- Fréttir
Sterk bókunarstaða, hækkandi tekjur og lækkandi kostnaður
Sterk bókunarstaða, hækkandi tekjur og lækkandi kostnaður
- Bókunarstaða sterk og vaxandi sætanýting.
- PLAY hefur flutt um 230 þúsund farþega frá upphafi, þar af um 60 þúsund á fyrsta ársfjórðungi 2022.
- Fjárhagsstaða PLAY er sterk. Handbært fé þann 31. mars var 42,12 milljónir Bandaríkjadala. Eiginfjárhlutfall var 22% og félagið er með engar ytri vaxtaberandi skuldir.
- Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði (EBIT) var neikvæð um 13,3 milljón Bandaríkjadali á fyrsta ársfjórðungi 2022, sem var viðbúið þar sem félagið hefur enn ekki náð tilætlaðri stærðarhagkvæmni. Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar hafði áhrif á tekjur á ársfjórðungnum og stríðið í Úkraínu hafði þau áhrif að olíuverð hækkaði undir lok fjórðungsins, sem hvort tveggja hafði neikvæð áhrif á fjárhagslega afkomu félagsins.
- PLAY hefur hafið innleiðingu á olíuvörnum.
- Einingakostnaður, að frátöldum eldsneytiskostnaði, fer lækkandi með auknum umsvifum og félagið gerir ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs.
- Rekstrartekjur fara ört vaxandi.
Á fyrsta ársfjórðungi var helsta áherslan á að skala starfsemina upp í aðdraganda sumaráætlunarinnar og tengiflugsleiðakerfisins og þetta fól í sér að ráða og þjálfa nýtt starfsfólk, hefja starfsemi á fimmtán nýjum flugvöllum og að bæta við flotann.
PLAY flutti 13.488 farþega í janúar og sætanýtingin var 55,7%. Í febrúar var sætanýting félagsins 67,1% og farþegar voru 19.686. Sætanýting var 66,9% í mars og farþegar 23.667 sem er tuttugu prósenta aukning frá fyrri mánuði. Mikill fjöldi kórónuveirusmita í lok árs 2021 gerði það að verkum að fólk hikaði við að kaupa sér flugmiða sem hafði neikvæð áhrif á bókanir.
Bókunarstaða heldur áfram að styrkjast
Í janúar styrktist bókunarstaðan fyrir komandi mánuði til muna. 95% fleiri sæti voru seld miðað við desember 2021. Þessi jákvæða þróun hélt áfram í febrúar, 59% fleiri sæti seldust miðað við janúar, þrátt fyrir stríðið í Úkraínu. Þróunin hefur haldið áfram og 336% fleiri sæti voru seld í apríl en í janúar. Sætanýting í apríl var 72,4% og farþegar voru 36,669 eða helmingi fleiri en í mars.
Sterk fjárhagsstaða og lækkandi einingakostnaður
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 13,3 milljón Bandaríkjadali á fyrsta ársfjórðungi 2022, sem var viðbúið þar sem félagið hefur enn ekki náð tilætlaðri stærðarhagkvæmni. Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar hafði áhrif á tekjur á ársfjórðungnum og stríðið í Úkraínu leiddi til þess að olíuverð hækkaði undir lok fjórðungsins, sem hvort tveggja hafði neikvæð áhrif á fjárhagslega niðurstöðu félagsins.
Fjárhagsstaða PLAY er eftir sem áður sterk. Handbært fé þann 31. mars var 42,12 milljónir Bandaríkjadala. Eiginfjárhlutfall var 22% og félagið er með engar ytri vaxtaberandi skuldir.
Félagið hefur náð góðum árangri við að halda kostnaði niðri og einingakostnaður (CASK) fer lækkandi með auknum umsvifum. Félagið gerir ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs þar sem einingarkostnaður, að frátöldum eldsneytiskostnaði, minnkar jafnt og þétt. PLAY gerir ráð fyrir einingarkostnaði undir fjórum sentum sumarið 2022.
Tap félagsins nam 11,2 milljónum dala á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022, samanborið við 0,4 milljónir dala á sama tímabili á síðasta ári, áður en PLAY hóf flugrekstur.
Innleiðing á olíuvörnum hafin
PLAY hefur hafið innleiðingu á olíuvörnum en fyrirtækið hefur gert samkomulag við Skeljung sem samræmist stefnu fyrirtækisins um olíuvarnir. Fyrsta varfærna skrefið hefur verið stigið í innleiðingu á stefnunni og fylgst verður áfram náið með sveiflum í efnahagsmálum í heiminum fyrir næstu skref. Olíugjaldið sem lagt var á flugfargjöld fyrirtækisins í mars hefur hins vegar mildað hluta af hækkun á olíuverði.
