja aðeins það besta er frábær hugmynd að kíkja á kokkteilbari Barcelona sem margir hverjir leggja mikinn metnað í bæði gamla og góða sem og nýstárlega drykki.

Dry Martini

Dry Martini er goðsagnakenndur kokkteilbar í Barcelona. Eins og nafnið gefur til kynna er staðurinn frægur fyrir óviðjafnanlegar og sérblandaðar útgáfur af þurrum Martini. Yfirbarþjónninn Javier de las Muelas er líka goðsögn á svæðinu en það er unun að fylgjast með honum blanda drykki í hálfgerðum transdans. Dry Martini er fullkominn áfangastaður fyrir þá sem vilja njóta þess að fá góðan drykk í afslöppuðu andrúmslofti.

Solange

Solange er kokkteilbar með James Bond þema. Það er að sjálfsögðu ómótstæðileg stemning og hér breytast allir sjálfkrafa í Bond og Bond-stúlku. Solange býður upp á gríðarlegt úrval af frábærum drykkjum og hér er sjálfsagt að mæta með væntingar um fyrirtaksþjónustu og ógleymanlegan kokkteil.

Kokkteilar í Barcelona
Veitingastaðir í Barcelona

Veitingastaðir

Matgæðingar og lífskúnstnerar sækja stíft í Barcelona og ekki að ástæðulausu. Hér má finna allt frá hefðbundnum spænskum réttum til nútímarétta fyrir lengra komna bragðlauka en nánast allt bragðast betur í Barcelona.

Can Sole

Einn frægasti paella-veitingastaður í Barcelona er Can Sole í einu fínasta hverfi borgarinnar. Paella-réttirnir eru víðfrægir en við bendum gestum líka á „ömmuskeiðarnar“. Þetta er sérréttur svæðisins og við hvetjum alla til að kynna sér málið betur. Can Sole er kósí og sjarmerandi veitingastaður og fullkominn staður til að byrja eða enda kvöldið, allt eftir háttatíma hvers og eins.

Alkimia

Njóttu konunglegs kvölds á Alkimia. Hér fá gestir þjónustu á heimsmælikvarða, einstakan matseðil og magnað útsýni. Yfirkokkurinn Jordi Vila breytir hefðbundnum spænskum réttum í ævintýralegt og skapandi ferðalag inn í framtíðina. Ekki missa af Alkimia ef þú vilt ógleymanlega matarupplifun í Barcelona.

Að lokum

Við bjóðum ódýrt flug til Barcelona og því er tilvalið að breyta aðeins til og kíkja út á lífið í allt öðruvísi stemningu.

Spennandi?

Skoða flug til Barcelona

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Ódýra leiðin til Feneyja


Afþreying í Barcelona