Skoða efni
7. Jan 2022

Yfir 100.000 flugu með PLAY á hálfu ári

101.053 farþegar flugu með PLAY í yfir þúsund flugferðum á fyrstu sex mánuðum félagsins í rekstri. Sætanýting á tímabilinu var 53,2% sem verður að teljast góður árangur í ljósi mjög krefjandi aðstæðna vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og í samanburði við önnur nýstofnuð flugfélög í Evrópu og Norður-Ameríku.

48% farþega í fyrra voru farþegar á leið frá Íslandi sem endurspeglar frábærar viðtökur félagsins á íslenska markaðnum og sýnir svo ekki verður um villst þörfina fyrir lággjaldaflugfélag á Íslandi.

Árið 2022 mun PLAY fljúga til 22 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku.

17.749 farþegar í desember

PLAY flutti 17.749 farþega í desember og var sætanýting 53,2% samanborið við 58,3% í nóvember. Uppgangur kórónuveirunnar, samkomutakmarkanir og hertar reglur á landamærum á flestum áfangastöðum PLAY olli hiki á meðal ferðamanna, sér í lagi þeirra sem höfðu hug á að bóka jóla- og verslunarferðir með skömmum fyrirvara líkt og hefði mátt búast við í eðlilegu árferði. PLAY er vel í stakk búið til að takast á við óvissuna sem fylgir faraldrinum með traustri fjárhagsstöðu og miklu handbæru fé.

Það hefur að undanförnu sýnt sig að tiltrú ferðamanna er að aukast. Bókunum til lengri tíma fjölgar með sama takti og búast mætti við í eðlilegu árferði. Farþegar eru aftur teknir að bóka ferðir með skömmum fyrirvara vitandi af sveigjanlegum bókunarreglum PLAY, ásamt því að vera farnir að bóka ferðir inn í sumarið. Allt er þetta til marks um að farþegar virðast í auknum mæli leiða hjá sér ástand faraldursins þegar kemur að því að bóka ferðir.

Frábærar viðtökur á Bandaríkjamarkaði

Viðtökur létu ekki á sér standa eftir að PLAY hóf miðasölu á flugi til Boston og Washington D.C. í Bandaríkjunum þann 16. desember. Fréttir af þessum nýju áfangastöðum félagsins ferðuðust víða og miðasalan fór mjög vel af stað sem verður að teljast gott í ljósi þess að flug hefst ekki fyrr en í apríl og maí.

“Nú þegar við lítum til baka yfir viðburðaríkt ár í rekstri PLAY erum við full af eldmóði fyrir komandi tímum. Rekstrarumhverfi allra flugfélaga hefur verið krefjandi en okkur tókst að auka markaðshlutdeild okkar og koma PLAY í mjög góða markaðsstöðu. Þar með erum við í stakk búin til að gernýta komandi uppsveiflu nú þegar við stækkum leiðarkerfi okkar til Bandaríkjanna í vor. Við höfum starfað á fremur litlum og afmörkuð mörkuðum á fyrstu sex mánuðunum en höfum þar náð að afla trausts rúmlega 100.000 viðskiptavina í flóknu rekstrarumhverfi. Það er afrek. Það gleður okkur að sjá að áform okkar um að bjóða ávallt lægra verð hefur virkað. Nú erum við að sjá sterka bókunarstöðu um leið og við hefjum sölu á flugi milli Bandaríkjanna og Evrópu. Við höfum þegar náð að leggja grunn að sannarlega frábæru teymi fólks hjá PLAY, teymi sem er afar metnaðarfullt og faglegt. Árið 2021 var ár stórra sigra hjá PLAY og ég hlakka til að vinna áfram með samstarfsfólki mínu í PLAY-liðinu við að mæta nýjum áskorunum og halda áfram sigurgöngunni á komandi ári,” segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Flutningstölur Desember 2021 (pdf)Hlekkur opnast í nýjum flipa