Skoða efni
30. Jan 2024

Tímamót í þjónustu við tengifarþega PLAY

Tengifarþegum flugfélagsins PLAY býðst nú að bóka sjálfir dvöl á Íslandi án aukakostnaðar þegar þeir fljúga á milli Norður Ameríku og Evrópu. Með tilkomu nýs viðmóts geta farþegarnir sjálfir klárað slíka bókun á vef PLAY og þar með dvalið á Íslandi í allt að tíu daga áður en þeir halda för sinni áfram yfir Atlantshafið. 

PLAY leggur mikið upp úr því að bjóða samkeppnishæf verð á sínum mörkuðum og með þessari þjónustu eru ferðamenn að fá að heimsækja tvö lönd án þess að greiða aukalega fyrir það í bókunarvél flugfélagsins. 

Í Bandaríkjunum flýgur PLAY til Baltimore, Boston, New York og Washington DC en flugfélagið býður einnig upp á áætlunarferðir til Toronto í Kanada. Í Evrópu er flugfélagið með yfir 30 áfangastaði, þar á meðal gífurlega vinsæla borgaráfangastaði á borð við Kaupmannahöfn, London, París, Berlín og Amsterdam. Þar að auki býður PLAY upp á fjölda sólarlandaáfangastaða í Evrópu á borð við Alicante, Mallorca, Fuerteventura, Aþenu, Lissabon og nú nýjast, Split í Króatíu. 

„Það er gríðarlegur áfangi fyrir okkur að nú geti tengifarþegar sjálfir bókað sér „stopover“ á Íslandi í bókunarvél okkar sér að kostnaðarlausu. Þetta eykur vöruúrvalið okkar og mun reynast okkur afar dýrmætt tól í samkeppni um verðmæta farþega á okkar mörkuðum. Það er ótvírætt hagræði fyrir farþega að velja PLAY ef þeir vilja komast yfir Atlantshafið og laðast um leið að því mikla aðdráttarafli sem Ísland hefur. Þessi nýja þjónusta á vef okkar auðveldar þeim ferlið til muna að bóka áningu á okkar fallega landi og mun auka hróður okkar flugfélagsins enn frekar á erlendri grundu,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.