- Fréttir
Ferðalangar geta nú bókað tengiflug með PLAY og spænska flugfélaginu Vueling
Ferðalangar geta nú bókað tengiflug með PLAY og spænska flugfélaginu Vueling
PLAY hefur gert samstarfssamning við spænska flugfélagið Vueling. Með samningnum verður félagið aðili að stafrænni bókunarþjónustu Vueling, Vueling Global, sem byggir á bókunarkerfi Dohop.
Þessi tenging flugfélaganna tveggja gerir farþegum kleift að fljúga frá Íslandi til enn fleiri áfangastaða en áður. Nú býðst farþegum að fljúga frá Íslandi með PLAY til áfangastaða Vueling og fljúga síðan áfram með Vueling til spennandi áfangastaða á borð við Sevilla og Bilbao. Á heimleiðinni er hægt að fljúga með Vueling til allra áfangastaða PLAY og halda síðan áfram með PLAY heim til Íslands.
Quote PLAY
„Þar sem við erum enn tiltölulega ný á markaðinum erum við sífellt að leita fleiri leiða til að bjóða viðskiptavinum okkar ódýrar og þægilegar ferðir til spennandi áfangastaða, annað hvort með því að kynna nýja áfangastaði sjálf eða með samstarfi við önnur flugfélög eins og Vueling. Við trúum því að þær lausnir sem Dohop hefur að bjóða muni hjálpa ferðaiðnaðinum að ná sér hraðar á strik með því að auðvelda ferðamönnum að kynna sér úrval ferða og áfangastaða,“ segir Georg Haraldsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs PLAY.
Bókunarkerfi Dohop gerir fólki kleift að kaupa öll flug ferðalagsins í einni bókun og með einni greiðslu, ásamt því að kaupa farangursheimild og bóka sæti. Að auki býður Dohop upp á ýmiss konar þjónustu við farþega ef kemur til seinkana eða annars konar röskunar á ferðalaginu og hjálpar þeim að komast á áfangastað án viðbótarkostnaðar.
Quote Dohop
„Við erum hæstánægð með að geta bætt PLAY við okkar sístækkandi net af samstarfsaðilum. Ferðaiðnaðurinn er hægt og rólega að taka við sér á ný og ferðalangar eru sannarlega tilbúnir að bæta upp fyrir þann ferðatíma sem hefur glatast síðustu tvö árin. Flugfélögin finna fyrir þessari eftirspurn og þurfa því að bjóða upp á enn fjölbreyttari möguleika en áður til að anna þessari sívaxandi eftirspurn og ferðaþrá fólks,“ segir Daði Gunnarsson, forstjóri Dohop.