- Fréttir
Steinar Þór ráðinn forstöðumaður markaðsmála hjá PLAY
Steinar Þór ráðinn forstöðumaður markaðsmála hjá PLAY
Steinar Þór Ólafsson hefur verið ráðinn forstöðumaður markaðsmála hjá flugfélaginu PLAY. Steinar hefur störf í dag, 1. júlí.
Steinar Þór kemur til PLAY frá Viðskiptaráði Íslands en áður starfaði hann sem markaðsstjóri Skeljungs og stýrði stafrænni markaðssetningu hjá N1. Hann er einnig reglulegur pistlahöfundur á Rás 1 og í Viðskiptablaðinu og hefur flutt fyrirlestra víða um vinnustaðamenningu. Steinar Þór er með B.Sc. og MBA gráður frá Háskólanum í Reykjavík.
“Það er ánægjulegt að fá Steinar Þór til liðs við okkur fyrir áframhaldandi uppbyggingu og ásýnd vörumerkisins PLAY. Hann hefur látið til sín taka á undanförnum árum og við hlökkum til að sjá hann beita kröftum sínum í þeim verkefnum sem framundan eru,” segir Georg Haraldsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs flugfélagsins.
Fyrsta flug PLAY fór í loftið 24. júní síðastliðinn og sama dag hófst hlutafjárútboð félagsins sem gekk vonum framar. Það er því fögnuður í starfsliði PLAY sem hefur lengi beðið þess að komast í loftið og á sama tíma fjölgar starfsmönnum jafnt og þétt enda fyrirtækið í örum vexti.