Skoða efni
18. May 2022

Fyrstu kynni af Mallorca

Ertu að leita að áfangastað sem býður upp á fullkomna blöndu af fallegu umhverfi, ljúfri afslöppun, skemmtilegri hreyfingu og ómissandi gullmolum sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara? Þá er Mallorca svarið.

Mallorca er stundum kölluð „stjarna Miðjarðarhafsins“. Þessi nafnbót er virkilega verðskulduð því Mallorca er full af fjölbreyttu landslagi, gómsætum mat og afslöppuðum stundum í anda eyjaskeggja.

Hér er margt að sjá og gera, þ.m.t. sögulegir staðir, æðislegir golfvellir, frábærar hjólaleiðir og hressandi vatnaíþróttir. Þá er ótalið helsta aðdráttarafl Mallorca sem er án efa sólin, strendurnar, hitinn og afslöppunin. Mallorca er stærst Baleareyja í Miðjarðarhafinu og sú þekktasta en fyrir þá sem þekkja hana ekki fylgir hér stutt kynning með því allra helsta.

Helstu áfangastaðir Mallorca

Það gleymist stundum að Mallorca er ekki bara strandhótel og sandalar. Eyjan hefur spilað sinn þátt í sögunni og hér vantar sannarlega ekki listir, arkitektúr og menningu. Það er því kjörið að brjóta upp sandleguna með menningarlegum stundum og náttúruundrum Mallorca.

Palma Dómkirkjan

Dómkirkjan í Palma er líklega helsta kennileiti Mallorca. Þessi stórfenglega bygging er sannarlega listaverk en skreytingarnar innan í kirkjunni eru m.a. eftir listamennina Miquel Barcelo og Antoni Gaudí.

Áður stóð á þessum sama stað moska í borg sem þá hét Madina Mayurqa. Bygging dómkirkjunnar hófst árið 1300 en lauk ekki fyrr en 1601.  

Byggingin er fyrst og fremst gotnesk með þaksvölum og stærsta rósaglugga Evrópu. Dómkirkjan var gerð upp eftir mikinn jarðskjálfta 1851 en þá var nýgotneskum skreytingum bætt við endurreisnarhönnun kirkjunnar.

Við mælum með því að gestir klífi þrepin 280 upp á topp til að njóta stórfenglegs útsýnisins yfir borgina og hafið.

Mallorca Palma Cathedral
Mallorca National Park Woman Binoculars

Palau de l’Almudaina höllin

Palau de l’Almudaina er táknrænt heimili Spánarkonungs. Þótt konungurinn sjálfur sé yfirleitt ekki á staðnum dregur það ekkert úr mikilfenglegri byggingalist hallarinnar.

Upprunalega var þetta virki Araba en Jaume II konungur Mallorca, endurgerði bygginguna og gerði að konunglegri höll. Gotneskir bogar, glæsilegir salir, íburðarmiklar skreytingar og gullfallegur rómanskur marmari einkenna þessa glæsilegu höll.

 

Parc Natural de S’Albufera garðurinn

De S’Albufera þjóðgarðurinn nær yfir 688 hektara af vernduðu votlendi og gönguleiðum. Fuglaáhugamenn mega ekki láta þennan dásamlega stað fram hjá sér fara.

Aðgangur að garðinum er ókeypis en það þarf að skrá sig og fá leyfi á þjónustumiðstöð á staðnum. Hér búa um 303 dýrategundir.

Vitað er um 64 fuglategundir sem búa í garðinum á fengitíma. Að auki eru hérna 400 plöntutegundir, þ.m.t. villiblóm sem ljá garðinum stórfenglega litadýrð á vorin.

Gönguleiðir eru allt frá hálftíma í 3,5 klst. sem þýðir að allir ættu að finna sér hreyfingu við hæfi. Garðurinn er einmitt sérstaklega vinsæll fyrir kyrrðina og friðinn sem fylgir þessari náttúruperlu.

Spennandi?

Skoða flug til Mallorca

Finna flug

Palau March

Palau March er eitt af húsum March-fjölskyldunnar sem er þekkt fyrir gríðarleg auðæfi sín. Húsið er nú safn og safneignin er sannarlega ekki af ódýru gerðinni.

