Skoða efni
12. Jul 2022

Öðruvísi afþreying í og við Alicante

Alicante er spænsk borg með svipaðan íbúafjölda og allt Ísland, eða 373.000Hlekkur opnast í nýjum flipa, og borgin á rætur sínar að rekja til Rómaveldis. Í Alicante er að finna allt sem ferðamenn leita að við Miðjarðarhaf.

Hér er ofgnótt af sólskini, dásamleg spænsk matargerð, magnaðar strendur, frábærar gönguleiðir og litríkt næturlíf. Alicante er líka rétt hjá Benidorm, einum helsta partíbæ Evrópu.

En Alicante er líka full af öðruvísi afþreyingu þar sem hægt er að sjá aðra hlið á þessari skemmtilegu borg og komast út úr mesta ferðamannastraumnum í smá stund.

Hér er stuttur listi yfir annars konar afþreyingu í og við Alicante:

1. Skoðaðu Tabarca

Ef þú þarft að komast út úr borginni og mesta mannlífinu er ekki til betri staður en Tabarca. Þessi litla eyja í Miðjarðarhafinu er rétt fyrir utan Santa Pola í Alicante. Þetta er eina eyjan á svæðinu sem búið er á og þangað er hægt að komast á báti.

Þegar þangað er komið finnurðu magnaðar strendur, víkur, gönguleiðir og dásamlegan mat og allt verður þetta uppskrift að fullkominni dagsferð. Hafnarsvæðið er fullt af frábærum veitingastöðum og við mælum sérstaklega með sérrétti eyjunnar sem heitir „caldero“.

Tabarca, Alicante
Benacantil Mountain, Alicante

2. Gakktu upp á Benacantil fjall

Lífið á Alicante snýst ekki bara um sundlaugabakkann og næturlífið (en hvort tveggja er samt í hávegum haft hér). Þeir sem fíla fjallgöngur og útivist ættu að henda sér upp á Benacantil. Á fjallinu er að finna kastala Santa Barbara en þaðan má sjá ótrúlegt útsýni yfir strandlengjuna og borgina.

Fáir gera sér grein fyrir því að aðeins London og Mílanó státa af fleiri háhýsum í Evrópum en Alicante. Þetta er háreist borgarmynd af háum hótelbyggingum og skrifstofum. Besti staðurinn til að skoða þetta útsýni er af toppi Benacantil. Taktu myndavélina með því hér gefst sannarlega tækifæri til að slá í gegn á Instagram.

3. Finndu fortíðina á Forngripasafninu í Alicante

Ertu sögunörd? Forngripasafnið í Alicante er með frábærar fornminjasýningar í nútímalegri útfærslu. Það er aldrei ofgnótt af ferðamönnum á þessu lítt þekkta safni en það var samt valið „Safn ársins“ árið 2004.

Ein vinsælasta sýning safnsins er „Tresor de la Marina Alta“. Fræðimenn telja þessa skartgripi ýmist vera rómverska eða íberíska. Sýningin er full af gulli og gersemum en þeir koma úr uppgreftri við Pic De L‘aguila.

Spennandi?

Skoða flug til Alicante

Finna flug

4. Kíktu á básana á miðborgarmarkaðinum

Miðborgarmarkaðurinn „Mercat Central d'Alacant“ er sögulegt kennileiti borgarinnar um þjáningu spænsku þjóðarinnar í borgarastyrjöldinni. Arkitektúr byggingarinnar minnir á leikmynd úr Ghostbusters-mynd og við bendum sérstaklega á veggmynd til minningar um sprengjuárás úr borgarastyrjöldinni.

Í dag er þetta frábær innanhússmarkaður og úrvalið er stórkostlegt. Markaðurinn er á tveimur hæðum, ein fyrir fisk og hin fyrir kjöt. Hvor hæðin sem valin er fer enginn svangur héðan út.

Running through tunnel Lucentum

5. Ráfaðu um Lucentum

Ef saga Rómaveldis heillar er frábær afþreying að rölta um Lucentum. Hér er mikið af rústum frá rómverska tímabilinu, um þrjá kílómetra austur af miðbænum í Tossal de Manises. Lucentum var nafn Alicante á tímum Rómaveldis en Grikkir og Fönikíumenn komu einnig við sögu í Lucentum.

Nýlegir fornleifauppgreftir hafa afhjúpað gríðarlega merkileg húsakynni og borgarmyndir á svæðinu og hér má greinilega sjá ævafornar götur, baðhús, stórhýsi, húsagarða og torg. Strætóleiðir 9 og 21 ganga hingað en svo er alltaf hægt að hoppa í strandasporvagninn.

6. Leiktu þér með dótið í Ibi

Ibi leikfangalestin er risastór skúlptúr af hefðbundinni leikfangalest í jaðri leikfangabæjarins Ibi. Bærinn er í aðeins 20-30 mínútna akstursfjarlægð frá Alicante og er mjög vinsæll áfangastaður fyrir alla þá sem hafa áhuga á leikföngum.

Ibi er mesta leikfangaframleiðslusvæði Spánar. Í bænum er að finna 37 fyrirtæki sem framleiða 40% af leikföngum þjóðarinnar. Þessi leikfangagerð á rætur sínar að rekja til ársins 1905 og leikföng hafa allar götur síðan spilað stóra rullu í efnahagslífinu hér.

7. Vottaðu Archibald Dickson virðingu

Minnisvarðinn um Archibald Dickson er tileinkaður þessari lítt þekktu hetju úr spænsku borgarastyrjöldinni. Skipstjórinn Archibald Dickson bjargaði um það bil 2.000 mannslífum í stríðinu með því að smygla flóttamönnum frá Alicante en þar til nýlega hafði líklega enginn heyrt á hann minnst í heimalandi hans Wales.

Aðeins hálfu ári eftir björgunina frá Alicante var skip Archibald Dickson sprengt af þýskum kafbáti en íbúar Alicante hafa minnst hans sem hetju alla tíð síðan. Minnisvarðinn var reistur 2014, 75 árum eftir að skip hans lagði úr höfn frá Alicante, troðfullt af fólki sem hefði að öllum líkindum annars látið lífið í útrýmingarbúðum fasista skömmu seinna.

Að lokum…

Meirihluti ferðamanna mun verja tíma sínum í Alicante á ströndinni eða á næturklúbbunum og það er sannarlega góð nýting á tíma. Veðrið er dásamlegt, næturlífið stórkostlegt, strendurnar hvítar og sjórinn tær.

En ef þú vilt brjóta daginn upp eða ná þér í annars konar afþreyingu og tilbreytingu, munu þessir sjö áfangastaðir gefa þér áhugaverða innsýn inn í aðra og ekki síður dásamlega hlið á Alicante.

Spennandi?

Skoða flug til Alicante

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ


Afþreying í Alicante