Skoða efni
9. Mar 2022

Það allra besta af Boston

Boston er sögufræg borg á austurströnd Bandaríkjanna og er stundum kölluð Aþena Ameríku vegna háskólamenningarinnar sem einkennir mannlífið. Hér er margt að sjá og skoða fyrir forvitna ferðalanga og að okkar mati er Boston einn besti áfangastaður Norður-Ameríku.

Boston hefur verið mikilvæg heimsborg alla sína tíð. Hún á rætur sínar að rekja til nýlendutímans þegar nýlendan Puritan Massachusetts Bay Colony sameinaðist minni nágranna sínum Plymouth Colony árið 1636. Þessi samruni tveggja trúarhópa átti eftir að reynast upphafið að nýrri borg og nýrri þjóð: Boston í Bandaríkjunum.

Boston er í dag jafnlifandi og hún var á byltingarárunum. Á Plimoth Plantation söguminjasafninu skammt frá Boston, má endurupplifa nýlenduhefðirnar og söguna. Þetta er eins og Árbæjarsafnið fyrir Ameríku og saga þjóðarinnar, hefðir og menning er hvergi áþreifanlegri í einum skemmtilegum pakka.

Það sem gerir Boston svo einstaka eru einmitt þessar andstæður djúpstæðrar sögu og menningarróta og þessi framhleypni gleðiandi nútíma Bostonbúa.

Frelsisvegurinn (The Freedom Trail)

Þessi heimsfræga gönguleið er um fjórir kílómetrar og þræðir sig í gegnum götur miðborgarinnar á milli 16 sögufrægra staða og gefur þannig gangandi vegfarendum innsýn inn í merkilegan hluta Bandaríkjasögu. Það er auðvelt, ókeypis og mjög áhugavert að ganga Frelsisveginn. Það þarf bara að koma auga á rauða múrsteinaþráðinn í gangstéttum Boston Common og þræða sig á milli áfangastaða að Bunker Hill minnisvarðanum.

Á þessari sögulegu leið er hægt að sjá og skoða 16 ólíka sögufræga staði, s.s. gamla freigátu, kirkjugarða, byggingar og kirkjur. Flesta staði kostar ekkert að skoða nánar en nokkrir hafa aðgangsgjald, s.s. hús Paul Revere og gamla þinghúsið en gjaldið er hóflegt og vel þess virði.

The Freedom Trail
Faneuil Hall

Faneuil Hall

Faneuil Hall var byggt af Peter Faneuil, virtum kaupmanni árið 1743. Á sínum tíma var þetta helsti viðkomustaður kaupmanna en byggingin varð fræg fyrir hlutverk sitt í Frelsisstríðinu. Fyrir vikið er hún stundum kölluð „Vagga frelsisins“ en það var hér sem James Otis og Samuel Adams lögðu grunninn að stofnun Bandaríkjanna með hugmyndum sínum um sjálfstæði nýlendunnar frá Bretum.

Í dag er hér að finna markað með ýmsa starfsemi og mannlífið er í takt við það. Hér er að finna götulistamenn, götumat og ýmsar spennandi verslanir. Í syðri og nyrðri hluta Faneuil Hall má finna margar smærri sérvöruverslanir, stórverslanir og fleira.

Það er síðan kjörið að koma við í áðurnefndu húsi Paul Revere frá 18. öld. Paul Revere var föðurlandsvinur sem Bandaríkjamenn minnast fyrir hlutverk hans í Bandaríkjasögu en hann reið yfir nótt alla leið frá Lexington og varaði við komu Breta.

Það er kjörið að stoppa á Ned Devine‘s Irish Pub í hádeginu og fá sér einn kaldan eða prófa fyrsta nanóbrugghús Boston, Sam Adams Brewing Tap Room.

Írskir innflytjendur

Það er mun meira að sjá og gera í Boston en að endurupplifa byltingarárin í gegnum Frelsiveginn og minnisvarðana. Í Boston er að finna stórfengleg söfn, æðislegt næturlíf, frábæra matarmenningu og merkilegan arkitektúr.

Menningararfur Boston kemur að stórum hluta frá aðfluttum Írum og írska hungursneiðin átti sinn þátt í þeirri staðreynd. Um tíma flúði fólk í hrönnum frá Írlandi vegna hungursneiðar og sjúkdóma.

Robert Shure hannaði minnisvarða sem er helgaður þeim mörg þúsund írsku innflytjendum sem dóu í hungursneiðinni skelfilegu 1845-1852. Styttur minnisvarðans tákna annars vegar sveltandi fjölskyldu á Írlandi og hins vegar írska innflytjendur í Bandaríkjunum sem njóta velmegunar eftir flutningana. Minnisvarðinn hefur stundum reynst umdeildur en stytturnar eru löngu orðnar kennileiti í borginni og ómissandi viðkomustaður allra sem sækja Boston heim.

Spennandi?

