Skoða efni
10. Mar 2022

Sólríkar strendur Malaga

Malaga

Hvernig hljómar sólarfrí á evrópskri strönd núna? Fáir staðir henta betur fyrir slík draumaverkefni en Malaga sem státar sig af rúmum 300 sólardögum á ári, hlýjustu vetrum Evrópu og sjóðandi heitum sumrum. En leynivopn Malaga í baráttunni um sólþyrsta ferðamenn eru líklega heimsfrægar sólarstrendurnar.

Hver strönd í Malaga hefur sinn eigin sjarma. Hér má finna barnvæna fjölskyldustaði, jaðarsport og vatnaíþróttir og partístrendur með fjölbreyttum börum og stemningu. Costa del Sol strandlengjan er nánast ótæmandi uppspretta af dásamlegum baðströndum og gullfallegum göngugötum við sjávarsíðuna og úrvalið er slíkt að það getur verið erfitt að velja.

Við höfum því tekið saman brot af því besta til að stytta þér sporin á ströndina.

1. Playa La Malagueta

Playa La Malagueta er frábær valkostur fyrir fólk á öllum aldri. Ströndin er 1.200 metra löng og er þægilega nálægt miðbænum sem er í aðeins 10 mínútna göngufjarlægð. Þegar hungrið sverfur að er nóg af börum og veitingastöðum við göngugötuna þar sem úrvalið er fjölbreytt og innblásturinn sóttur frá öllum heimshornum.

Þetta er frábær strönd fyrir börn því hér er nóg af vatnasporti og leiktækjum. Hér má líka leigja hengirúm og sólhlífar fyrir þá sem vilja verja öllum deginum á staðnum. Yfir sumarmánuðina er Play La Malagueta þéttsetnasta strönd Malaga og því er enginn skortur á framboði á alls kyns afþreyingu.

Staðsetning: Paseo Marítimo Pablo Ruiz Picasso, 29016, Málaga.

Playa La Malagueta
Playa de La Caleta

2. Playa de La Caleta

Ef þú ert að leita að frábærum en ódýrum lúxus með rándýrum bakgrunni fyrir Instagram er Playa de La Caleta staður fyrir þig. Ströndin liggur við eitt dýrasta hverfi Malaga og er umkringd glæsihýsum af fínustu gerð. Þessi glæsilegu hús voru byggð af elítunni á 19. öld og eru vægast sagt myndrænn lúxusbakgrunnur fyrir hina fullkomnu sjálfu.

Á heitustu sumarmánuðum þurfa allir góðan svaladrykk og hér er að sjálfsögðu hugsað fyrir því. Á þessari kílómetra löngu strandlengju er aragrúi af strandbörum og auðvelt að finna rétta drykkinn og réttu stemningu. Playa de La Caleta er líka full af alls kyns vatnaíþróttum, þ.m.t. sækattaleigu og seglbretti. Lífverðir eru á vakt yfir sumarmánuðina ef einhver ofmetur hæfileikana og fer sér að voða í sjónum.

Staðsetning: Paseo Marítimo Pablo Ruiz Picasso, 33, 29016 Málaga.

3. Playa del Almayate

Það er ekki mikið framboð af nektarströndum í Malaga en sú allra besta er líklega Playa del Almayate. Þetta er 800 metra róleg strandlengja og hún hefur verið valin ein af þremur bestu nektarströndum Spánar.

Þetta er enn fremur fullkominn staður fyrir þá sem vilja komast úr ferðamannastraumnum og slaka á í öðruvísi stemningu. Það eru engir barir eða veitingastaðir á ströndinni sjálfri en mat og drykk má nálgast við ströndina og á gististöðunum allt um kring.

 

Staðsetning: Playa de Almayate, Vélez-Málaga, 29700, Vélez-Málaga.

Playa del Almayate
Playa Peñón del Cuervo

4. Playa Peñón del Cuervo

Ef stórir hópar og strandbarir eru ekki þinn tebolli mælum við sérstaklega með Playa Peñón del Cuervo. Þetta er mögulega besti valkosturinn fyrir þá sem vilja komast í hvarf frá sumarumferðinni í gullfallegu umhverfi. Ströndin er fræg fyrir „peñon“ (grjótið) sem rís upp úr hafinu og skiptir 450 metra strandlengjunni í tvennt. Pálmatré við ströndina veita svalandi skugga og ramma inn þessa sérstöku sumarparadís. 

