- Fréttir
Aukin sætanýting og miðasala til Ameríku fer vel af stað
Aukin sætanýting og miðasala til Ameríku fer vel af stað
PLAY flutti 13.488 farþega í janúar og sætanýting var 55,7%, samanborið við 53,2% í desember. Mikill fjöldi kórónuveirusmita á síðustu mánuðum hefur setti hik í markaðinn og félagið aðlagaði flugáætlun sína í janúar í samræmi við það. Bókunarstaða fyrir næstu mánuði er þó mjög sterk og af henni að dæma er nokkuð augljóst að fólk er tilbúið að ferðast á sama tíma og áhrif faraldursins fara dvínandi. Með öðrum orðum er viðhorf fólks til faraldursins að breytast og það hyggur á ferðalög á ný. Til marks um sterka bókunarstöðu í janúar voru daglegar bókanir í janúar að jafnaði þrisvar sinnum hærri samanborið við daglegar bókanir í desember. Horfurnar fyrir komandi mánuði eru bjartar en PLAY er þó enn í góðri stöðu til að takast á við sveiflur í eftirspurn með sveigjanlegum rekstri, traustri fjárhagsstöðu og miklu haldbæru fé.
88,5% flugferða PLAY í janúarmánuði fóru á réttum tíma þrátt fyrir krefjandi veðurskilyrði oft og tíðum.
Sex flugvélar inn í sumarið
PLAY hefur undirritað viljayfirlýsingu um leigu á einni A321neo flugvél. Vélin verður afhent í apríl áður en Bandaríkjaflug félagsins hefst. PLAY hefur nú tryggt sér tíu flugvélar, fimm A321neo vélar og fimm A320neo vélar. Þetta er í samræmi við viðskiptaáætlun félagsins sem mun notast við sex flugvélar sumarið 2022 og tíu vélar sumarið 2023.
Ný og ódýr leið til New York
PLAY hóf miðasölu á flugi til New York í Bandaríkjunum þann 1. febrúar. Fyrsta flug PLAY til New York verður þann 9. júní og boðið verður upp á daglegt flug. PLAY mun fljúga til New York Stewart International flugvallar og verður eina flugfélagið sem býður millilandaflug til og frá vellinum. Það er mikið fagnaðarefni fyrir ferðamannaiðnaðinn og þær milljónir íbúa sem búa á svæðinu. Þetta er þriðji áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum en flug til Baltimore/Washington, D.C. hefst í apríl og flug til Boston hefst í maí.
Lendingargjöld á New York Stewart flugvelli eru 80% ódýrari en á öðrum flugvöllum í New York sem gerir það að verkum að PLAY mun geta boðið upp á lægstu fargjöldin á milli New York og Evrópu. Vegna lítillar umferðar á flugvellinum munu flugvélar PLAY eyða minni tíma í biðflug og akstur á jörðu niðri sem sparar eldsneyti, kostnað, og minnkar útblástur. Allt eru þetta atriði sem falla vel að stefnu PLAY sem gengur út á að bjóða upp á ódýr fargjöld, einfalda og þægilega þjónustu, með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Viðtökurnar létu ekki á sér standa eftir að PLAY hóf miðasölu á flugi til New York og félagið sá strax sterka bókunarstöðu meðal viðskiptavina, bæði á Íslandi, í Evrópu og í Bandaríkjunum.
„Janúar er alla jafna krefjandi mánuður í fluggeiranum og þess heldur á tímum heimsfaraldurs. Það gleður okkur því að sjá hækkandi sætanýtingu á milli mánaða en í venjulegu árferði væri sætanýting hærri í desember miðað við janúar en ekki öfugt. Það er einnig mjög hvetjandi að fylgjast með góðum viðtökum á nýjum áfangastöðum félagsins og sterkri bókunarstöðu inn í sumarið. Í vor munum við auka starfsemi okkar umtalsvert með nýjum flugvélum, nýjum áfangastöðum í Evrópu og að sjálfsögðu nýjum flugleiðum yfir Atlantshafið. Vegna jákvæðrar þróun í viðskiptaumhverfi okkar, dvínandi áhrifa kórónuveirufaraldursins á hegðun fólks og ört vaxandi eftirspurnar er ég fullviss um að við séum að auka framboð á hárréttum tímapunkti,” segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.
Flutningstölur Janúar 2022 (pdf)Hlekkur opnast í nýjum flipa