Skoða efni
13. Feb 2024

PLAY hefur áætlunarflug til Vilníus

Flugfélagið PLAY hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til Vilníus í Litháen. Flogið verður vikulega á laugardögum yfir sumarmánuðina en fyrsta flugið til Vilníusar verður 25. maí. 

Vilníus er höfuðborg Litháen en þar má finna gamlan borgarhluta sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Aðalgata borgarinnar heitir Gedeminas þar sem hægt er að versla í tískubúðum og fara út að borða  á glæsilegum veitingastöðum. Ef einhver vill frábrugðna upplifun þá mun fríríkið Užupis engan svíkja með sína einstöku listasenu og litríka götumenningu. 

PLAY mun fljúga til hátt í fjörutíu áfangastaða á árinu 2024, en einn af þeim nýjustu í leiðakerfi PLAY er Split í Króatíu. Þar að auki mun PLAY fljúga til fjölda sólarlandaáfangastaða á borð við Tenerife, Mallorca, Lissabon, Porto, Barcelona, Madríd, Alicante og Malaga. 

„Það þarf svo sem ekki að fjölyrða um þá einstöku tengingu sem Ísland og Litháen eiga vegna sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna seint á síðustu öld. Þess vegna er gaman að geta hafið  áætlunarferðir til þessarar einstöku borgar. Við munum bjóða upp á metnaðarfullt leiðakerfi í ár þar sem allir munu finna eitthvað við sitt hæfi. Hvort sem það er að flatmaga á strönd eða upplifa einstaka borgarmenningu, þú munt finna það sem þú þarft á samkeppnishæfu verði hjá PLAY,” segir Birgir Jónsson forstjóri PLAY.