Besta leiðin til að komast hingað er á bíl en fjarlægðin frá þéttbýlinu í Malaga gerir þetta að tilvöldum stað fyrir strandpartí, grillveislur og tónleika og um helgar er hér yfirleitt nóg af ungu fólki í slíkum erindagjörðum.

Staðsetning: Carretera de Almerìa la Araña, 29720 Málaga.

Spennandi?

Skoða flug til Malaga

Finna flug

5. Playa de la Misericordia

Tvo kílómetra suður af miðbæ Malaga er Playa de la Misericordia, stórkostleg strönd með fyrirtaks brimbrettaskilyrðum. Ólíkt öðrum ströndum Malaga eru atvinnuvegir fortíðarinnar einkennandi fyrir Playa de la Misericordia en 19. aldar skorsteinn trónir hér yfir göngugötunni.  

Að auki er þetta frábær strönd á sumarkvöldum enda fyllist hún af fólki á öllum aldri sem mætir með brimbrettin. Straumar geta verið öflugir hér og því borgar sig að fylgjast vel með börnum í sjónum. Þú gætir líka heyrt heimamenn tala um Ola del Melillero, en það er hraðskreið ferja sem leggur að í Malaga á hverju kvöldi og henni fylgir risastór alda sem slær iðulega í gegn hjá brimbrettaköppunum.

Staðsetning: Paseo Marítimo Antonio Banderas, 29004 Málaga.

Playa de la Misericordia
Playa El Salón, Nerja

6. Playa El Salón, Nerja

Ef kristaltær sjór og skjannahvítar strendur eru draumurinn ætti hann að rætast á Playa El Salón, Nerja. Þangað er hægt að fara með rútu eða í bíl á innan við klukkutíma frá miðbæ Malaga. Playa El Salón er vinsæll áfangastaður meðal Spánverja enda býður hún upp á gullfallegt landslag og nóg af aðbúnaði og þægindum.

Það eru engir barir eða veitingastaðir við ströndina sem er að sjálfsögðu fulllkomið fyrir þá sem vilja flýja ferðamannastrauminn á vinsælustu stöðum Malaga. Það er þó alltaf hægt að rölta stutta leið inn í miðbæ Nerja og ná sér í mat og drykk á veitingastöðum og börum þar.

Staðsetning: El Salón beach, 29780, Nerja.

7. Playa El Cristo, Estepona

Estepona er nágrannaborg Malaga og þar er mikið úrval af frábærum ströndum. Sú allra besta er líklega Playa El Cristo sem liggur í lítilli vík með tærum sjó og gullfallegum hvítum sandi. Estepona er 50 mínútna akstur frá Malaga og hverrar mínútu virði.

Sjórinn í Playa El Cristo er alltaf hlýrri en við aðrar strendur á svæðinu og staðsetningin þýðir að sólin skín hér lengur en á flestum öðrum stöðum. Höfnin í Estepona er síðan rétt hjá og þar er nóg af börum, veitingastöðum og gamall viti fyrir þá sem þurfa að brjóta upp sólbaðið og leguna.

Staðsetning: Av. del Carmen, s/n, 29680 Estepona, Málaga.

Playa El Cristo, Estepona
Playa del Puerto Puerto Banús, Marbella

8. Playa del Puerto Puerto Banús, Marbella

Þeir sem þrá að heimsækja Marbella – einn af mestu lúxusáfangastöðum Spánar – munu elska Playa del Puerto Puerto Banús. Þetta er mesta lúxusströndin í allri Marbella og liggur á milli Rio Verde og Puerto Banús hafnar. Þetta er aðeins klukkutímaakstur frá Malaga og vel þess virði að leggja í lítinn leiðangur.

Ströndin nær yfir 1.500 metra og er að jafnaði 40 metra breið. Hér er úrval af fyrsta flokks veitingastöðum og börum fyrir þá sem þurfa hressingu. Ströndin er líka haldberi bláa fánans, viðurkenningar á vegum EFEE (The European Foundation for Environmental Education).

Staðsetning: Puerto Banús, 29601, Marbella.

Að lokum

Malaga er mögulega besti sólaráfangastaður Spánar. Strendurnar hér eru stappfullar af gómsætum mat, botnlausu sólskini, dásamlegu veðri, spennandi vatnasporti og lifandi börum á kvöldin eftir sólbakaða daga. Þeir sem eru á bíl geta síðan farið lengra í leit að enn betri ströndum við sjávarsíðuna.

 

Þetta er ástæðan fyrir því að Malaga er stórkostlegur sólaráfangastaður í Evrópu.

Spennandi?

Skoða flug til Malaga

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Viltu kynnast Madríd betur?


Afþreying í Malaga