- Fréttir
Ný flugvél bætist í flota PLAY beint frá Airbus, fær skráningarnúmerið TF-PPA
Ný flugvél bætist í flota PLAY beint frá Airbus, fær skráningarnúmerið TF-PPA
PLAY fékk nýjustu flugvél félagsins, TF-PPA, afhenta í gær, beint frá framleiðandanum Airbus. Vélin var afhent við hátíðlega athöfn í verksmiðju Airbus í Hamburg í Þýskalandi. Þá fékk vélin skráningu hjá Samgöngustofu í gær. Um er að ræða Airbus A320neo flugvél sem PLAY er með á leigu frá alþjóðlega flugvélaleigusalanum China Aircraft Leasing Company (CALC) en í síðustu viku náðust samningar um leigu á tveimur vélum frá CALC.
TF-PPA var flogið frá Hamburg til Ostrava í Tékklandi eftir athöfnina í gær. Jóhann Ingi Helgason flugstjóri og Reynald Hinriksson flugmaður voru í áhöfn á fluginu til Hamburg. Vélin verður í Tékklandi fram að vori þegar hún kemur til Íslands í tæka tíð fyrir sumarvertíðina og áður en félagið hefur flug til Norður-Ameríku. Í Ostrava verður vélin færð í PLAY litina og aðlöguð að þörfum félagsins.
Floti PLAY mun telja sex Airbus flugvélar næsta sumar. Airbus A320 fjölskyldan hentar rekstri PLAY sérstaklega vel. Stærð og drægni vélanna gera PLAY kleift að þjónusta stærri og minni markaði, nær og fjær. Þær eru sparneytnar á eldsneyti og þekking áhafna PLAY á þessum vélum er þegar til staðar.