Skoða efni
7. Nov 2023

83% sætanýting og 68% fjölgun farþega

Flugfélagið PLAY flutti 154.479 farþega í október, sem er 68% aukning frá október í fyrra þegar PLAY flutti 91.940 farþega. Sætanýtingin í október var 83%, samanborið við 81,9% sætanýtingu í október í fyrra. PLAY var með stundvísi upp á 85,8% í október.

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í október voru 28,4% á leið frá Íslandi, 33,9% voru á leið til Íslands og 37,6% voru tengifarþegar (VIA).

PLAY var með 10 áfangastaði í leiðakerfi sínu í október sem náðu yfir 90% sætanýtingu en af þeim 10 voru Porto og London með yfir 95% sætanýtingu.

Meðal hliðartekjur héldu áfram að aukast hjá flugfélaginu en þær voru 20% hærri í október 2023 samanborið við október í fyrra og er sú þróun áframhaldandi næstu mánuði.

PLAY hefur flutt 1,3 milljónir farþega það sem af er ári. Sætanýtingin er sömuleiðis 84,9% það sem af er ári en af þeim farþegum sem PLAY hefur flutt voru 27% á leið frá Íslandi, 32,6 prósent voru á leið til Íslands og 40,3% voru tengifarþegar (VIA).

Nýjar hliðartekjuvörur

PLAY hefur hafið sölu á flugsætum með auknu plássi og þægindum. Varan er nefnd „Space-sæti“ þar sem farþegum býðst að kaupa sér sæti með auknu fótarými við glugga eða gang þar sem þægilegu hliðarborði hefur verið komið fyrir í miðjusætinu. Þessi vara mun draga framboð á sætum í Airbus A321neo úr 214 sætum í 200 sæti. Það þýðir að PLAY mun draga úr kostnaði því þá þarf færri áhafnarmeðlimi til að þjónusta farþega. Þetta mun að sama skapi auka hliðartekjur og verður einfalt að auka framboðið á ný þegar eftirspurnin eykst á ný eftir veturinn.

724 milljóna króna hagnaður á þriðja ársfjórðungi

Flugfélagið PLAY skilaði hagnaði upp á 5,2 milljónir bandaríkjadala, 724 milljónir króna, á þriðja ársfjórðungi 2023, samanborið við tap upp á 2,9 milljónir bandaríkjadala, 404 milljónir króna, á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarhagnaður nær tífaldaðist á milli ára en hann fór úr 1,3 milljónum bandaríkjadala, 181 milljón króna, á þriðja ársfjórðungi 2022 í 12,9 milljónir bandaríkjadala, nær 1,8 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi 2023.

Hliðartekjur héldu áfram að aukast í þriðja ársfjórðungi. Hliðartekjurnar hafa aukist um 150% á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 samanborið við sama tímabil í fyrra og hliðartekjur á hvern farþega hafa aukist um 35% á milli ára.

PLAY sló eigið farþegamet á þriðja ársfjórðungi þegar það flaug 191.577 farþegum í júlí og sætanýting mældist 91,1%.

 

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

Október skilaði vel ásættanlegri sætanýtingu hjá PLAY en nýtingarhlutfallið var 83% sem er aukning frá fyrra ári þegar það var 82%. Um 154 þúsund farþegar flugu með okkur sem er aukning um 68% frá fyrra ári þegar 92 þúsund farþegar ferðuðust með PLAY. Stundvísin okkar var áfram mjög góð eða um 85,8%.

Í október endar sumaráætlunin og vetraráætlun tekur yfir með nýjum áfangastöðum og breyttri tíðni. Við höfum séð sterka eftirspurn frá Norður- Ameríku á þessu ári þar sem verð hafa verið há og sætanýting mjög góð. Við sjáum áfram vöxt í meðaltekjum og eins halda hinar mikilvægu hliðartekjur áfram að aukast eftir fjárfestingu í innviðum og ýmsum aðgerðum í þeim tekjustofni. Við förum inn í veturinn með heilbrigða bókunarstöðu á flestum mörkuðum en merkjum samt nokkuð minni eftirspurn en búast hefði mátt við sökum árstíðarsveifla og ótryggs efnahagsástands í heiminum. Við erum vel undir þessa áskorun búin og munum halda áfram að nýta sveigjanleika okkar til að breyta framboði og leiðakerfi til þess að passa við eftirspurn á markaði eins og við höfum áður gert með ágætum árangri. Allir starfsmenn PLAY eru reiðubúnir í vetrarmánuðina og við munum mæta sveiflum í eftirspurn, breytingum á mörkuðum og þeim áskorunum sem flugrekstur á Íslandi um vetur hefur í för með sér með fagmennsku að leiðarljósi og bros á vör.