- Fréttir
PLAY flýgur til Liverpool og Genfar
PLAY flýgur til Liverpool og Genfar
Flugfélagið PLAY hefur bætt Liverpool í Englandi og Genf í Sviss við áætlun sína fyrir veturinn 2022 til 2023. PLAY mun fljúga tvisvar í viku, mánudaga og föstudaga, til og frá John Lennon-flugvellinum í Liverpool frá nóvember 2022 fram að miðjum apríl árið 2023.
Genf verður nýjasti skíðaáfangastaður PLAY árið 2023. PLAY mun fljúga til Genfar-flugvallar tvisvar í viku frá 1. febrúar til 23. mars.
Margir Íslendingar hafa sterkar taugar til Liverpool-borgar. Sögufrægasta hljómsveit veraldarinnar, Bítlarnir, eru frá borginni og ófáir Íslendingar eiga þann draum að upplifa þær slóðir þar sem þessir fjórmenningar slitu barnskónum.
Þá á knattspyrnuliðið Liverpool FC þúsundir stuðningsmanna hér á landi. Enska úrvalsdeildin er eitt allra vinsælasta íþróttaefnið í áhorfi á meðal Íslendinga sem gera sér ferðir til Bretlandseyja til að sjá uppáhaldsliðin sín etja kappi. Þar eru íslenskir stuðningsmenn Liverpool engin undantekning og munu nú eiga kost á beinu flugi með PLAY til Liverpool.