Skoða efni
24. Apr 2024

Umtalsverð aukning í tekjum og farþegafjölda samhliða aukinni sætanýtingu

Umtalsverð aukning í tekjum og farþegafjölda samhliða aukinni sætanýtingu

 • Tekjur flugfélagsins PLAY á fyrsta ársfjórðungi jukust um 66% á milli ára, úr 33 milljónum bandaríkjadollara (4,6 milljarðar króna) á fyrsta ársfjórðungi 2023 í 54 milljónir bandaríkjadollara (7,6 milljarðar króna) á fyrsta ársfjórðungi 2024. Framboð jókst á sama tíma um 63%.
 • Lausafjárstaða félagsins var 17,1 milljónir bandaríkjadollara við lok fyrsta ársfjórðungs. Síðan þá hefur PLAY lokið hlutafjáraukningu þar sem söfnuðust 32 milljónir bandaríkjadollara (4,6 milljarðar króna). Lausafjárstaðan er því traust og styrkist enn frekar með auknu sjóðstreymi í aðdraganda sumars. Skráning á aðalmarkað stendur enn yfir.
 • PLAY flutti 349 þúsund farþega á fyrsta ársfjórðungi 2024, sem er aukning um 64% á milli ára.
 • Á sama tíma jókst sætanýting milli ára, úr 78,4% í 81,8%.
 • Flugrekstur gekk vel í ársfjórðungnum þar sem PLAY var með stundvísi upp á 87,8%, sem er umtalsvert betra en stundvísi helsta keppinautar flugfélagsins.
 • Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á fyrsta ársfjórðungi var neikvæð um 20,4 milljónir bandaríkjadollara. Ónákvæmur fréttaflutningur erlendis af jarðhræringum á Reykjanesskaga hafði áhrif á eftirspurn eftir flugi til Íslands og þar með neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna. 
 • Heildartekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (TRASK) námu 4,2 bandaríkjasentum og stóðu í stað á milli ára.
 • Kostnaður við hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) var 5,9 bandaríkjasent á fyrsta ársfjórðungi 2024, sem er 8% minna en á fyrsta ársfjórðungi 2023. 
 • Kostnaður að undanskildu eldsneyti (CASK ex-fuel) var 4,2% minni og stóð í 4,3 bandaríkjasentum við lok ársfjórðungsins. 
 • Tekjur á hvern farþega voru 151 bandaríkjadollari en stóran þátt í því eiga hliðartekjur á hvern farþega sem voru 50 bandaríkjadollarar. 

Einar Örn Ólafsson, forstjóri

Rekstrarniðurstaða fyrsta ársfjórðungs 2024 var í takt við áætlanir okkar. Niðurstaðan er mörkuð af þeim neikvæðu áhrifum sem ónákvæmur fréttaflutningur af jarðhræringum á Reykjanesskaga síðastliðið haust hafði á eftirspurn eftir flugi til Íslands. Frá þessu höfðum við greint og nú liggur niðurstaðan fyrir. 

En þrátt fyrir rekstrarniðurstöðuna sáum við jákvæð merki bæði í flugrekstri og sölu. Eftirspurnin tók hraustlega við sér í janúar og við slógum eigin sölumet á fyrsta ársfjórðungi sem hefur leitt af sér góða bókunarstöðu fram í tímann. 

Við reynum eftir fremsta megni að halda kostnaði lágum svo við getum boðið samkeppnishæf verð til neytenda. Á fyrsta ársfjórðungi 2024 lækkaði kostnaður við hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) um 8%, samanborið við fyrsta ársfjórðung 2023, og þá þróaðist kostnaður að undanskildu eldsneyti einnig í rétta átt. Áherslur okkur munu áfram snúast um að sýna ráðdeild í rekstri. 

Fyrsti ársfjórðungur hvers árs getur reynst afar krefjandi í flugrekstri vegna veðuraðstæðna á Íslandi. Þess vegna er virkilega ánægjulegt að sjá stundvísi okkar mælast 87,8% fyrir tímabilið, sem er yfir takmarki okkar upp á 85% stundvísi fyrir allt árið. Þessi árangur er alfarið afrakstur þrotlausrar vinnu samstarfsfólks míns hjá PLAY sem á allt hrós skilið fyrir frábær störf. 

Við lukum einnig hlutafjárútboði í fyrsta ársfjórðungi þar sem söfnuðust 32 milljónir bandaríkjadollara, sem jafngildir um 4,6 milljörðum íslenskra króna. PLAY státar því af góðri fjárhagsstöðu sem gerir félaginu kleift að ná markmiðum sínum. 

