Skoða efni
9. Feb 2023

Það allra helsta í Feneyjum

Feneyjar eru einn vinsælasti ferðamannastaður heims og ómissandi viðkomustaður allra sem vilja kynnast Ítalíu og óviðjafnanlegum borgum hennar betur. Þessi forna borg sem á sér rúmlega 1200 ára sögu hefur verið framúrskarandi leikmynd í ótal kvikmyndum þökk sé mögnuðum kirkjunum, gotneska arkitektúrnum, gullfallegri borgarmyndinni og ríkri sögunni. Feneyjar eru líklega frægastar fyrir falleg síkin sem á sínum tíma þjónuðu norðurhluta Ítalíu sem gríðarlega mikilvæg samgönguæð.

Feneyjar eru líka frægar fyrir listasenuna, tónlistina og menningarlífið. Hér er að finna ótal söfn, gallerí og úrval tónleika og annarra menningarviðburða er nær ótæmandi. Það getur því borgað sig að vita hvert á að halda og hverju má alls ekki missa af í fyrstu heimsókn til Feneyja.

1. Skoðaðu síkin

Feneyjar eru frægastar fyrir forna kanalana eða síkin sem liggja eins og gatnakerfi um alla borgina. Fegurð þeirra er raunverulega einstök og eftir að sérstakt átak var gert í hreinlætismálum borgarinnar hafa þau aldrei litið betur út. Það er að sjálfsögðu best að njóta þeirra úr alvöru gondóla og láta sig líða í gegnum borgina og dást að guðdómlegum byggingunum, höllunum, kirkjunum og götumyndunum á leiðinni.

Ekki skal þó vanmeta góðan göngutúr í Feneyjum. Það er annars konar upplifun að rölta hér um þröng strætin og sundin, yfir sjarmerandi brýr og ævintýraleg torg. Þótt það sé freistandi að fara út í ítölsku leðri og háum hælum mælum við sérstaklega með góðum strigaskóm því það er nánast óhjákvæmilegt að villast, sem er bara skemmtilegur hluti af ævintýrinu ef skófatnaðurinn þolir það.  

view from Academy Bridge on grand canal
mazing architecture of the Piazza San Marco square with Basilica of Saint Mark in Venice city, Italy

2. Röltu um Markúsartorg

Markúsartorg er líklega eitt frægasta og fegursta torg í heimi. Torgið sjálft er síðan umkringt einhverjum fallegustu byggingum Feneyja, þ.m.t. Hertogahöllin, Markúsarkirkja og byggingarnar Procuratie Vecchie og Procuratie Nuove ásamt bogagöngunum sem einkenna torgið. Allt í kring eru síðan dásamlegir veitingastaðir og kaffihús sem bjóða að sjálfsögðu upp á ekta ítölsk góðgæti.

Það má líka færa rök fyrir því að Markúsartorg sé eitt af bestu menningarsetrum Evrópu því á torginu eru reglulega haldnir ókeypis viðburðir, tónleikar og listahátíðir yfir sumarmánuðina. Við mælum svo sérstaklega með því að fólk gefi sér tíma til að sötra á kaffibollanum á Markúsartorgi og fylgist með iðandi mannlífinu á meðan þúsundir ferðamanna frá öllum heimshornum ganga fram hjá.

 

Vefsíða: https://www.introducingvenice.com/piazza-san-marcoHlekkur opnast í nýjum flipa

Heimilisfang: P.za San Marco, 30100 Venezia VE, Ítalía

3. Skoðaðu eyjuna Murano

Eyjan Murano er fræg fyrir glerlistagerðina sem hefur verið rótgróinn hluti af eyjunni frá því á 13. öld og þetta er ómissandi áfangastaður fyrir alla sem heimsækja Feneyjar. Listunnendur og fagurkerar ættu að vera þar fremstir í flokki. Á eyjunni er að finna nokkrar áhugaverðar glerlistaverksmiðjur ásamt safni helguðu listforminu sem segir áhugaverða sögu þessa handverks á eyjunni og sýnir áhugaverða antíkmuni úr gleri. Við mælum svo sérstaklega með kirkjunum Duomo di Murano Santi Maria e Donato og Chiesa di Santa Maria degli Angeli fyrir þá sem vilja hljóða íhugun og/eða merkilega sögu og arkitektúr. 

4. Bragðaðu á því besta á Alle Testiere

Ef þig langar út að borða á kósí og huggulegan stað í Feneyjum er Alle Testiere frábær valkostur. Á matseðlinum er besta sjávarfang hvers árstíma í þessum hluta Ítalíu og sjávarréttirnir hérna eru rómaðir fyrir framúrskarandi bragð og ferskleika. Það er alltaf óhætt að mæla með sjávarrétta-risotto og grilluðum kolkrabba á Alle Testiere.

Það spillir ekki upplifuninni að veitingastaðurinn er í gullfallegu og sögufrægu hverfinu Santa Croce. Andrúmsloftið er vinalegt og hlýlegt og þetta er því frábær staður að vera á til að fagna tímamótum eða eiga rómantíska kvöldstund.