Skoða flug til Boston

Finna flug

Bunker Hill Minnisvarðinn

Talandi um minnisvarða, það er eiginlega ekki í boði að heimsækja Boston án þess að skoða Bunker Hill og kynna sér þennan sögufræga stað. Minnisvarðinn er reistur til minningar um orrustuna sem átti sér stað á þessum stað fyrir um 200 árum. Þessi háa broddsúla var hönnuð af Marquis De Lafayette og reist snemma á 19. öld en granítið til verksins var flutt frá Quincy. Hér minnast Bandaríkjamenn stoltir sigurs yfir Bretum í Frelsisstríðinu. Hinum megin við götuna er síðan Bunker Hill safnið sem er tilvalið að heimsækja til að kynna sér orrustuna og söguna betur.

Bunker Hill Memorial
Boston Tea Party Museum

Boston Tea Party Ships & Museum

Teboðið í Boston er einn af stóru viðburðum Bandaríkjasögu en árið 1773 safnaðist hópur frelsissinna saman við höfnina í Boston til að mótmæla skattlagningu Breta á nýlenduna. Mótmælunum lauk með því að gríðarlegu magni af bresku te var hent af skipum í sjóinn en þessi mikla uppreisn markaði tímamót í sjálfstæðibaráttu þjóðarinnar. Þetta skemmtilega safn er tileinkað viðburðinum og hlutverki hans í sögu Bandaríkjanna. Hér má m.a. stíga um borð í eftirlíkingu af tveggja hæða tehúsi sem eitt sinn stóð við höfnina, skoða gagnvirkar sýningar, bíómyndir og muni sem tengjast bæði teboðinu og þeim sem tóku þátt í því. Að lokum býðst gestum tækifæri til að henda sjálfir heilu kössunum í höfnina í Boston. Þetta er lifandi og áhugavert safn sem gerir gesti sína að þátttakendum og þetta er líklega einn af menningarlega mikilvægustu viðburðum Bandaríkjanna.

Skywalk útsýnispallurinn

Þetta er klárlega ekki afþreying fyrir lofthrædda en þeir sem þola hæðina verða agndofa yfir útsýninu. Útsýnispallinum á 50. hæð í Prudential Center turninum í Boston var lokað árið 2020 en nú stendur til að enduropna nýjan og endurbættan stað og djarfir ofurhugar sem þola hraðar lyftur og miklar hæðir ættu ekki að missa af tækifæri til að komast í tæri við þetta útsýni. Héðan má sjá Boston frá allt öðru sjónarhorni og njóta borgarinnar með allt öðrum augum en úr návíginu á jarðhæð. Fáðu yfirsýn og láttu vaða alla leið upp á 50. hæð.

Forsetabókasafn John F. Kennedy

Forsetabókasafn John F. Kennedy er tileinkað arfleifð þessa heimsfræga leiðtoga og er stappfullt af ræðum, skrifum, verðlaunum og ljósmyndum sem tengjast lífi hans og starfi. Farið er yfir ævi forsetans allt frá barnæsku hans í Boston til ára hans í Harvard og ferils hans sem blaðamanns en John F. Kennedy er líklega einn ástsælasti forseti Bandaríkjamanna.

Forsetatíð hans einkenndist af kalda stríðinu og gríðarlegri spennu í samskiptum Bandaríkjanna við Sovétríkin með tilheyrandi ógn um kjarnorkustyrjöld. Hann var ráðinn af dögum 22. nóvember 1963 en morðið á Kennedy er einn umdeildasti atburður 20. aldarinnar og telja margir öll kurl ekki enn komin til grafar í málinu. Það segir sitt um áhrif þessa manns á mannkynssöguna að þrátt fyrir þau stóru spor sem hann markaði á sínum tíma, varði forsetatíð hans aðeins í rúm tvö ár. Forsetabókasafnið er einstök leið til að kynnast manninum betur, arfleifð hans og þessu sérstaka tímabili sögunnar.

Uppgötvaðu yfirgefnu göngin

Þeir sem vilja gera eitthvað alveg nýtt og öðruvísi ættu að kíkja á yfirgefnu neðanjarðargöngin undir City hall Plaza torginu í miðbæ Boston. Hér er að finna fyrstu neðanjarðarlestargöng borgarinnar sem opnuðu 1897 en voru tekin úr notkun 1963. Hér stendur tíminn í stað og þetta er einstök leið til að stíga niður í fortíðina og endurupplifa löngu horfna tíma. Við mælum sérstaklega með skipulagðri ferð með leiðsögumanni.

Að lokum

Boston er ein elsta og sögulega mikilvægasta borg Bandaríkjanna og hér mætast gamlir og nýir tímar á lifandi, litríkan og skemmtilegan hátt. Þetta sérkenni borgarinnar, merkileg fortíðin og spennandi nútíðin, er alls staðar greinilegt sem gerir Boston að stórkostlegum áfangastað fyrir alla ferðalanga.

Spennandi?

Skoða flug til Boston

Finna flug
Toronto City Skyline
NÆST Á DAGSKRÁ

Ódýra leiðin til Toronto


Afþreying í Boston