Skoða efni
17. Jan 2024

PLAY bætir gullfallegum sólarlandaáfangastað við leiðakerfi sitt

Flugfélagið PLAY hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til strandborgarinnar Split í Króatíu. Fyrsta flug PLAY til Split verður 28. maí en PLAY mun fljúga þangað einu sinni í viku á þriðjudögum yfir sumarmánuðina. 

Þetta verður í fyrsta sinn sem áætlunarferðum verður haldið úti á milli Íslands og Split og er þetta jafnframt fyrsti áfangastaður PLAY í Króatíu.

Split er einn af eftirsóttustu áfangastöðum Evrópu þar sem er hægt að sóla sig á fjölbreyttum ströndum og baða sig í kristaltæru Adríahafinu. Split býður upp á göngugötu meðfram strandlengjunni þar sem er auðvelt er að gleyma sér í útsýninu og gamli miðbærinn er bæði ævaforn og gullfallegur. Split er hvað glæsilegust í ljósaskiptunum þegar ljósin í strandbæjunum og snekkjum blasa við en skotstund frá Split er eyjan Hvar þar sem skemmtanaþyrstir munu vafalaust eiga sínar bestu stundir.

Þannig að hvort sem þú ert að leita að afslappandi fríi í undurfögru umhverfi, eða vilt njóta næturlífs eða útivistar, þá er Split sannarlega áfangastaður sem uppfyllir þau skilyrði.  

Floti PLAY telur nú 10 farþegaþotur af gerðinni Airbus A320/321neo en hátt í fjörutíu áfangastaðir tilheyra leiðakerfi flugfélagsins á árinu 2024. 

„Við opnum árið 2024 með Split sem ég held að Íslendingar eigi eftir að taka vel í. Við viljum vera leiðandi í sólarlandaáfangastöðum og Split uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru þegar fólk vill komast í draumafríið sitt. Við bindum líka að sjálfsögðu vonir við að íbúar í Split og nágrenni borgarinnar muni nýta tækifærið til að heimsækja okkar frábæra land. Við munum bjóða samkeppnishæf verð á milli Split og Íslands og þetta er frábær valkostur fyrir þá sem vilja upplifa nýjan áfangastað sem er bæði fullur af fornum menningarverðmætum og fullkomnu veðri og á eflaust eftir að skilja eftir sig magnaðar minningar,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.