Skoða efni
7. Oct 2021

Aukin eftirspurn og nýir áfangastaðir

  • 96,2% stundvísi í september 2021
  • Sætanýting var 52,1%
  • Farmiðasala jókst aftur í september eftir lægð um sumarið vegna COVID-19 uppsveiflu
  • Gert er ráð fyrir að sætanýting í október verði betri en í september sem verður þá fjórði mánuðurinn í röð með vaxandi sætanýtingu

PLAY flutti 15.223 farþega í september. Sætanýting var 52,1% samanborið við 46% í ágúst. Betri sætanýting endurspeglar aðlögun félagsins á framboði í flugáætlun í september og aukna eftirspurn. Félagið merkir augljóslegan aukinn ferðavilja í takt við færri COVID-19 tilfelli á Íslandi og tilslakanir á sóttvarnarreglum. Eftirspurn eftir flugi til Íslands eykst jafnframt í takt við aukinn sýnileika PLAY á mörkuðum erlendis og tilslakanir á sóttvarnarreglum. Þessi jákvæða þróun teygir sig inn í október og horfur fyrir næstu mánuði eru mjög góðar. Í október er reiknað með að sætanýting verði hærri en í september, fjórða mánuðurinn í röð.

Nýjar borgir bætast við og stærsta ráðningin hingað til

PLAY tilkynnti í september að félagið hygðist ráða 100 flugliða og 50 flugmenn til að styðja við vöxt félagsins á næsta ári. Ráðningin tvöfaldar núverandi starfsmannafjölda PLAY.

Vegna jákvæðrar þróunar undanfarið hefur PLAY enn fremur bætt Amsterdam við sem nýjum áfangastað í vetraráætlunina. Fyrsta flugið til Amsterdam verður 3.desember með flugi á mánudögum og föstudögum til að byrja með en síðar munu fimmtudagar og sunnudagar bætast við áætlunina frá og með 16. desember. Fleiri nýir áfangastaðir í Evrópu verða kynntir á næstu vikum.

„Við höfum verið varfærin í áætlunum okkar út af heimsfaraldrinum en nú þegar við sjáum batamerki í ferðaþjónustunni hér heima í bland við frekari tilslakanir á ferðatakmörkunum þá sjáum við sætanýtingu aukast og við sjáum líka mjög jákvæð teikn á lofti varðandi eftirspurnina almennt. Það er óhætt að segja að við séum bjartsýn og við hlökkum til ársins 2022. Ég er líka virkilega spenntur fyrir því að bjóða nýja flugliða og flugmenn velkomna í teymið okkar og við erum stolt af því að geta skapað öll þessi nýju störf. Það eru mjög spennandi tímar fram undan,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Flutningstölur september 2021Hlekkur opnast í nýjum flipa