Skoða efni
6. Oct 2022

PLAY til Porto

Flugfélagið PLAY hefur hafið sölu á áætlunarferðum til borgarinnar Porto í Portúgal. Fyrsta flugið verður fimmtudaginn 6. apríl (skírdag) 2023. Flogið verður tvisvar í viku fram í lok október 2023. Porto er annar áfangastaður PLAY í Portúgal, en flugfélagið var með áætlunarferðir til höfuðborgarinnar Lissabon í ár og verður framhald á þeim ferðum á næsta ári.

Þetta er í fyrsta sinn sem flugfélag býður upp á beint áætlunarflug á milli Porto og Íslands. Porto er afar vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn en borgin hefur í tvígang verið valin besti evrópski áfangastaðurinn af samtökunum European Best Destinations, árin 2014 og 2017.

„Við höfum boðað að við viljum vera leiðandi flugfélag á milli Íslands og Íberíuskagans og sýnum það í verki með því að bjóða nú upp á Porto á næsta ári. Fyrir erum við með Lissabon, sem var einn af vinsælustu áfangastöðum PLAY í ár, og þar að auki verðum við með 7 áfangastaði á Spáni, þar af fjóra á Spáni allt árið um kring. Nú eiga Íslendingar meiri möguleika á að komast í sólina í hagkvæman hátt og sömuleiðis er áhugi Portúgala og Spánverja mikill á Íslandi enda hafa þeir tekið afar vel í þjónustu PLAY,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.