Breytingar á flotanum í ljósi hás olíuverðs
Sumarið 2022 stóð til að PLAY hefði á að skipa þremur Airbus A321neo, einni Airbus A321neo Long Range (LR) og tveimur Airbus A320neo. Í ljósi hás olíuverðs hefur PLAY ákveðið að gera breytingar á flotanum, sem fela í sér að skipta fyrirhugaðri A321neo LR út fyrir Airbus320neo á hagstæðari kjörum sem tryggir enn lægri rekstrarkostnað til lengri tíma. Samhliða þessu er sú breyting gerð að ekki verður flogið til Orlandó, eins og til stóð að gera þrisvar í viku frá 30. september. Samantekið verða því þrjár Airbus 321neo og þrjár Airbus A320neo í þjónustu félagsins í sumar.
Stærra leiðarkerfi tryggir bætta nýtingu á flugvélum og öðrum þáttum
Á öðrum ársfjórðungi 2022 mun PLAY stækka leiðakerfi sitt í Evrópu og Norður-Ameríku. Í apríl hóf PLAY flug til Baltimore/Washington D.C. og Dublin. Aðeins í maí hefur PLAY hafið flug til Prag, Boston, Lissabon, Gautaborgar og Brussel. Fyrir lok maí mun PLAY hafa hafið flug til Stafangurs, Malaga og Þrándheims. Í júní hefst flug til Mallorca, Bologna og New York.
Heildarfjöldi sæta til sölu á öðrum ársfjórðungi 2022 verður 167% meiri en það sem stóð til boða á fyrsta ársfjórðungi 2022. Stærra leiðakerfi tryggir bætta nýtingu á flugvélum og öðrum þáttum í starfseminni. Niðurstaðan er sú að gera má ráð fyrir umtalsvert lægri einingarkostnaði á öðrum ársfjórðungi samanborið við árið á undan, að frádregnum kostnaði við olíu og annan útblástur.
„Nú þegar fyrsta ársfjórðungi 2022 er lokið sjáum við og finnum greinilega fyrir aukinni eftirspurn á mörkuðum okkar. PLAY hefur greinilega náð að stimpla sig inn á erlendu mörkuðunum og náð að styrkja stöðu sína til muna. Eftir krefjandi vetur er mjög gott að finna fyrir þessari jákvæðu þróun á sætanýtingu og sjá vaxandi fjölda farþega mánuð eftir mánuð. Á fyrsta ársfjórðungi var helsta áherslan á að skala starfsemina upp í aðdraganda sumaráætlunarinnar og tengiflugsleiðakerfisins sem fól meðal annars í sér að ráða og þjálfa nýtt starfsfólk og gera ráðstafanir um að bæta við flotann. Við erum alveg örugg á því að við séum að auka framboð á hárréttum tíma þar sem eftirspurn fer nú ört vaxandi á mörkuðum okkar. PLAY hefur að fljúga á tólf nýja áfangastaði, í Evrópu og Bandaríkjunum, í maí og júní og því er óhætt að segja að það séu spennandi tímar fram undan. Áfangastaðir félagsins verða því orðnir 26 talsins í sumar, beggja vegna Atlantshafsins. Til að ná þessum góða árangri hefur teymið hjá PLAY unnið sleitulaust og það hefur verið magnað að sjá öll markmiðin verða að veruleika þökk sé faglegum, lausnamiðuðum og hæfileikaríkum hópi starfsmanna. Bókunarstaðan fyrir næstu mánuði er sterk og við gerum ráð fyrir því að sætanýting haldi áfram að vaxa, sérstaklega eftir tilkomu tengiflugsleiðakerfisins. Fjárhagsstaða PLAY er áfram sterk, með góðri sjóðsstöðu og sterkum efnahagsreikningi. Þá er gaman að geta sagt frá því að einingakostnaður, að frátöldum eldsneytiskostnaði, fer lækkandi með auknum umsvifum og félagið gerir ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.
Frekari upplýsingar:
Streymi frá fjárfestakynningu, 25. maí 2022
PLAY mun kynna uppgjör sitt á opnum kynningarfundi sem hefst klukkan 08:30 þann 25. maí 2022. Þar munu Birgir Jónsson forstjóri og Þóra Eggertsdóttir, fjármálastjóri PLAY, kynna uppgjörið og svara spurningum að því loknu.
Kynningunni verður streymt hér: https://flyplay.com/investor-relations