Skoða efni
5. Jan 2023

Dásamlega Düsseldorf

Aerial View of Duesseldorf in Germany

Það er mikið úrval af frábærum borgum í Þýskalandi og Düsseldorf er sannarlega ofarlega á þeim lista. Düsseldorf er ein af helstu háskólaborgum landsins, sannkölluð miðstöð tísku og lista og mikilvæg menningarborg enda heimkynni fjölda safna og rúmlega 100 gallería.

Í Düsseldorf er líka að finna dásamlegar gönguleiðir með fram gullfallegu Rínarfljótinu og sjarmerandi götumyndir í fallegu umhverfi. Í júlí á hverju ári er haldin hátíðin Größte Kirmes am Rhein sem mætti þýða sem „Stærsta hátíðin við Rín“ en u.þ.b. fjórar milljónir gesta mæta á þennan vinsæla viðburð á hverju ári.

 

Hér er listi yfir nokkur ómissandi atriði sem við mælum sérstaklega með í dásamlegu Düsseldorf:

1. Röltu eftir Königsallee

Við hefjum leika á frábærri útivist fyrir borgarbörnin: gluggaráp á Königsallee. Þessi stórfenglega verslunargata er smekkfull af lúxusverslunum í rándýra kantinum.

Á svæðinu er líka að finna fjölmörg lúxushótel og því ætti enginn að slá hendinni á móti tækifæri á gistingu á þessum slóðum. Fæstir munu líklega splæsa í svoleiðis munað en þá er alltaf hægt að kíkja á einhvern af þakbörum hótelanna sem bjóða geggjað útsýni yfir borgina í bland við frábæra drykki. Königsallee nær alla leið frá Graf-Adolf-Platz að Hofgarten garðinum og þetta er ein skemmtilegasta gönguleið borgarinnar. 

View of the famous historic plane tree avenue "Koenigsallee" of Dusseldorf in Germany
Town hall in Dusseldorf and statue of an Wellem, Germany

2. Ráfaðu um gamla bæinn

Þrátt fyrir dramatíska sögu borgarinnar og tvær heimsstyrjaldir er gamli bær Düsseldorf einstaklega vel varðveittur. Helsti áfangastaðurinn í gamla bænum er líklega Marktplatz; alvöru gamaldags ráðhústorg með viðeigandi sjarma en þar á eftir kemur turninn og kennileitið Schlossturm við bakka Rínar.

Þetta er eini hlutinn sem eftir stendur af gömlum kasta sem eitt sinn einkenndi sjóndeildarhringinn í Düsseldorf. Skammt frá turninum er svo keramiksafnið Hetjens helgað ríflega 800 ára sögu af keramik og postulíni. St. Lambertus kirkja með sinn furðulega spíralsturn er síðan ómissandi kennileiti í gamla bænum en umfram allt er þetta yndislegt svæði með sjarmerandi andrúmsloft.

3. Sjáðu magnað útsýnið úr Rínarturninum

í 240 metra hæð er tvímælalaust besta útsýnið að finna úr toppi Rínarturnsins. Turninn stendur við hafnarsvæði borgarinnar og útsýnispallurinn er frábær en við mælum sérstaklega með því að fólk njóti útsýnisins á kvöldin þegar borgarljósin fá sem best að njóta sín. Þeir sem kíkja á Rínarturninn ættu síðan ekki að láta Lichtzeitpegel fram hjá sér fara, en þessi magnaði skúlptúr er í raun heimsins stærsta stafræna klukka. Svo er tilvalið að ljúka deginum á góðri máltíð á veitingastað turnsins sem snýst allan hringinn á einum klukkutíma svo máltíðin ætti að duga til að sjá allan hringinn yfir borgina.

 

Vefsíða: https://www.rheinturm.de/en/visit.html

Heimilisfang: Stromstraße 20, 40221 Düsseldorf, Þýskaland

Dusseldorf cityscape with view on media harbor, Germany
View of a modern art museum in Dusseldorf. Lake and trees is also in view.

4. Njóttu þess sem fyrir augu ber á listasafninu

Listasafnið Museum Kunstpalast sýnir verk frá 3. öld f.Kr. til samtímans. Hér er að finna höggmyndir, málverk, teikningar, ljósmyndir, grafísk verk og svona mætti lengi telja en safneignin telur fleiri en 70.000 muni. Í safneigninni eru m.a. verk eftir Caravaggio, Warhol og Dali. Í safninu eru líka oft haldnir tónleikar á klassískum verkum og aðrir menningarlegir viðburðir og hægt er að fá leiðsögn um safnið til að auka enn frekar á ánægjuna.

 

Vefsíða: http://www.kunstpalast.de/

Heimilisfang: Ehrenhof 4-5, 40479 Düsseldorf, Þýskaland

Spennandi?