Fyrir höndum er sumarvertíðin sem öllu máli skiptir í rekstri flugfélaga og ég hlakka virkilega til þess annasama tíma þar sem við hjá PLAY munum kappkosta við að veita farþegum okkar framúrskarandi þjónustu. 

Stundvísi á heimsmælikvarða og nýir áfangastaðir

Flugfélagið PLAY flutti 349 þúsund farþega á fyrsta ársfjórðungi 2024, samanborið við 212 þúsund farþega á fyrsta ársfjórðungi 2023, sem samsvarar 64% aukningu á milli ára. Þessi aukning er eftirtektarverð fyrir þær sakir að sætanýting PLAY jókst á sama tíma á milli ára, úr 78,4% á fyrsta ársfjórðungi 2023 í 81,8% á fyrsta ársfjórðungi 2024. 

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY á fyrsta ársfjórðungi 2024 voru 27% á leið frá Íslandi, 36% voru á leið til Íslands og 37% voru tengifarþegar (VIA). 

Flugrekstur gekk vel í fyrsta ársfjórðungi. PLAY var með 87,8% stundvísi sem er yfir markmiði félagsins um 85% stundvísi fyrir árið og vel yfir stundvísishlutfalli helsta samkeppnisaðila félagsins. 

PLAY hóf miðasölu til fimm nýrra áfangastaða á fyrsta ársfjórðungi. Síðar á árinu mun PLAY hefja áætlunarflug til Madeira, Marrakesh, Vilnius og Split en einnig bætist við sex vikna áætlun til Cardiff og þá mun PLAY einnig fara í eina ferð til jólaþorpsins Rovaniemi í Finnlandi. 

Fjárhagsniðurstaða

Heildartekjur PLAY jukust um 63% á milli ára, úr 33 milljónum bandaríkjadollara á fyrsta ársfjórðungi 2023 í 54 milljónir bandaríkjadollara á fyrsta ársfjórðungi 2024. Tekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (RASK) jukust um 10% frá fyrra ári þrátt fyrir 13% aukningu á framboðnum sætiskílómetrum (ASK). 

Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) lækkaði um 8%, úr 6,4 á fyrsta ársfjórðungi 2023 í 5,9 á fyrsta ársfjórðungi 2024. Kostnaður að undanskildu eldsneyti (CASK ex-fuel) var 4,3 á fyrsta ársfjórðungi 2024, samanborið við 4,5 á fyrsta ársfjórðungi 2023. 

Heildartekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (TRASK) voru 4,2 á fyrsta ársfjórðungi 2024, samanborið við 4,3 á fyrsta ársfjórðungi 2023. 

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var neikvæð um 20,4 milljónir bandaríkjadollara, samanborið við neikvæða rekstrarniðurstöðu upp á 17,3 milljónir bandaríkjadollara í fyrsta ársfjórðungi 2023. Þessi neikvæða rekstrarniðurstaða er á pari við þær áætlanir sem PLAY hafði gefið út og markast af neikvæðum fréttaflutningi erlendis á fjórða ársfjórðungi í fyrra um jarðhræringar á Reykjanesskaga sem dró verulega úr eftirspurn eftir flugi til Íslands.  

Lausafjárstaða félagsins var 17,1 milljónir bandaríkjadollara við lok fyrsta ársfjórðungs. Síðan þá hefur PLAY lokið hlutafjáraukningu þar sem söfnuðust 32 milljónir bandaríkjadollara (4,5 milljarðar íslenskra króna). Lausafjárstaðan er því traust og styrkist enn frekar með auknu sjóðstreymi í aðdraganda sumars.

Horfur

Horfur PLAY fyrir árið 2024 eru óbreyttar frá fyrri spá. PLAY mun reka flota árið 2024 sem telur tíu farþegaþotur frá Airbus A320-fjölskyldunni. Kostnaður að undanskildu eldsneyti mun aukast um 3% á ársgrundvelli. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) verður í kringum núll og sjóðstreymi mun batna á milli ára. 

 

Frekari upplýsingar: 
PLAY er stöðugt að þróa upplýsingagjöf sína og mun birta samandregna útgáfu af ársfjórðungsuppgjörum sínum. 

Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY, mun fara yfir niðurstöður félagsins miðvikudaginn 24. apríl klukkan 16:15. Mun kynningin verða á ensku í vefstreymi á eftirfarandi slóð: https://www.flyplay.com/financial-reports-and-presentationsHlekkur opnast í nýjum flipa

 

 

Fjárhagsdagatal

 • Q2 2023 25.júlí 2024
 • Q3 2023 24.október 2024
 • Q4 2023 7.febrúar 2025