Skoða efni
10. Feb 2022

Anna Fríða til liðs við PLAY

Anna Fríða Gísladóttir hefur verið ráðin forstöðumaður markaðsmála hjá flugfélaginu PLAY. Hún mun leiða markaðsstarf PLAY og fara fyrir áframhaldandi uppbyggingu á ásýnd félagsins sem hefur verið miklu flugi undanfarna mánuði. Til marks um það hafnaði PLAY í þriðja sæti í árlegri könnun MMR yfir þau vörumerki sem þóttu framúrskarandi vel markaðssett árið 2021. 

Anna Fríða tekur við stöðu forstöðumanns markaðsmála af Steinari Þór Ólafssyni. PLAY þakkar Steinari fyrir vel unnin störf hjá flugfélaginu og óskar honum velfarnaðar í komandi verkefnum. 

Anna Fríða er 31 árs og kemur til PLAY frá BIOEFFECT. Þar starfaði hún sem Brand & Campaign Manager á alþjóðavísu ásamt því að sjá um markaðsmál fyrirtækisins á Íslandi. Þar áður var Anna Fríða markaðsstjóri Domino´s á Íslandi í 7 ár og sat í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Hún á einnig sæti í stjórn ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi, og sér um vikulegan lið á samfélagsmiðlum ÍMARK þar sem farið er yfir fréttir vikunnar í heimi markaðsmála á Íslandi. 

„Það er mikill fengur að fá Önnu Fríðu til okkar hjá PLAY. Hún hefur gert frábæra hluti hjá BIOEFFECT og Domino´s undanfarin ár og mun alþjóðleg reynsla hennar af markaðsmálum koma sér vel við að kynna PLAY á erlendri grundu. Það er því mikil eftirvænting fyrir komandi tímum hér hjá PLAY með þessum liðsauka,” segir Georg Haraldsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs flugfélagsins.

„Ég hlakka mikið til að vera hluti af uppbyggingu hjá Play sem hefur átt virkilega öfluga innkomu á flugmarkaðinn. Félagið hefur unnið faglegt og metnaðarfullt starf í markaðsmálum og það verður spennandi að halda þeirri vegferð áfram,“ segir Anna Fríða. 

PLAY tilkynnti þriðja áfangastaðinn sinn í Bandaríkjunum í síðustu viku, New York Stewart, en félagið mun fljúga til 25 áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu í ár. Bókunarstaða fyrir næstu mánuði er mjög sterk og af henni að dæma er ljóst að fólk er tilbúið að ferðast á sama tíma og áhrif faraldursins fara dvínandi.