Skoða flug til Düsseldorf

Finna flug

5. Gakktu með fram Rínarfljótinu

Besta leiðin til að njóta fallegra árbakka borgarinnar er að ganga eftir göngugötunni Rheinuferpromenade sem liggur eftir bökkum Rínar. Þessi langa gönguleið opnaði fyrst árið 1997 og hér er frábært úrval af kaffihúsum, galleríum og veitingastöðum sem er tilvalið að njóta í bland við útsýnið og stemninguna.

Rheinuferpromenade nær frá Oberkassel-brú og tengist gamla bænum við þinghúsin. Allt árið hrúgast heimamenn og ferðamenn í bland á svæðið til að njóta lífsins í skemmtilegu umhverfi. Við mælum sérstaklega með því að leigja hjól á þessu svæði enda þægilegar hjólaleiðir í boði.

 

Heimilisfang: Marktpl. 2, 40213 Düsseldorf, Þýskaland

Rhine embankment promenade in the Old city center of Dusseldorf in Germany. Tourists nearby. It is the capital of Rhine Westphalia region.
the Japanese Garden

6. Slakaðu á í japanska garðinum í Nordpark

Ein óvenjulegasta afþreyingin í Düsseldorf er líklega að rölta um fallegan japanska garðinn í Nordpark almenningsgarðinum. En þetta er fullkomin útivist í gullfallegu umhverfi, ekki síst að vetri til. Við mælum með að láta alla mögulega streitu líða úr sér í þessu sérstaklega friðsæla og kyrrláta umhverfi í miðri stórborginni. 

 

Vefsíða: https://www.duesseldorf-tourismus.de/sehenswuerdigkeiten/parks/nordpark/

Heimilisfang: Kaiserswerther Str., 40474 Düsseldorf, Þýskaland

7. Kannaðu Düsseldorf-Kaiserswerth

Düsseldorf-Kaiserswerth er eitt elsta hverfi borgarinnar. Þetta er frábær staður til að drekka í sig gamlar byggingar í barokkstíl og fylla Instagrammið af sjarmerandi sjálfsmyndum. Gefðu þér góðan tíma til að villast um steini lögð strætin hér og versla í skemmtilegu litlu búðunum sem leynast hér á hverju götuhorni.

Hér er líka gott úrval af listagalleríum þ.m.t. Kunstarchiv Kaiserswerth. Ekki missa af Kirkju heilags Suitbertus (frá 13. öld) og rústir Kaiserpfalz-kastalns og svo er útsýnið yfir Rín ekkert lítið fallegt úr Kaiserswerth-hverfinu. 

 

Vefsíða: https://www.duesseldorf-tourismus.de/en/attractions/kaiserswerth-05d1b4ed8a

Heimilisfang: Düsseldorf-Kaiserswerth40489 Düsseldorf, Þýskaland

View of the ancient castle "Kaiserpfalz" of Dusseldorf in Germany
Tonhalle is a concert hall in Dusseldorf city in Germany

8. Sjáðu stórkostlegan viðburð í Tonhalle Düsseldorf

Þeir sem kunna að meta góðar sýningar er bent á að kíkja á dagskrána í Tonhalle Düsseldorf. Byggingin er virkilega magnaður vettvangur fyrir alls kyns viðburði en hún var byggð undir sinfóníuhljómsveit borgarinnar árið 1926. 

Í dag má finna viðburði á heimsmælikvarða allan ársins hring í Tonhalle og þetta er ekki bara pomp, prakt og hámenning því popp- og rokklistamenn halda gjarnan tónleika hér líka. 

 

Vefsíða: https://www.tonhalle.de/

Heimilisfang: Ehrenhof 1, 40479 Düsseldorf, Þýskaland

9. Röltu um Düsseldorf-Hafen og Neuer Zollhof

Síðustu ár hafa borgaryfirvöld í Düsseldorf lagt mikla áherslu á að endurnýja eyðimörkina sem gamla hafnarsvæði borgarinnar var. Í stað þess að rífa öll gömlu vöruhúsin og verkstæðin hefur Düsseldorf tekist að útbúa gullfallegt endurunnið og endurnýjað hafnarsvæði þar sem gömul hús með ríka sögu lifa í sátt og samlyndi með framsæknum arkitektúr og nýsköpun.

Ber þar helst að nefna Neuer Zollhof, magnaðar skrifstofubyggingar sem hannaðar voru af Frank O. Gehry í lok síðustu aldar sem mynda skemmtilegt mótvægi við gömlu hafnarmyndina sem enn lifir allt í kring. 

Panoramic view of three futuristic building Neue Zollhof located in Media Harbor.

Düsseldorf er frábær áfangastaður í Þýskalandi

Þeir sem þekkja eitthvað til Þýskalands vita hvers konar hafsjór af menningu og sögu þetta land er og Düsseldorf er þar enginn eftirbátur. Fallegur gamli bærinn, dásamlegir menningarviðburðir, tískuhúsin og verslanirnar að ónefndri ævintýralegri náttúrunni gera Düsseldorf að fullkomnum áfangastað fyrir unga sem aldna.

Spennandi?

Skoða flug til Düsseldorf

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Öðruvísi afþreying í Brussel

Afþreying í Düsseldorf