 

Vefsíða: http://www.osterialletestiere.it/Hlekkur opnast í nýjum flipa

island, bridge across water canal, boats, motor boats, colorful traditional buildings, Venetian Lagoon, Veneto Region, San Michele in Isola Catholic church
Rialto bridge and Grand Canal in Venice, Italy. Architecture and landmarks of Venice

5. Farðu á matreiðslunámskeið hjá meisturunum

Eitt af bestu skemmtunum Feneyja er að fara á matreiðslunámskeið því þeir vita sannarlega hvað þeir elda kokkarnir á Ítalíu og Feneyjar eru þar engin undantekning. Þetta er frábær leið til að kynnast frægustu réttum borgarinnar og fá betri innsýn inn í ítalska matargerðalist. Hráefni, eldunaraðferðir og klassískir réttir eru oftar en ekki efst á baugi.

Dæmi um matreiðslunámskeið sem fá frábær meðmæli eru Cook in Venice og Mama Isa en bæði námskeið eru skemmtileg leið til að fræðast um matargerðarlist Feneyja. 

Spennandi?

Skoða flug til Feneyja

Finna flug

6. Virtu fyrir þér brúna Rialto

Það er enginn skortur á frægum kennileitum í Feneyjum en mjög ofarlega á þeim lista er líklega Rialto-brúin. Þetta er elsta brúin yfir Canal Grande en saga hennar nær aftur til ársins 1591. Af brúnni er magnað útsýni yfir Canal Grande og allt í kring er úrval af frábærum verslunum, veitingastöðum, kaffihúsum og krám og fyrir vikið er alltaf stemning á þessu svæði.

Brúin tengir saman hverfin San Polo og San Marco en arkitektinn Antonio da Ponte hannaða brúna eftir að sú eldri þótti orðin of veikburða fyrir fólksfjöldann sem notaði hana daglega. Brúin er í dag eitt helsta kennileiti Feneyja og vitnisburður um fallegan arkitektúr og verkfræðiafrek síns tíma og hér er tilvalið að ná góðum myndum. Það eru hins vegar margir þeirrar skoðunar svo það borgar sig að mæta snemma til að vera á undan mesta fólksfjöldanum.

 

Vefsíða: https://www.italyguides.it/en/veneto/venice/rialto-bridgeHlekkur opnast í nýjum flipa

7. Njóttu Markúsarkirkju

Eitt besta útsýni yfir Feneyjar er úr turni Markúsarkirkju. Smávægilegt gjald er tekið fyrir aðgang að turninum en það er hverrar krónu virði því þetta útsýni er raunverulega einstakt. Kirkjan er helguð Markúsi, verndardýrling borgarinnar. Hún var upprunalega byggð á 9. öld og er eitt magnaðasta dæmi um býsanskan arkitektúr í heiminum.

Flestir sem heimsækja Markúsarkirkju taka andköf yfir gylltum mósaíkskreytingunum en ekki missa af ótrúlegu marmaragólfinu og mögnuðum listaverkunum þegar þú kemst yfir gullið.

 

Heimilisfang: P.za San Marco, 328, 30100 Venezia VE, Ítalía

Vefsíða: http://www.basilicasanmarco.it/informazioni-per-i-turisti/orari-di-apertura/?lang=enHlekkur opnast í nýjum flipa

Piazza San Marco with the Basilica of Saint Mark and the bell tower of St Mark's Campanile (Campanile di San Marco) in Venice, Italy
Peggy Guggenheim Collection Modern Art Museum at The Grand Canal in Venice on a sunny day

8. Skoðaðu Peggy Guggenheim-safnið

Listáhugamenn í Feneyjum mega alls ekki missa af Peggy Guggenheim-safninu. Þetta þykir eitt merkilegasta listasafn í heimi en hér er að finna verk eftir meistara á borð við Picasso og Max Ernst.

Það er ekki verra að safnið er að finna í fallegri byggingu í mögnuðu umhverfi við Canal Grande og útsýnið yfir borgina er ógleymanlegt hér. Þetta er virkilega ómissandi viðkomustaður í Feneyjum og aðgangseyririnn er vel þess virði til að mega virða fyrir sér einhver merkilegustu sköpunarverk mannkynssögunnar.

 

Vefsíða: https://www.guggenheim-venice.it/en/the-museum/Hlekkur opnast í nýjum flipa

Heimilisfang: Dorsoduro, 701-704, 30123 Venezia VE, Ítalía

Feneyjar: Ómissandi viðkomustaður allra ferðalanga

Feneyjar verða seint kallaðar falin perla. Borgin er auðvitað mjög vinsæll ferðamannastaður og iðar af mannlífi. En það er ástæða fyrir þessum vinsældum og Feneyjar eiga enn erindi til allra sem vilja sjá og skoða heiminn.

Þessi blanda af listum, sögu, menningu og gullfallegu umhverfi er virkilega ómótstæðileg og eitthvað sem allir ættu að upplifa, að minnsta kosti einu sinni á ævinni.


Spennandi?

Skoða flug til Feneyja

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Öðruvísi afþreying í og við Alicante


Afþreying í Feneyjum