Skoða efni
12. Oct 2021

Þrír nýir áfangastaðir hjá PLAY

Flugfélagið PLAY hefur bætt þremur áfangastöðum í Skandinavíu við sumaráætlun sína. Um er að ræða Stafangur og Þrándheim í Noregi ásamt Gautaborg í Svíþjóð.

Flug til Gautaborgar hefst í lok maí og flogið verður til og frá borginni tvisvar í viku. Þá verður flogið tvisvar í viku til Stafangurs og Þrándheims og hefst flug einnig í lok maí. Miðasala hefst í dag en með þessu er félagið að bregðast við þörf á áætlunarflugi til umræddra borga.

Eins og staðan er í dag er ekkert beint flug frá Íslandi til Gautaborgar sem er önnur stærsta borgin í Svíþjóð. Gautaborg er frábær borg fyrir fjölskyldufrí en þar er til að mynda stærsti skemmtigarður á Norðurlöndunum, Liseberg. Þá má nefna knattspyrnumótið Gothia Cup en það er eitt fjölmennasta barna- og unglingamót sem haldið er í heiminum í dag og árlega fjölmenna íslenskir krakkar og fjölskyldur þeirra á mótið.

Í Stafangri í Noregi búa um tólf hundruð Íslendingar og með beinu flugi PLAY til borgarinnar kemur félagið til móts við þann hóp með ódýrum fargjöldum. Náttúran í kringum Stavanger er víðfræg og finna má fjölda eftirsóttra staða í grennd við borgina. Fjöldi Íslendinga býr einnig í Þrándheimi í Noregi. Þar eru sumarnæturnar oft langar og mildar og borgin er þekkt fyrir fallega miðnætursól.

„Sala á flugmiðum hefur tekið kipp síðustu vikur og við finnum vel að fólk er tilbúið að ferðast. Við erum byrjuð að stækka leiðakerfið okkar og teljum nú tímabært að bjóða viðskiptavinum okkar upp á fleiri valkosti í Skandinavíu en með þessu fjölgum við áfangastöðunum okkar á Norðurlöndunum úr einum í fjóra. Margir Íslendingar eru búsettir á þessum slóðum og við teljum að við getum byggt upp hagkvæma flugáætlun á þessa staði, bæði með eftirspurn frá Íslendingum og heimamönnum,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.