Skoða efni

Jafnréttis- og jafnlaunastefna PLAY

PLAY er vottaður jafnlaunavinnustaður og leggur áherslu á að allt starfsfólk njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Félagið skuldbindur sig til að vinna eftir lögum um launajafnrétti og er það órjúfanlegur þáttur í stefnu félagsins. Starfrækt er jafnlaunakerfi í samræmi við jafnréttislög og jafnlaunastaðalinn ÍST85. Mannauðsstjóri ber ábyrgð á jafnlaunastefnu og jafnlaunakerfi sem og að framfylgja þeim kröfum sem tengjast jafnlaunakerfinu.

Til að ná markmiðum sínum hefur félagið innleitt vottað jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum ÍST-85. Félagið skuldbindur sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfisins í samræmi við kröfur staðalsins og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Leitast er við að vinna að stöðugum umbótum, eftirliti og viðbrögðum í samræmi við kröfur jafnlaunakerfis. Launagreining er framkvæmd einu sinni á ári og niðurstöður kynntar starfsfólki. Brugðist er við frávikum með stöðugum umbótum og eftirliti. Auk þess er árlega gerð innri úttekt og rýni með stjórnendum. Félagið fylgir viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfestir árlega að þeim sé hlítt.

Jafnlauna- og jafnréttisstefna félagsins er aðgengileg starfsmönnum á innra netinu og eru starfsmenn hvattir til að senda athugasemdir og ábendingar.

  • Starfsfólk skal njóta jafnréttis hjá fyrirtækinu og hafa jöfn tækifæri hvort heldur það er við ráðningu, starfsþróun, þjálfun eða fræðslu, án tillits til kynferðis, aldurs, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarhafts, trúarbragða, lífsskoðunar, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar eða annarra ómálefnalegra þátta.
  • Greiða skal starfsfólki sömu laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni eða annarra ómálefnalegra þátta.
  • Hvers kyns mismunun, fordómar, einelti, kynferðisleg áreitni eða annars konar áreitni eða kynbundið ofbeldi er ekki liðið hjá PLAY.
  • PLAY einsetur sér að gera starfsfólki kleift að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf.
  • Jafnréttis- og jafnlaunastefna fyrirtækisins nær til alls starfsfólks fyrirtækisins og það er sameiginleg ábyrgð starfsfólks PLAY að unnið sé í samræmi við hana.