Skoða efni
7. Apr 2022

Farþegum PLAY fjölgaði um 20% í mars

PLAY flutti 23.677 farþega í mars sem er 20% aukning frá fyrri mánuði þegar farþegafjöldinn var 19.686. Sætanýting í mars var 66.9%. Félagið hefur væntingar um að sætanýting aukist á næstu mánuðum enda fyrirséð að tengiflug yfir Atlantshaf, sem hefst í mánuðinum, muni styrkja stöðuna til muna. 

Fyrsta flug PLAY til Bandaríkjanna verður þann 20. apríl til Baltimore/Washington. Fyrsta flug félagsins til Boston er 10. maí og til New York þann 9. júní. Tengiflugsbókanir frá Evrópu og Bandaríkjunum hafa styrkst statt og stöðugt undanfarnar vikur sem styrkir tekjur og nýtingu félagsins. 

Með sveigjanlegum rekstri er PLAY enn í góðri stöðu til að takast á við óvissu af völdum heimsfaraldurs og stríðsátaka. Hingað til hafa áhrif stríðsins á PLAY takmarkast við hækkun olíuverðs en félagið fylgist vel með þróuninni og áhrifunum á kostnað og tekjur. Hækkun olíuverðs hefur verið mætt með sérstöku olíugjaldi ofan á miðaverð, sem er í samræmi við aðgerðir helstu samkeppnisaðila PLAY.

„Eftir því sem sætanýtingin verður sífellt betri finnum við á okkur að nýr og spennandi kafli er að hefjast hjá PLAY. Bókanir hafa flætt vel á undanförnum mánuðum og við erum í heilbrigðum vexti frá vori og inn í sumarið. Það er gleðilegt að geta stigið varfærin en ákveðin skref fram á við með því að stækka flotann, fjölga starfsfólki og bæta við leiðum. Það er ljóst að við erum að færa út kvíarnar á nákvæmlega réttum tíma, einmitt þegar eftirspurnin er að jafna sig eftir faraldurinn. Fram undan eru ævintýralegir tímar. Nú einsetjum við okkur að ná öllum markmiðum okkar og tökum þátt í vextinum sem búast má við í alþjóðaflugi og ferðaþjónustu á komandi tímum,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Þjálfun áhafna í fullum gangi

PLAY hefur ráðið 45 flugmenn og ráðgerir að bæta við á annað hundrað flugliða fyrir sumarið. Þjálfun starfsfólksins hófst strax í febrúar og síðustu námskeiðin hefjast í maí. Nýir flugliðar félagsins eru ýmist reynslumiklir fyrir eða stíga nú sín fyrstu skref. Fyrsta námskeiðinu er lokið og það næsta hefst nú í apríl.

Flutningstölur apríl 2022 (pdf)Hlekkur opnast í nýjum flipa