Skoða efni
1. Sep 2022

PLAY auglýsir eftir 150 flugliðum og 55 flugmönnum

PLAY leitar nú að um 150 flugliðum fyrir næsta vor, bæði í framtíðar- og sumarstörf. Þá leitar félagið einnig að 55 flugmönnum, bæði með og án reynslu. Um er að ræða stærstu ráðningu félagsins í einu vetfangi.

Í sumar störfuðu um 150 flugliðar og um 70 flugmenn hjá félaginu en ráðningarnar nú eru í takt við enn frekari umsvif PLAY sem mun taka fjórar nýjar flugvélar í notkun næsta vor. Félagið er nú þegar með sex vélar í rekstri.

Rétti tíminn til að manna vélarnar fyrir næsta sumar

PLAY mun bæði ráða flugliða með og án reynslu. Áhafnir PLAY hafa vakið verðskuldaða athygli um borð og á áfangastöðum félagsins með látlausum og þægilegum einkennisklæðnaði sem sendir skýr skilaboð um þægilega þjónustu PLAY og andann á vinnustaðnum þar sem leikgleðin er í fyrirrúmi.

„Nú er rétti tíminn til að manna vélarnar fyrir næsta sumar. Við erum afar stolt af því að við séum að skapa öll þessu nýju störf og ég er vægast sagt spenntur að fá nýtt fólk í PLAY liðið,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Hægt er að sækja um á www.flyplay.is/storfHlekkur opnast í nýjum flipa