Skoða efni
4. Nov 2021

Hraustlegur vöxtur í sætanýtingu og PLAY opnar útibú í Litháen

  • Sætanýting var 67,7% í október og vex hraustlega á milli mánaða eða um 30% samanborið við september
  • Jákvæðar horfur og vaxandi eftirspurn
  • PLAY hefur flutt um 68 þúsund farþega frá upphafi
  • Fjárhagsstaða er sterk, handbært fé mikið og engin vaxtaberandi bankalán
  • PLAY gekk vel að lágmarka kostnað og rekstur er því í samræmi við væntingar. COVID-19 faraldurinn hafði þó neikvæð áhrif á tekjur og afkomu félagsins
  • PLAY opnar útibú í Litháen í desember
  • Nýjum áfangastöðum hefur verið bætt við leiðarkerfi PLAY og eru 16 talsins. Fleiri áfangastaðir verða kynntir á næstunni

Á þriðja ársfjórðungi einblíndi PLAY á uppbyggingu rekstrar með öryggi og velgengni að leiðarljósi. Í júlí var sætanýting 41,7% þegar PLAY flutti 9.899 farþega sinn fyrsta heila mánuð í háloftunum. Sætanýting batnaði í ágúst og mældist 46,6% og farþegarnir voru um 17,300. Í september flutti PLAY 15.223 farþega og sætanýtingin var 52,1%. Sætanýting óx hraustlega í október og var 67,7% og PLAY flutti tæplega 25.000 farþega.

Mannauður PLAY óx áfram á þriðja ársfjórðungi en 63 starfsmenn gengu til liðs við fyrirtækið, 41 flugliði, 12 flugmenn og 10 starfsmenn á skrifstofu. Í dag starfa 135 starfsmenn hjá PLAY.

Rekstur á þriðja ársfjórðungi var undir væntingum vegna áhrifa COVID-19 á tekjur félagsins. Allir aðrir fjárhagsliðir, þar á meðal rekstrarkostnaður, voru í samræmi við væntingar. Fjárhagsstaða PLAY er sterk og lausafé mikið sem gerir félaginu kleift að fylgja viðskiptaáætlun sinni á komandi mánuðum þegar innviðir eru undirbúnir fyrir flug til Norður-Ameríku. Eigið fé þann 30. september var 77 milljónir bandaríkjadollara sem jafngildir 29,2% eiginfjárhlutfalli.

Flugáætlun PLAY mun vaxa með flugi til Norður-Ameríku næsta vor

Tap fyrstu níu mánuðina 2021 var 10,8 milljónir bandaríkjadollara samanborið við 2,5 milljónir dollara fyrir sama tímabil árið á undan.

Framundan er vöxtur í flugáætlun PLAY með nýjum áfangastöðum í Evrópu og í Bandaríkjunum. Áhersla verður á undirbúning fyrir tengiflugsleiðakerfi (e.hub-and-spoke) PLAY.

Þrátt fyrir að hlutfall bólusettra hækki stöðugt á mörkuðum PLAY þá fjölgar einnig skráðum tilfellum COVID-19. Fyrir vikið ríkir enn óvissa um áhrif heimsfaraldursins á rekstur næstu mánuðina. PLAY er vel í stakk búið til að standa af sér óvissutímabilið með sveigjanlegum rekstri og sterkri eiginfjárstöðu. Nýlegur vöxtur í skráðum COVID-19 tilfellum hefur enn sem komið er ekki haft neikvæð áhrif á sölu. 

Nýtt útibú PLAY í Vilníus í Desember

PLAY mun opna nýtt útibú í Vilníus í Litháen í desember. Höfuðstöðvar PLAY verða áfram á Íslandi, auk allra áhafna og flugreksturs. PLAY stígur þetta skref snemma í vaxtarfasanum enda mun félagið vaxa samhliða nýju útibúi í Vilníus. Starfsmenn PLAY í Litháen munu sinna ýmsum stoð- og tæknihlutverkum. Þegar er búið að ráða stöðvarstjóra og framundan er að ráða í aðrar stöður á skrifstofunni. Reiknað er með að fimmtán til tuttugu manns muni starfa á skrifstofu PLAY í Vilníus innan fárra mánaða.

Með því að staðsetja hluta verkefna í Vilníus fær PLAY gott aðgengi að sérfræðingum innan upplýsingatækni, stafrænnar þróunar, markaðsmála, fjármála og þjónustu. Til dæmis mun tengiflugsleiðakerfi PLAY krefjast þjónustumiðstöðvar sem getur starfað allan sólarhringinn sem ekki er nauðsynlegt að staðsetja á Íslandi enda stærsti hluti viðskiptavina erlendir ferðamenn. Þjónustumiðstöð fyrir íslenska viðskiptavini verður áfram á Íslandi. Nýja útibúið mun enn fremur ýta undir alþjóðlega menningu og skapa tengingar við nýja birgja, þjónustuveitendur og samstarfsaðila sem geta boðið hagkvæm og álitleg kjör.

PLAY verður nú alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi á meginlandi Evrópu og Norður-Ameríku auk Íslands. PLAY etur kappi við flugfélög sem hafa lágan kostnaðargrundvöll og aðgengi að sérþekkingu á alþjóðlegum markaði. Það er því nauðsynlegt fyrir PLAY að geta mætt þeim sem jafningjum. Hugsunin er sú að halda niðri kostnaði og lágmarka yfirbyggingu svo hægt sé að bjóða lág fargjöld í hörðu samkeppnisumhverfi. Opnun skrifstofunnar í Vilníus er mikilvægt skref í þá átt að tryggja lágan kostnaðargrundvöll PLAY á sama tíma og félagið hefur starfsemi beggja vegna Atlantshafsins og undirbýr framtíðarvöxt.

Frekari upplýsingar:

Streymi frá fjárfestakynningu, 5. nóvember 2021

PLAY mun kynna uppgjör sitt á opnum kynningarfundi sem hefst klukkan 15:30 þann 5. nóvember 2021. Þar munu Birgir Jónsson forstjóri og Þóra Eggertsdóttir, fjármálastjóri PLAY, kynna uppgjörið og svara spurningum að því loknu.

Kynningunni verður streymt hér: https://flyplay.com/investor-relations