Skoða efni
10. Jun 2022

Fyrsta flug PLAY til New York

Flugfélagið PLAY fór sitt fyrsta flug til New York Stewart alþjóðaflugvallarins í Bandaríkjunum í gær. Framvegis býður PLAY upp á daglegt flug frá New York Stewart en félagið verður það eina sem stundar millilandaflug til og frá vellinum sem er fagnaðarefni fyrir þær milljónir íbúa sem búa á svæðinu.

Þetta er þriðji áfangastaður PLAY í Bandaríkjunum en fyrir býður PLAY upp á daglegar áætlunarferðir til Boston og Baltimore/Washington. New York Stewart flugvöllurinn mun stækka markaðssvæði PLAY til muna en flutningar á tengifarþegum yfir Atlantshafið er stór hluti af viðskiptamódeli félagsins.

„Við erum að fara fyrsta flugið okkar til New York þegar ekki er liðið ár frá allra fyrsta flugi félagsins árið 2021. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður síðastliðið ár hefur PLAY tekist að vaxa og koma sér fyrir á mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Við fluttum meira en 100 þúsund farþega á fyrstu sjö mánuðum félagsins en nú þegar við höfum bætt við Boston, Baltimore/Washington og New York, gerum við ráð fyrir að flytja næstum eina milljón farþega árið 2022. New York er mikilvægur markaður fyrir bæði bandaríska og evrópska ferðamenn og New York Stewart flugvöllurinn er spennandi tækifæri fyrir okkur til að bjóða íbúum á svæðinu í og við Hudson-dalinn upp á góðan valkost til að ferðast yfir Atlantshafið,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

New York Stewart flugvöllur er í um 75 mínútna fjarlægð frá Times Square á Manhattan. Þó fjarlægðin á korti sé meiri frá New York Stewart flugvelli til Manhattan miðað við JFK flugvöll eða Newark flugvöll þá eru farþegar sem fara í gegnum þessa flugvelli svipað lengi að koma sér til Manhattan. Þá er afgreiðslutími í vegabréfaskoðun og töskuafhendingu mun styttri á New York Stewart flugvelli.

Völlurinn er lítill og þægilegur og farþegar eru að jafnaði í um 30 mínútur eða skemur að fara í gegnum flugvöllinn. Þá eru samgöngur frá New York Stewart flugvelli til Manhattan greiðar. Þar er hægt að taka bíla á leigu, finna leigubíla og lest sem fer til borgarinnar en rútur, sem verða tímasettar eftir brottförum og komum PLAY, eru ódýrasti kosturinn.