Skoða efni
23. Feb 2022

PLAY til Orlando

Flugfélagið PLAY hefur hafið miðasölu á flugi til Orlando í Bandaríkjunum. Fyrsta flug PLAY til Orlando verður þann 30. september og verður flogið þangað þrisvar í viku. Flogið verður til Orlando International flugvallar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.

Þetta  verður fjórði áfangastaður PLAY í Bandaríkjunum en hinir þrír áfangastaðirnir eru Boston, Baltimore/Washington DC og New York.

Það sem gerir PLAY kleift að fljúga til Orlando er ný Airbus A321neo Long Range (LR) flugvél sem er væntanleg í flota félagsins þegar nær dregur sumri. PLAY hefur hingað til notast við Airbus A321neo flugvélar en Airbus A321neo LR er sambærileg vél, en hefur það fram yfir systurvélar sínar að geta borið meira eldsneyti og hefur því meiri drægni.

„Með tilkomu Airbus A321neo LR komust við inn á markaði sem áður voru ekki opnir PLAY. Við notum nýjustu kynslóð af A320/1neo frá Airbus-framleiðandanum sem er eftirsóttasta flugvél í heiminum í dag og mun Long Range-útgáfan af þessum vélum koma að góðum notum,“ segir Birgir Jónsson forstjóri PLAY.

„Ég er sannfærður um að innkoma okkar í Orlando muni hrista verulega upp í Flórída-markaðnum. Við höfum skoðað það verð sem samkeppnisaðilar okkar hafa boðið upp á til og frá svæðinu og teljum okkur auðveldlega geta boðið mun lægra verð á þessari vinsælu flugleið, bæði þeim fjölmörgu Íslendingum sem leggja leið sína til Flórída og tengifarþegum milli Flórída og Evrópu. PLAY er alvöru lággjaldaflugfélag sem hefur það að markmiði að bjóða hagstæðasta verðið á markaðnum. Með tilkomu okkar á þennan vinsæla áfangastað munu fleiri geta ferðast til Flórída og upplifað þetta frábæra svæði.“

Borgin Orlando í Flórída-fylki er áfangastaður sem einkennist af ævintýrum, afþreyingu og skemmtun í sólríku og nútímalegu borgarlandslagi. Ferðalangar á öllum aldri finna eitthvað við sitt hæfi í Orlando. Í borginni eru einhverjir vinsælustu skemmtigarðar heims, þar á meðal Walt Disney World, Universal Studios  og Legoland Florida. Útivistarmöguleikar eru fjölmargir og mikið úrval af fjölbreyttri afþreyingu.

Frá Orlando International flugvellinum verður einnig hægt að ferðast með Brightline-hraðlestinni um Flórída. Stækkun á Brightline-hraðlestarkerfinu er langt komin og má búast við að hægt verði til dæmis að ferðast með lestinni til Miami frá Orlando International snemma árs 2023.