Skoða efni
22. Jun 2023

Fyrsta flug PLAY til Toronto

Toronto Skyline Day

Flugfélagið PLAY fór í sitt fyrsta flug til Kanada frá Keflavíkurflugvelli í dag. Áfangastaðurinn í Kanada er Toronto en frá og með deginum í dag mun PLAY fljúga daglega frá Toronto til Íslands og Evrópu.

Þetta er fimmti áfangastaður PLAY í Norður-Ameríku en í Bandaríkjunum flýgur PLAY einnig daglega til New York, Baltimore, Boston og Washington DC.

PLAY flýgur til hátt í fjörutíu áfangastaða í ár og er með tíu Airbus A320/321neo farþegaþotur í sínum flota sem er sá yngsti í Evrópu, en meðalaldur flugvélanna er um 2 ár.

„Það er mikill áfangi fyrir okkar unga flugfélag að vera búið að stækka markaðssvæði sitt enn frekar í Norður-Ameríku. Fyrr á árinu bættust við daglegar ferðir til Washington DC og nú einnig til Toronto. Þessir tveir áfangastaðir munu styrkja tengiflugið okkar á milli Norður-Ameríku og Evrópu til muna og það mun sjást á farþegatölum okkar á næstu mánuðum,” segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

„Á sama tíma og farþegafjöldinn eykst og sætanýtingin sömuleiðis, þá hafa meðaltekjur af hverjum farþega hækkað til muna. Við erum að ná stærðarhagkvæmninni og jafnvæginu í rekstrinum sem við höfum lagt áherslu á að ná og með þessum stórkostlega áfanga í dag að hefja flug til Toronto er með sanni hægt að segja að PLAY sé komið til að vera,” bætir Birgir við.