Þegar gengið er inn á safnið um útisvæðið taka á móti gestum einstakir nútímaskúlptúrar, þar á meðal Orgue del Mar eftir Corberó.

Þegar inn í húsið er komið ber helst að nefna steinprent eftir Dalí og safn af helgimyndum. Helgimyndirnar þykja einstakar og tengjast fæðingu Krists með tilheyrandi englum og húsdýrum.

Listamaðurinn Josep Maria Sert málaði loftið í tónleikasal og aðalsal Palau March. Verkin vísa í hugsjónir, s.s. skynsemi og innblástur.  

 

Polléntia

Á Mallorca er að finna rómverskar rústir borgarinnar Polléntia. Hús hinna tveggja fjársjóða (Casas dels Dos Tresors) er ótrúlega vel varðveitt og gefur gestum og gangandi tækifæri til að sjá upprunalegt hús frá tímum Rómverja.

Hér má einnig sjá það sem eftir stendur af upprunalega rómverska torgi borgarinnar, hjarta rómverskra lifnaðarhátta með tilheyrandi verslunum og hofum. Í Polléntia má meira að segja finna rómverskan leikvang.

Á sínum tíma tók leikvangurinn á móti allt að 1.000 gestum en hlutar af sviði og sætispöllum standa enn.

Mallorca Beach Bay
Mallorca Golf Ball Club

Ævintýri og afþreying á Mallorca

Mallorca er full af menningu, sögu og ævintýrum en það er líka ómissandi hluti af dvölinni að dýfa tánni í hressandi hreyfingu undir berum himni.

Vatnasport á Mallorca

Það er enginn skortur á spennandi vatnasporti á Mallorca. Bátsferðir eru vinsæl skemmtun og bjóða nýtt sjónarhorn í skoðunarferð um eyjuna.

Skipulagðar ferðir með leiðsögn tryggja að gestir missa ekki af neinum lykiláfangastöðum Mallorca. Það er fátt huggulegra en að baða sig í sólinni á Mallorca, njóta sólseturs á hafi úti og láta aðra sjá um að rétta þér ljúffengan mat og drykk.

Þeir sem vilja meiri spennu, hraða og æsandi ævintýri geta leigt kajak eða sækött til að kynnast eyjunni af sjó.

Að snorkla eða kafa er víða í boði og það er virkilega mögnuð upplifun að sjá hvað leynist undir yfirborðinu úti fyrir ströndum Mallorca. Gullfallegar víkur, neðansjávarhellar, dramatískir kletta og náttúrulegar strandir ramma síðan inn þessa einstöku upplifun að hitta neðansjávarlífríki Mallorca.

Hreyfing á þurru landi

Þeir sem þurfa að láta sig þorna eftir allt sjávarsullið hafa úr nægu að velja á þurru landi. Ber þar helst að nefna yfir 20 golfvelli Mallorca en 10 þeirra mæta alþjóðlegum skilyrðum um formlega golfvelli.

Hvort sem þú ert algjör byrjandi eða þaulreyndur kylfingur eru fáir staðir í heiminum sem bjóða betri skilyrði (í veðri og útsýni) á golfvellinum.

Ef hringur á golfvellinum er of mikil skuldbinding er tilvalið að kíkja á einn af mörgum púttvöllum eyjunnar. Þar eru færri holur og þær eru allar par 3. Þetta eru fullkomnir staðir fyrir byrjendur eða þá sem vilja bara aðeins taka í kylfurnar án þess að verja öllum deginum á vellinum.

Komdu púlsinum á skrið með nokkrum umferðum í aparólum eða á sigæfingum. Þetta er tilvalið fjör fyrir spennufíkla sem vilja svífa hátt yfir dölum Mallorca eða klifra og síga í frægum klettum eyjunnar.

Það er ekki að ástæðulausu sem Mallorca er svona vinsæll áfangastaður þeirra sem vilja bara komast í frábært frí. Við bjóðum ódýrt flug til Mallorca og skorum á þig að íhuga alvarlega hvort þessi áfangastaður sé ekki meira en þess virði.

Spennandi?

Skoða flug til Mallorca

Finna flug
Feneyjar
NÆST Á DAGSKRÁ

Bestu dagsferðirnar frá Feneyjum


Afþreying í Mallorca